Borgarleikhúsið

  • Faust Þorsteinn Gunnarsson

Þorsteinn Gunnarsson áttræður í dag

18 des. 2020

Þorsteinn Gunnarsson er fæddur í Reykjavík 18. desember 1940. Strax að loknu stúdentsprófi frá MR hélt hann til náms í húsagerðarlist við Det Kongelige Akademie for de Skönne kunster í Kaupmannahöfn, lauk þaðan prófi árið 1966. 

Hann var fyrstur Íslendinga til þess að útskrifast úr þeirri deild skólans sem sérhæfir sig í endurgervingu gamalla húsa og könnun eldri byggðar. Samhliða náminu í Kaupmannahöfn var Þorsteinn við sérnám í byggingafornleifafræði við École francaise d´ archéologie d´ Athénes í Grikklandi. Þorsteinn hlaut viðurkenningu Minjastofnunar Íslands fyrir skömmu fyrir mikilvægt brautryðjendastarf á sviði varðveislu menningarminja. Með komu Þorsteins til starfa urðu þáttaskil í húsaverndarmálum hér á landi. Sem fyrsti íslenski arkitektinn með sérmenntun í byggingarsögulegum rannsóknum húsa innleiddi hann ný og fagleg vinnubrögð. Meðal annars vann hann um langt skeið að endurreisn merkra bygginga á Íslandi, m.a. Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju, Nesstofu og Bessastaðastofu, Stjórnarráðshússins og Alþingishússins, Dómkirkjunnar í Reykjavík og Hóladómkirkju. Einnig er hann einn þriggja arkitekta Borgarleikhússins.

Á menntaskólaárunum tók hann þátt í leiklistarstarfi Herranætur og lék einnig nokkur hlutverk hjá Leikfélaginu. Fyrsta hlutverk hans var í Browning þýðingunni eftir Terrence Rattigan sem frumsýnt var í Iðnó árið 1957. Reyndar nam Þorsteinn leiklist við Leiklistarskóla Þjóðleikhússins samhliða menntaskólanámi en eftir heimkomu frá Kaupmannahöfn hóf hann nám við Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur og brautskráðist þaðan árið 1968. Hann var ráðinn á fastan samning hjá LR árið 1971 og var fastráðinn í um þrjá áratugi, lék í um það bil sjötíu leikverkum auk þessa að leikstýra. Hann var leikhússtjóri ásamt Stefáni Baldurssyni árin 1980 – 1983. Á meðal minnisstæðra hlutverka má nefna Umba í Kristnihaldi undir Jökli eftir Laxness sem var fyrsta stóra leikhlutverk hans og fyrsti meiriháttar leiksigur. Hann lék Trígórin í Mávnum eftir Anton Tsjekhov, Kúrt í Dauðadansi eftir August Strindberg, Petrútsíó í Snegla tamin og Óberon í Draumi á Jónsmessunótt eftir William Shakespeare, Steinþór í Sölku Völku eftir Laxness, Meistarann í Ég er meistarinn eftir Hrafnhildi Hagalín, titilhlutverkið í Faust sem innblásið var af samnefndu leikriti Goethes og Ludvig Rosencranz í Hótel Volkswagen eftir Jón Gnarr. Auk þess lék Þorsteinn nokkrum sinnum í Þjóðleikhúsinu, meðal annars í leikriti Jökuls Jakobssonar, Í öruggri borg og Assessor Arnas Arnæus í Íslandsklukkunni. Hann leikstýrði m.a. Atómstöðinni eftir Laxness, Makbeð eftir Shakespeare, Villiöndinni eftir Ibsen, Guð gaf mér eyra eftir Mark Medoff. Þorsteinn hlaut Stefaníustjakann árið 1972.

Þorsteinn er heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur og óskum við honum innilega til hamingju með afmælisdaginn og þökkum honum fyrir langa og góða samveru og samstarf.

Þorsteinn Gunnarsson

Mynd: Kristnihald undir Jökli árið 1970
Þorsteinn sem Umbi ásamt Gísla Halldórssyni sem Séra Jón Prímus.
Leikstjórn: Sveinn Einarsson; Leikmynd og búningar: Steinþór Sigurðsson; Ljósmynd: Oddur Ólafsson. Varðveitt hjá Borgarskjalasafni.

Mynd efst í haus fréttar: Faust árið 2010

Leikstjórn: Gísli Örn Garðarsson; Leikmynd: Börkur Jónsson; Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Ljósmynd: Grímur Bjarnason.