Borgarleikhúsið

  • Mavurinn

Yana Ross sæmd “Gullkrossi leiksviðsins” í Litháen

29 nóv. 2020

Leikstýran Yana Ross , sem sviðsetti Mávinn eftir Anton Tsjekhov í Borgarleikhúsinu árið 2015 og Sölku Völku ári síðar, var heiðruð með virtustu viðurkenningu leiklistarinnar í Litháen, - “Gullkrossi leiksviðsins” um daginn.

Hún hlaut verðlaunin fyrir sýningu sína Fairy Tales of One Forest sem frumsýnd var í Vilníus í fyrra. Leikritið sem sýningin byggir á er vel þekkt og sígilt: Sögur úr Vínarskógi eftir austurrísk-ungverska leikskáldið Ödön von Horváth. Leikritið var sýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1981.

Mávurinn var eftirminnileg sýning og fór í boðs-ferðalög á leiklistarhátíðir til Finnlands, Póllands og Kína og er ein víðförlasta leiksýning Leikfélagsins fyrr og síðar. Yana er nú fastráðin leikstjóri við Schauspielhaus Zürich, Sviss, - leikhúsið sem ennþá heldur úti sýningum þótt aðeins megi selja fimmtíu sæti. Hún leikstýrði sýningunni Ár mitt í hvíld og slökun sem frumsýnd var þar í síðasta mánuði.

Borgarleikhúsið óskar Yönu Ross hjartanlega til hamingju með vegsemdina og heiðurinn og vonumst við til að hún komi aftur til starfa í Borgarleikhúsinu áður en langt um líður.