PLÚTÓ
Grein eftir Sævar Helga Bragason
Árið 2006 hófst sögulegur leiðangur þegar New Horizons gervitungli NASA var skotið á loft. Þetta litla gervitungl átti að þjóta framhjá útverði sólkerfisins á ógnarhraða níu árum síðar. Plútó var enn flokkaður sem reikistjarna á þessum tíma. Þá eina ókannaða reikistjarna sólkerfisins. Geimfarið átti að smella af myndum, kanna landslagið, þefa af örþunnu andrúmsloftinu og gjóa augunum á tunglin fimm. Eins og forvitinn ferðalangur á flakki um ókunnar slóðir. Ég gat ekki beðið.
Plútó hafði óvænt komið í leitirnar 76 árum
fyrr. Reikistjarnan fékk nafn rómverska undirheimaguðsins í samræmi við nöfn
hinna reikistjarnanna. Seinna sama ár fékk hundurinn hans Mikka mús nafn
reikistjörnunnar nýfundnu.
Við héldum fyrst að Plútó væri stærri en þegar
sjónaukar urðu betri kom í ljós að um hann flögraði tungl svo þétt að frá Jörðu
séð var sem þau snertust. Tunglið fékk nafnið Karon eftir ferjumanninum sem
flutti látna til undirheima.
Lengst af vissum við harla lítið um Plútó annað
en hann var órafjarri og ísilagður. Því ríkti mikil eftirvænting meðal
vísindafólks þegar New Horizons var ýtt úr vör.
Árin níu liðu hratt og sumarið 2015 hófst fyrsta
hraðstefnumót jarðarbúa við Plútó. Tíminn var knappur. New Horizons hafði
aðeins örfáar klukkustundir til að afla eins mikillar þekkingar og mögulegt var
því gervitunglið þaut framhjá á 50 þúsund km hraða á klukkustund. Hver einasta
sekúnda var þaulskipulögð enda útilokað að bregðast við færi eitthvað
úrskeiðis.
Plútó er svo fjarlægur að skilaboðin frá
geimkönnuðinum voru meira en fimm klukkustundir að berast til Jarðar. Þegar
fyrstu myndirnar bárust kom í ljós einstakur hnöttur. Þarna var hjartalaga
ísslétta, frosin í tíma og rúmi. Við jaðra hennar gnæfðu fjögurra kílómetra há
ísfjöll. Niður hlíðar þeirra skriðu jöklar úr köfnunarefni. Dalirnir á milli
fjallanna voru súkkulaðibrúnir að lit, þaktir kolefnisryki sem hefur fallið
eins geimsnjór í milljarða ára.
Á tveimur stöðum sáum við eitthvað sem líktist
eldfjöllum. Nema, úr þeim gýs ekki glóðheit kvika, heldur ís – einhvers konar
krapi sem skríður löturhægt út á slétturnar í kring. Íseldfjöll, eða kannski
frekar krapafjöll?
Við sáum að fylgitunglin fimm eru líklegast brot
úr Plútó sjálfum. Minjar um hrikalegar hamfarir þegar eitthvað skall á Plútó
með þeim afleiðingum að heilu risafjöllin brotnuðu af og skutust út í
geiminn.
Plútó er töfrandi staður að heimsækja. Og hver
veit nema jarðarbúar ferðist þangað í framtíðinni. En að setjast þar að og búa,
ekki alveg. Öll samskipti verða ákaflega framandi því skilaboð milli Jarðar og
Plútós eru næstum sex klukkustundir að berast á milli á ljóshraða - aðra leið.
Samtal geimfara við Jörðina tekur hálfan sólarhring. Jörðin er svo langt í
burtu að hún sæist ekki án sjónauka. Ímyndaðu þér einangrunina..
Frá yfirborði Plútós er sólin meira en þúsund
sinnum daufari en á jarðarhimninum. Þar ríkir nístingskuldi eða 230 stiga
frost. Dagsbirtu nýtur í rúma þrjá sólarhringa og nóttin er jafn löng því einn
dagur á Plútó er ríflega sex jarðardagar. Á 248 árum ferðast Plútó einu sinni
um sólina.
Eflaust verða það örlög komandi kynslóða að
ferðast til annarra hnatta. Setjast þar að og halda könnun heimsins áfram.
Mannkynið er bara þannig tegund í eðli sínu. Forvitin að vita hvað leynist
handan við hæðina.
Þessi forvitni hefur fleytt okkur langt en líka
komið okkur í ógurlegt klandur. Sem betur fer erum við úrræðagóð þegar á
reynir. Okkur hefur tekist að leysa ýmis vandamál með glæsibrag þótt önnur ætli
að reynast okkur erfiðari viðfangs. Tegund sem getur sent menn til tunglsins og
róbóta til Plútós getur sannarlega komið í veg fyrir eyðingu vistkerfa og leyst
loftslagsvandann.
Vonandi ber okkur gæfa til að hugsa vel um okkar
eigin plánetu á sama tíma og við heimsækjum nýja, framandi staði í sólkerfinu
okkar.
Verum forvitin, alla ævi.