Samstarf
Samstarfsverkefni
Leiklistarskólinn stendur fyrir fjölbreyttum fræðsluverkefnum sem unnin eru í samstarfi við ýmsar stofnanir og hátíðir. Verkefnin eru hluti af þeirri vegferð Borgarleikhússins að auka aðgengi að menningarstarfsemi leikhússins.
Sögur - Verðlaunahátíð barnanna
Borgarleikhúsið er aðili að Sögum sem eru stórt samstarfsverkefni margra stofnana sem allar vinna að barnamenningu og sköpun. Skorað er á krakka á aldrinum 6-12 ára til að taka þátt og senda inn sögurnar sínar í ýmsum formum, m.a. eru krakkar hvattir til að senda inn handrit í Krakkar skrifa leikrit. Borgarleikhúsið velur tvö verk sem sett eru á svið af útskriftarnemendum Leiklistarskólans á hverri haustönn. Leikritin eru tekin upp og gerð aðgengileg á vef Krakkarúv.
Hér má nálgast upptökur frá Krakkar skrifa hjá RÚV:
Léttir
Borgarleikhúsið tekur árlega á móti hópi barna sem eru í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi. Hópurinn tekur þátt í samveru og leiklistarsmiðju sem kallast Léttir og er verkefni á vegum Leiklistarskóla Borgarleikhússins.
Verkefnið er styrkt af Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar og Borgarleikhúsinu er mikill heiður að geta boðið til sín þessum þátttakendum. Áhersla er lögð á sköpun og leikgleði og að reyna leiklistarkennslu með lágmarks áherslu á tungumálið. Þátttakendur fara einnig í skoðunarferð um húsið og er að lokum boðið að horfa á leiksýningu.
Krakkar kenna krökkum
Nemendur leiklistarskólans taka árlega þátt í Barnamenningarhátíð í Reykjavík þar sem m.a. er boðið upp á leiklistarsmiðju sem nefnist Krakkar kenna krökkum. Leiklistarsmiðjan er ætluð börnum 8-11 ára og er haldin bæði í Borgarleikhúsinu og Tónlistarmiðstöð Stelpur rokka! í Völvufelli í Breiðholtinu. Nemendur Leiklistarskólans leiða smiðjuna og miðla sinni reynslu á skemmtilegan og skapandi hátt. Smiðjan er þátttakendum að kostnaðarlausu.