Fyrsta frumsýning leikársins

18 sep. 2020

Fyrsta frumsýning leikársins er í kvöld, 18. september á Nýja sviði Borgarleikhússins, en það er verkið Oleanna eftir David Mamet í leikstjórn Gunnars Gunnsteinssonar og Hilmis Snæs Guðnasonar. Það eru leikararnir Vala Kristín Eiríksdóttir og Hilmir Snær sem takast á við þetta umdeilda og áhugaverða verk, sem skilur eftir sig margar áleitnar spurningar.

Ung námskona kemur í viðtalstíma til háskólakennara síns. Kennarinn nýtur mikillar velgengni í starfi og einkalífi, er að kaupa sér hús og á von á fastráðningu. Það sem byrjar sem sjálfsögð hjálp við námið breytist í miskunnarlausa baráttu og óvænta atburðarás sem kollvarpar valdajafnvæginu á milli kennara og nemanda, karls og konu, og lífi þeirra beggja í leiðinni.

Kristín Eiríksdóttir þýðir verkið yfir á íslensku. Sean Mackaoui hannar leikmynd og búninga. Lýsing er í höndum Þórðar Orra Péturssonar og tónlistina gerir Garðar Borgþórsson.

Til hamingju með daginn öllsömul!