Borgarleikhúsið

Umræður eftir sýningu á Eitri

6 des. 2019

Í kvöld, föstudagskvöldið 6. desember, munu fulltrúar frá Sorgarmiðstöð ásamt aðstandendum sýningarinnar Eitur ræða um verkið að lokinni sýningu á Litla sviðinu og bjóða upp á spurningar úr sal. Hrafnhildur Hagalín, dramatúrg Borgarleikhússins, stýrir umræðum.

„Hvað áttu eftir stærsta missi lífs þíns?“ er spurt í kynningu á verkinu Eitri. Það fjallar um foreldra sem misstu son sinn af slysförum. Í kjölfarið fór Hann frá Henni og sársauki skilnaðarins bættist við barnsmissinn. Nú hittast þau 10 árum síðar og tala í fyrsta sinn saman um það sem gerðist. Hvernig gengur það? Hafa þau unnið úr sorginni hvort í sínu lagi, eða eru þau enn á byrjunarreit? Fá áhorfendur svar við því hvernig hægt er að vinna úr svona miklum harmi?

Eitur fjallar um fólk sem fer ólíkar leiðir eftir barnsmissi. Um leið fjallar verkið í víðara samhengi um ólík og flókin viðbrögð fólks almennt við áföllum. Þannig hefur það breiða skírskotun og skapar tækifæri til að ræða um sorgarúrvinnslu almennt. Hvernig erum við, upp til hópa, undir það búin að mæta erfiðum áföllum?

Hægt er að tryggja sér miða á sýninguna hér .