Flóð


Svið
Litla svið    
Tegund
Nútímaverk    
Verð
5.500 kr.    

Borgarleikhúsið opnar kl. 18:30 fyrir sýningar og er meðal annars boðið upp á tónlist, kokteila og smárétti á Leikhúsbarnum. Panta þarf mat með dags fyrirvara. Sjá nánar hér

Myndir úr sýningunni

Árið 1995 féll stórt snjóflóð á bæinn Flateyri á Vestfjörðum. Flóð er heimildaverk byggt á þessum atburðum. Á þessu ári eru 20 ár liðin frá því að flóðið féll og vill Borgarleikhúsið minnast atburðanna sem mörkuðu djúp spor í þjóðarsálina á sínum tíma.
Þátttakendur í sýningunni rannsaka og rifja upp atburði, spyrja spurninga og raða saman brotum frá þessari örlagaríku nótt 26. október árið 1995. Við fáum innsýn í sögur fólksins í þorpinu, þeirra sem lentu í flóðinu og þeirra sem stóðu utan við það, björgunarmanna og barnanna sem voru of ung til að muna atburðarásina en lifðu eftirmála flóðsins og ólust upp við umtalið og þögnina sem fylgdi í kjölfarið. Verkið er byggt á nýlegum viðtölum við Flateyringa og unnið í nánu samstarfi við þá. 
Flóð er áhrifamikið nýtt íslenskt heimildaverk um mikilvægi þess að varðveita söguna fyrir börnin okkar og framtíðina, um samstöðu og samheldni og það sem skiptir raunverulegu máli í lífinu.
Hrafnhildur Hagalín (1965) er leikskáld og listrænn ráðunautur Borgarleikhússins. Hún hefur sent frá sér leikrit um áratugaskeið og hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín.
Björn Thors (1978) er margverðlaunaður leikari. Hann var meðhöfundur að verkinu Kenneth Máni sem sló rækilega í gegn í Borgarleikhúsinu á síðasta leikári.
Flóð er hans fyrsta leikstjórnarverkefni við Borgarleikhúsið.

Úr gagnrýni;

„Borgarleikhúsið segir sögu þjóðar" HA. Kastljós

„Margbrotin sýning" BS. Kastljós

„Flóð er fáguð og nærfærin upprifjun skelfilegra atburða. Sýningin er listamönnunum og ekki síst hinum hugrökku viðmælendum þeirra til mikils sóma." ÞT. MBL

„Þetta er óvenjuleg og einstök sýning sem allir ættu að kynna sér." BL. DV   ****1/2

„Hilmir Jensson er framúrskarandi" BL. DV   ****1/2

„Ekki er fallið í þá freistni að mjólka tár áhorfenda, heldur miklu fremur fræða og deila reynslu af atburði sem greyptur er í sögu þjóðarinnar." BL. DV   ****1/2

„Við höfum öll þörf fyrir að finna til þeirrar ríku samkenndar sem sýningin vekur með manni og láta minna okkur á að landið okkar sem gefur svo mikið, það tekur líka." SA.tmm.is 

„Hafði mjög mikil áhrif á áhorfendur" HA. Kastljós

„Snertir mann en treður sér ekki upp á mann" SB. Kastljós

„Leikararnir leika ekki beint, þau miðla" SB. Kastljós

„Sjaldgæf auðmýkt og virðing er borin fyrir viðfangsefni sem snertir okkur öll djúpt og í heild sinni er ákaflega vel unnin." MK. Víðsjá