Reykjavíkurdætur


Frumsýning
11. maí 2017    
Svið
Litla svið    
Verð
5950 kr    

Borgarleikhúsið opnar kl. 18:30 fyrir sýningar og er meðal annars boðið upp á tónlist, kokteila og smárétti á Leikhúsbarnum. Panta þarf mat með dags fyrirvara. Sjá nánar hér

Reykjavíkurdætrum er gefinn laus taumurinn og sprengja þakið af húsinu. Íslenska hip-hop rappsveitin Reykjavíkurdætur er hópur ungra kvenna sem er fátt óviðkomandi í mögnuðum og oft pólitískum textum sínum. Þær hafa komið víða fram og alls staðar vakið mikla athygli, allt frá viðtalsþætti Gísla Marteins til hátíðarinnar Hróaskeldu í Danmörku. Þær hneyksla og heilla, vekja til umhugsunar og ganga langt í að fara út fyrir þægindarammann, sinn eigin og annarra, með róttækri framgöngu sinni og framsetningu. Þær eru ekki allra og allir eru ekki þeirra. Deilir þó enginn um það að Reykjavíkurdætur eru sannkallaðar sviðslistakonur. Þær snerta við áhorfendum sínum á nýjan hátt og sögur fara af áhrifamikilli sviðsframkomu þeirra á tónleikum. Þessar ungu konur nýta sér kraft fjöldans, textans og framsækninnar og það má með sanni segja að Reykjavíkurdætur þora. Hvað ef Reykjavíkurdætrum væri gefinn laus taumurinn og mættu gera hvað sem þær langaði til – í Borgarleikhúsinu?

Reykjavíkurdætur taka yfir Litla sviðið í vor og láta gamminn geisa.

Allt getur gerst! 


Úr gagnrýni um sýninguna:

“Og það gleður kvenhjarta alveg sérstaklega að stelpu nýsloppinni úr skóla skuli aldrei þessu vant vera treyst til þess að leikstýra” – HÞÓ. Víðsjá

“Það er full ástæða til að fagna þessu fyrsta verkefni leikstjórans Kolfinnu Nikulásdóttur” – HÞÓ. Víðsjá

“Leikrænasti kaflinn og hnyttnasta gagnrýnin er þegar sjónvarpsviðtölin leysast upp og strákarnir hlæja og tala í hring inn í rassgatið á hver öðrum” – HÞÓ. Víðsjá


“Bestu og eftirminnilegustu senur sýningarinnar eru án efa þegar konurnar bregða sér í líki þjóðþekktra karlmanna í eins konar viðtalsþætti” – SJ. Fréttablaðið.

“… skilaboð Reykjavíkurdætranna eru ekki bara mikilvæg samtímanum heldur líka bráðnauðsynleg” – SJ. Fréttablaðið.


“Eldfimt og einlægt” – BL. DV.

“Hápunktur sýningarinnar er tvímælalaust spjallþáttaatriðin, sem er snilldarleg, fyndin og áhrifarík leið til að koma sjónarmiðum femínista á framfæri” – BL. DV.

“Búningarnir spegluðu bæði húmor hópsins og sjálfstæði. Stelpurnar klæddust allar fölbleikum hettupeysum og víðum joggingbuxum” – BL. DV.

“Erindið er sjóðheitt og sprengikraftur hópsins kærkominn tilbreyting frá hversdagslegri sýningum leikhússins” – BL. DV.


“Áberandi bestur er fyrsti hlutinn, þar sem dæturnar sviðsetja spjallþátt og bjóða í hann valdakörlum menningar- og fjölmiðlalífsins” – ÞT. Morgunblaðið.

“... atriðinu lýkur með ákaflega táknrænni og morðfyndinni gæðastund drengjanna” – ÞT. Morgunblaðið.

“Dæturnar eru allar sannfærandi á sviði og ná áreynsluleysinu sem þarf til að vera sannfærandi í einlægninni” – ÞT. Morgunblaðið.

“Sýningin er lipurlega sett saman af Kolfinnu Nikulásdóttur” – ÞT. Morgunblaðið.