Borgarleikhúsið

Umbúðalaust Festival 3. september

24 ágú. 2022

Umbúðalaust verkefnið hlaut Sprota ársins á Grímunni 2022 og nú gefst áhorfendum það einstaka tækifæri að sjá öll þrjú Umbúðalausu verkefni síðasta leikárs á einu kvöldi. 

Á vísum stað
Í geymslum liggja hlutir í dvala, en eru þó á vísum stað. Allir hlutir í geymslum eiga sér sögu og þá gildir einu hvort geymslurnar eru vel skipulagðar IKEA hillur eða rykfallnir skúrar, hvort umræddur hlutur vekur upp fortíðarþrá eða samviskubit, hvort hann kostaði 25 krónur árið 1972 eða 25.000 krónur árið 2021. Enginn veit lengur hvaða hlutir leynast í sumum kössum, samt var einhvern tíma tekin ákvörðun um að geyma þá. Hafa hlutir í geymslum ennþá gildi? Er gildið þá fjárhagslegt, sagnfræðilegt eða jafnvel tilfinningalegt? Getur geymsla orðið safn?

How to make love to a man
Það hættulegasta í heiminum er niðurlægður karlmaður. Sviðslistahópurinn Toxic Kings leggur til atlögu við eitraða karlmennsku og þá löngun sem blundar í flestum ef ekki öllum karlmönnum að vera rómansaðir upp úr skónum, með kertum, blómum og kósíheitum, bubblubaði og Barry White. Eru karlmenn stundum bara pínulitlir í sér og vilja vera pússíkallar heima?

Femcon
Komið á Femcon og breytið öllu við ykkur sjálfar! Skilgreinir þú þig sem konu og vilt efla sjálfa þig í vinnu og einkalífi? Viltu vera framkvæmdarstýra í eigin lífi? Ertu algjör gólfmotta og vilt læra að vera meiri tussa við fólkið í kringum þig? Hleyptu þá út þinni innri gyðju. Þrjár konur hafa þróað óskeikula aðferð til þess að þú getir orðið besta mögulega útgáfan af sjálfri þér. Loksins kemur femínisminn að almennilegu gagni til að við konur fáum sem mest út úr honum.

Athugið að Umbúðalaust festival verður aðeins sýnt laugardaginn 3.september.