Lóaboritóríum


Frumsýning
Janúar 2018    
Svið
Litla svið    
Verð
6.250 kr.    

Forsalur Borgarleikhússins opnar kl. 19:00 fyrir sýningar þar sem er boðið upp á tónlist, kokteila og smárétti. Panta þarf mat með dags fyrirvara. Sjá nánar hér

Fjórar skrautlegar konur búa í fjölbýlishúsi í ótilgreindum þéttbýliskjarna á Íslandi. Hver og ein þeirra glímir við vandamál sem hún reynir um fram allt að fela fyrir umheiminum. Einræna konan á fjórðu hæð fer aldrei út - hún er með söfnunaráráttu og selur dúkkulísur á netinu. Áfengissjúka móðirin á þeirri þriðju er fullkomlega ófær um að ráða við verkefni daglega lífsins og þunglynda konan á fimmtu er með tásveppi og klamydíu á heilanum. Systir hennar og sambýliskona rekur nuddstofu í bænum og lætur sig dreyma daglangt um kynlíf í öllum mögulegum og ómögulegum myndum. Þegar pizzasendill festist óvænt í sameiginlegu loftræstikerfi hússins fer af stað atburðarás sem ekki sér fyrir endann á og konurnar fjórar þurfa á öllu sínu að halda til að leysa málið. 

Veröld Lóaboratoríum er í senn ævintýraleg og ófyrirsjáanleg. Þar takast á ófullkomnar en ofur mannlegar persónur í óvenjulegum kringumstæðum. 

Sokkabandið hefur getið sér gott orð á undanförnum árum með uppsetningu kraftmikilla og nýstárlegra íslenskra verka t.d. söngleiksins Hér og nú sem boðið var á leiklistarhátíðina í Tampere í Finnlandi og Hystory eftir Kristínu Eiríksdóttur. Í þessu nýja verki eftir skopmyndateiknarann Lóu Hjálmtýsdóttur verður leitast við að afbyggja staðalímynd kvenna á grátbroslegan og hjartnæman hátt.

Í samvinnu við Sokkabandið.