Borgarleikhúsið

Steinþór Sigurðsson (1933-2022)

9 feb. 2022

Steinþór Sigurðsson, leikmyndahönnuður og heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur er látinn, 88 ára að aldri.


Steinþór var um áratugaskeið einn helsti leikmynda- og búningahönnuður Leikfélags Reykjavíkur, en hann vann að á annað hundrað sýningum Leikfélagsins á ferli sínum.

Steinþór stundaði nám við Listaháskólann í Stokkhólmi 1953-57 og Listaakademíuna í Barcelona 1957-58 og vakti snemma athygli á myndlistarsviðinu, en fljótlega eftir heimkomu tók hann að hanna leikmyndir. Fyrsta leikmynd Steinþórs hjá LR var í verkinu Tíminn og við eftir J. B. Priestley árið 1960, en í kjölfarið fylgdi fjöldi fjölbreyttra leikmynda sem vöktu aðdáun og hrifningu og má þar meðal annarra nefna Hart í bak (1962), Dúfnaveisluna (1966), Þið munið hann Jörund (1970) og Ofvitann (1979). Steinþór sat um árabil í stjórn Leikfélagsins og í byggingarnefnd Borgarleikhússins frá upphafi. Hann hlaut heiðursverðlaun Grímunnar árið 2012. Síðasta verkefni Steinþórs hjá Leikfélagi Reykjavíkur var í sýningunni Öfugu megin uppí árið 2003, þar sem hann hannaði bæði leikmynd og búninga.

Steinþór var burðarás í starfi Leikfélags Reykjavíkur um áratugaskeið og hafa fáir leikmyndahönnuðir átt jafn mikinn þátt í sögu Leikfélagsins.

Starfsfólk Borgarleikhússins sendir aðstandendum Steinþórs dýpstu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning þessa merka listamanns.