Borgarleikhúsið

Tilnefningar til Grímuverðlaunanna 2022

27 tilnefningar til Borgarleikhússins.

7 jún. 2022

Sýningin 9 líf, sem sýnd er á Stóra sviði Borgarleikhússins, fékk alls tíu Grímutilnefningar en tilkynnt var um tilnefningarnar í dag. Alls fengu níu sýningar Borgarleikhússins samtals 27 tilnefningar.

,,Við erum þakklát og sæl með þessa fínu uppskeru. Loksins komumst við af stað með afgerandi hætti og Borgarleikhúsið sýnir enn á ný mátt sinn og metnað. Við brosum hringinn með 27 tilnefningar fyrir fjölbreytt verkefni, þar af 10 fyrir stórsýninguna 9 líf,” segir Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins.

9 líf fékk tilnefningu sem sýning ársins, Ólafur Egill Egilsson sem leikstjóri ársins og fékk hann einnig tilnefningu fyrir leikrit ársins. Halldóra Geirharðsdóttir er tilnefnd sem leikkona ársins í aðalhlutverki, Björn Stefánsson sem leikari ársins í aðalhlutverki auk þess sem þau fengu bæði tilnefningar sem söngvarar ársins. Lee Proud er tilnefndur fyrir dans og sviðshreyfingar ársins, Ilmur Stefánsdóttir fyrir leikmynd og þeir Gunnar Sigurbjörnsson, Þórður Gunnar Þorvaldsson og Guðmundur Óskar Guðmundsson fyrir hljóðmynd ársins.

Fjölskyldusýningin Emil í Kattholti fékk fimm tilnefningar. Sýningin er tilnefnd sem barnasýning ársins, Sigurður Þór Óskarsson sem leikari ársins í aukahlutverki og Ásthildur Úa Sigurðardóttir sem leikkona ársins í aukahlutverki. Eva Signý Berger er tilnefnd fyrir leikmynd ársins og Lee Proud fyrir dans og sviðshreyfingar ársins.

Sýningin Ein komst undan fékk þrjár tilnefningar. Leikkonurnar Margrét Ákadóttir og Margrét Guðmundsdóttir eru tilnefndar sem leikkona ársins í aukahlutverki og tilnefningu fyrir lýsingu ársins hljóta Egill Ingibergsson og Móeiður Helgadóttir.

Njála var tilnefnd til tvennra verðlauna. Hjörleifur Hjartarson fékk tilnefningu fyrir leikrit ársins og Hundur í óskilum fyrir Tónlist ársins.

Tvær tilnefningar komu í hlut Ég hleyp en Gísli Örn Garðarsson fékk tilnefningu sem leikari ársins í aðalhlutverki og Ísidór Jökull Bjarnason fyrir hljóðmynd ársins.

Þétting hryggðar og Kjarval fengu eina tilnefningu hvor. Fyrir Þéttingu hryggðar fékk Vala Kristín Eiríksdóttir tilnefningu sem leikkona ársins í aðalhlutverki. Fyrir Kjarval fékk Guðný Hrund Sigurðardóttir tilnefningu fyrir leikmynd ársins.

Samstarfsverkefnið Tjaldið var tilnefnt til tvennra verðlauna. Sýningin er tilnefnd sem barnasýning ársins og Agnes Wild sem leikstjóri ársins.

Loks var svo Umbúðalaust tilnefnt í flokkinum Sproti ársins, en um er að ræða grasrótarverkefni Borgarleikhússins sem býður nýja kynslóð sviðslistafólks velkomið í húsið og býr þeim vettvang til tilrauna og þróunar nýrra sviðsverka.

Grímuverðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn miðvikudaginn 14. júní.