Lóaboratóríum


Frumsýning
Janúar 2018    
Svið
Litla svið    
Verð
6.250 kr.    

Borgarleikhúsið opnar kl. 18:30 fyrir sýningar og er meðal annars boðið upp á tónlist, kokteila og smárétti á Leikhúsbarnum. Panta þarf mat með dags fyrirvara. Sjá nánar hér

Fjórar mis-starfhæfar konur í tveimur íbúðum þurfa að þola hverja aðra í ótilgreindan tíma. Tvær þeirra eru systur en hinar mæðgur. Íbúðirnar eru í hverfi í Reykjavík. Kannski eru þær staddar við holt, gerði, götu, fell, stíg eða hvarf, það skiptir ekki máli. Konunum er alveg sama. Þær munu hvort eð er aldrei læra að hegða sér á viðeigandi hátt. Lóaboratoríum er nýtt íslenskt leikverk eftir höfund samnefndra myndasagna. Leikritið er samið fyrir og í samstarfi við Sokkabandið. Ekki láta hurðafjöldann á sviðinu blekkja þig, þetta er ekki farsi heldur kjötfars. Þú veist ekki alveg hvaðan það kemur en með smá soðnu káli og smjöri verður það mjög næs.

Sokkabandið hefur getið sér gott orð á undanförnum árum með uppsetningu kraftmikilla og nýstárlegra íslenskra verka t.d. söngleiksins Hér og nú sem boðið var á leiklistarhátíðina í Tampere í Finnlandi og Hystory eftir Kristínu Eiríksdóttur. Í þessu nýja verki eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur verður leitast við að afbyggja staðalímynd kvenna á grátbroslegan og hjartnæman hátt.

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er myndlistarmaður, teiknari, tónlistarkona og rithöfundur. Hún hefur gefið út skopmyndabækur undir nafninu Lóaboratoríum þar sem hún skoðar samtímann og hversdagsleikann með beinskeittum húmor sínum. Leikverkið Lóaboratoríum er byggt á teiknimyndasögunum og er fyrsta leikverk Lóu. 

Í samvinnu við Sokkabandið.