Borgarleikhúsið

Þorleifur Örn leikstjóri ársins í Þýskalandi

6 nóv. 2018

Um síðustu helgi hlaut Þorleifur Örn Arnarsson, leikstjóri,  eftirsóttustu leiklistarverðlaun Þýskalands, Fástinn (Der Faust) fyrir leikstjórn á Eddu í ríkisleikhúsinu í Hannover sem frumsýnd var í mars síðastliðnum. 

Verðlaunin eru afar mikils metin á þýska málsvæðinu og glæsilegur árangur að ná svo langt í leikhúsheimi sem stendur fremst í flokki. Í sýningunni er velt fyrir sér grundvallarspurningum um uppruna okkar og örlög og sagt frá framandi heimi með stórkostlegum aðferðum leiklistarinnar sem þeir félagar Þorleifur og Mikael Torfason láta fléttast inn í okkar tíma þannig að við upplifum og skiljum. Frammistaða leikhópsins í þessari áhrifamiklu sýningu er lofuð í hástert bæði í leik og meðferð tungumálsins. Mikael Torfason skrifaði handritið ásamt Þorleifi enda hafa þeir unnið náið saman undanfarin ár.

Þorleifur útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2003 og hóf strax að starfa sem leikstjóri hér heima, í Helsinki og í Sidney. Hann hefur sett upp ýmsar sýningar með leikhópum á Íslandi. Hann setti meðal annars upp Eilífa hamingju og Eilífa óhamingju, í samstarfi við Andra Snæ Magnason, á vegum Hins lifandi leikhúss í Borgarleikhúsinu. Jafnframt leikstýrði hann Sveinsstykki, einleik Arnars Jónssonar, sem settur var upp í Loftkastalanum, í samstarfi við Hið lifandi leikhús.

Hann lauk námi í leikstjórn frá Ernst Busch leiklistarháskólanum í Berlín árið 2009 og réði sig skömmu síðar sem aðalleikstjórnandi við borgarleikhúsið í Konstanz þar sem hann leikstýrði m.a. Lé konungi og Mutter Courage. Síðar starfaði hann víða í Þýskalandi og Sviss og setti meðal annars upp Meistarann og Margarítu í Tübingen, Pétur Gaut í Luzern, Rómeó og Júlíu og Óþelló í St. Gallen, Leðurblökuna, La Bohème og Lohengrin í óperuhúsinu í Augsburg, Guðdómlega gleðileikinn í Mainz, Pétur Gaut, La Bohème og Túskildingsóperuna í Wiesbaden, Sigfried í Karlsruhe og auk Eddu sviðsetti hann Hamlet í Hannover. Í Þjóðleikhúsi Norðmanna í Osló setti hann upp Villiöndina og Fjandmann fólksins í sameiginlegri leikgerð hans og Mikaels Torfasonar. Þeir munu sviðsetja Faust í sama leikhúsi síðar í vetur. 

Þorleifur leikstýrði Njálu í Borgarleikhúsinu sem tilnefnd var til ellefu Grímuverðlauna og hlaut samtals tíu verðlaun. Engin önnur sýning hefur fengið jafn mörg verðlaun frá því að byrjað var að veita þau. Og Guð blessi Ísland var sýnd á Stóra sviðinu í fyrra. Báðar þessar sýningar voru unnar í náinni samvinnu þeirra Mikaels og mikilfenglegar sýningar báðar tvær. Þorleifur hefur einnig starfað í Þjóðleikhúsinu og sett upp m.a. Engla alheimsins og Sjálfstætt fólk. Hann hlaut ásamt samverkafólki sínu Grímuverðlaunin fyrir Engla alheimsins, en sú sýning gekk fyrir fullu húsi í þrjú leikár. Hann var tilnefndur ásamt Andra Snæ Magnasyni til Grímuverðlaunanna fyrir leikverkin Eilífa hamingju og Eilífa óhamingju.

Ferill Þorleifs er stór í sniðum og fáu líkur. Eins og hingað til verður skemmtilegt að fylgjast með afrekum Þorleifs þegar hann er kominn í eðalklassa leikstjórnarinnar. Ýmsar dyr standa honum opnar og við óskum honum gæfu og gengis.  

Næstu sýningar á Edda (Die Edda) verða 17. nóvember og 22. desember og hefjast kl 18:30 og lýkur kl 22:10. Formáli að sýningunni verður þann 17. nóv og hefst hann kl 17:45. Að lokinni þeirri sýningu verður eftirmál, eða umræður með Mikael og Þorleifi.

Ljósmynd: Rut Sigurðardóttir/Grapevine fyrir viðtal í tengslum við sýninguna Guð blessi Ísland.