Egill Heiðar Anton Pálsson, leikhússtjóri
Leikhúsið sameinar okkur mannfólkið því þegar upp er staðið þá er leikhús ekkert annað en sögur um okkur, eftir okkur. Gamlar og nýjar sögur sem segja okkur eitthvað um okkur sjálf en líka eitthvað um náungann. Við erum öll Hamlet, Nóra, Fíasól eða Njáll á Bergþórshvoli, við erum öll Ungfrú Ísland, Bubbi, Elly og Laddi – og þetta skiptir máli – því ef það er eitthvað sem þörf er á í heiminum í dag þá er það að við leitumst við að skilja hvert annað.
Í vetur opnum dyrnar inn í ævintýralega heima og stórbrotnar frásagnir af manneskjum. Fyrst liggur leiðin til Parísar aldamótanna 1900 þar sem ástin og listin takast á við dauðann í hinum magnaða söngleik Moulin Rouge! Það er fráfarandi leikhússtjóri Brynhildur Guðjónsdóttir sem varðar leiðina fyrir okkur til Parísar. Það er svo gulur stígur sem varðar leiðina í Galdrakarlinum í Oz, þessu sígilda ævintýri þar sem Dórótea, ásamt hundinum Tótó, leggur í hættuför með galdranorn og fljúgandi apa á hælunum. Stóru sögurnar birtast okkur líka á Litla sviðinu þar sem Kolfinna Nikulásdóttir kallar til höfuðskáldið Shakespeare í frægasta leikverki sögunnar, sjálfum Hamlet og á Nýja sviðið mætir Hundur í óskilum til að flytja okkur Niflungahringinn allan á tveimur tímum! Og brosa að sjálfsögðu út í annað – ef ekki bæði. Á Nýja sviðinu verður líka Mömmó, mögnuð fjölskyldusaga eftir nýju sjálfsævisögulegu verki Paulu Vogel sem Íslendingum er að góðu kunn eftir hina rómuðu Ökutíma sem slógu í gegn hér fyrir nokkrum misserum.
Samstarfsverkefnin dansa í takt við þessa stórbrotnu stemningu en Óður flytur okkur hina gullfallegu óperu Puccinis, La Bohéme í glænýjum búningi og Stertabenda færir okkur Skammarþríhyrninginn, satíríska og skuggalega framtíðarsýn þar sem bakslagið hefur sigrað og mannréttindi minnihlutahópa heyra sögunni til. Sögur af fólki og fjölskylduflækjum halda áfram hjá Gaflaraleikhúsinu sem kemur með Ekki hugmynd, glænýtt grín um ungt fólk sem neyðist víst til að fullorðnast og loks kemur leikhópurinn Elefant hingað með verkið Þegar ég sé þig, sé ég mig þar sem Íslendingar af blönduðum uppruna stíga á svið og deila af örlæti með okkur brotum úr lífi sínu. En það er hjá börnunum sem vöðvinn til samhygðar og samkenndar er í hvað mestri æfingu – og auk ævintýranna í Oz bjóðum við börnunum og fjölskyldum þeirra hingað um jólin til að gleðjast og syngja með Skoppu og Skrítlu sem mæta á Stóra sviðið ásamt jólasveininum, syngjandi jólatréi og stórkostlegum gestum. Skólasýningarnar verða hér á sínum stað og Borgarleikhúsið býður öllum fimm ára börnum í leikskólum Reykjavíkurborgar til að fylgjast með því þegar Ofurhetjumúsin finnur hugrekkið sitt og öllum börnum í fimmta bekk að hitta listmálarann Jóhannes Kjarval í dásamlegri sýningu sem færir okkur sanninn um hvernig litli drengurinn Jói varð óskabarn þjóðarinnar. Nemendum í 10. bekk verður svo boðið að hitta fyrir annað óskabarn, nefnilega sjálfan Ladda í fjölskyldusýningunni Þetta er Laddi – sem heldur að sjálfsögðu áfram á nýju leikári enda ekkert lát á vinsældum þessarar sýningar.
Við hlökkum til að bjóða ykkur velkomin í hús og hlæja saman, gráta saman, finna til og takast í hendur. Í leikhúsinu getum við gleymt stund og stað og það er dýrmætt, en við getum líka fundið hvort annað og það skiptir jafnvel enn meira máli.
Sjáumst í leikhúsinu!
Listabraut 3
103 Reykjavík
Kt. 420269-6849
Miðasala: 568 8000
midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500
Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is
Takk fyrir stuðninginn
Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.