Borgarleikhúsið

Veisla frumsýnd í kvöld!

14 maí 2021

Loksins loksins eftir sex tilraunir er komið að frumsýningardegi á leikritinu Veisla eftir Sögu Garðarsdóttur og leikhópinn. Leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson og leikarar eru þau Saga Garðars, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Björn Stefánsson, Halldór Gylfason, Sigrún Edda Björnsdóttir og Sigurður Þór Óskarsson.
Þjóðin er orðin veisluþyrst og Veisla er kærkomin vökvun eftir langa þurrð. Á meðan heimsfaraldri stendur kemst þjóðin ekki í neina stóra veislu. Hugsa sér öll afmælin sem enginn getur mætt í, árshátíðirnar, útskriftarveislurnar, brúðkaupin, kóramótin og matarboðin. Að ekki sé minnst á alla óbökuðu heitu brauðréttina og kransakökurnar sem aldrei verða snæddar eða freyðivínið sem aldrei verður dreypt á úr plastglösum á völtum fæti. Þá eru ótalin löngu trúnóin við hálfókunnugar konur, slúður um valdamikið fólk, hátt spiluð lög og grillaðar pylsur á miðnætti.

Partýpinninn Berndsen gerir tónlistina og Veisla er því bragðgóð en görótt blanda af grínsketsum og tónlist sem svarar áleitnum spurningum á borð við hvort tartalettur séu góðar í alvörunni og hversu hratt skuli ganga um gleðinnar dyr.