Hundur í óskilum á hundavaði

Maríanna Clara Lúthersdóttir tók saman

Hljómsveitin Hundur í óskilum er skipuð þeim félögum Hjörleifi Hjartarsyni og Eiríki G. Stephensen. Hljómsveitin var stofnuð norðan heiða, nánar tiltekið í Svarfaðardal, um miðbik tíunda áratugarins. Samstarf þeirra félaganna hófst þó enn fyrr því áður en Hundur í óskilum tók til starfa spiluðu Hjörleifur og Eiríkur saman undir nafninu Blóm og kransar og síðar sem Börn hins látna. Eins og hljómsveitarnöfnin bera með sér hefur grín og gaman jafnan einkennt framkomu hljómsveitarinnar – en ekki síður fjölbreytt og óvenjuleg hljóðfæri sem þeir félagar spila á og búa jafnvel til. Þeir leika bæði frumsamið efni sem og ábreiður af lögum annarra tónlistarmanna í nýjum og óvenjulegum útsetningum. Hjörtur og Eiríkur eru báðir kennarar að mennt og hafa aldrei gleymt þeim rótum sínum enda hefur hljómsveitin heimsótt grunnskóla undir merkjum verkefnisins Tónlist fyrir alla.

Fyrsta plata Hunds í óskilum kom út árið 2002 og bar hún nafn hljómaveitarinnar en þeirri plötu fylgdu þeir eftir árið 2007 með plötunni Hundur í óskilum snýr aftur. Fyrri platan var tekin upp á tónleikum í Laugaborg í Eyjafjarðarsveit en sú síðari á tónleikum á Græna hattinum á Akureyri. Í báðum tilvikum var upptökustjóri Brynleifur Hallsson.

Árið 2010 fékk Benedikt Erlingsson hljómsveitina til að semja tónlist fyrir uppfærslu Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni í leikstjórn Benedikts. Hundarnir stóðu sjálfir á sviðinu í sýningunni og hlutu að launum Grímuverðlaun fyrir tónlist ársins. Þar með var nýr tónn slegin í sögu sveitarinnar og síðan þá má segja að þeir hafi verið með annan fótinn í leikhúsinu.Eftir velgengnina í Íslandsklukkunni var borðleggjandi að fikra sig lengra inn á leiksviðið og næst stóðu félagarnir á fjölunum í sýningunni Sögu þjóðar en þar voru þeir sjálfir höfundar en Benedikt aftur leikstjóri. Í sýningunni, sem frumsýnd var í samkomuhúsinu á Akureyri hausið 2011, var farið í grófum dráttum yfir sögu Íslendinga frá því fyrstu mennirnir tóku sér bólfestu á landinu og nánast til dagsins í dag. Sýningin sló í gegn og eftir velgengni fyrir norðan kom hún suður í Borgarleikhúsið og var sýnd þar í tvö leikár. Fyrir viðvikið fengu þeir þrjár Grímutilnefningar og eitt stykki Grímu. Þótt farið væri yfir Íslandssöguna í Sögu þjóðar var þó bláendinn skilinn eftir og hann tók Hundurinn fyrir í næstu sýningu; Öldinni okkar. Sú var frumsýnd í Samkomuhúsinu á Akureyri 2014 og fór þaðan beina leið í Borgarleikhúsið en nú var það leikstjórinn Ágústa Skúladóttir sem sat við stjórnvölinn. Hundarnir fengu Ágústu aftur til liðs við sig í sýningunni Kvenfólk en þar var aftur farið í Íslandssöguna og kastljósið nú sett á konur sem rötuðu sárasjaldan í sögubækurnar. Það fór fyrir Kvenfólki eins og öðrum sýningum Hundsins – hún endaði í Borgarleikhúsinu og var sýnd þar veturinn 2018-2019. Þeir félagar leituðu enn og aftur í þjóðararfinn í sýningunni Njála á hundavaði sem Hjörleifur skrifaði og þeir félagar unnu með Ágústu Skúladóttur og frumsýndu 2021. Nú var þó öllu snúið á hvolf því frumsýnt var í Borgarleikhúsinu og sýnt við mikinn fögnuð en svo fór sýningin norður í Samkomuhúsið.

Við fyrstu sýn mætti ætla að með Niflungahring Richards Wagners hafi verið snúið við blaði, loksins sé þjóðlega æðin þornuð og Hundurinn farinn að garfa í þýskum þjóðararfi. En það er blekking ein – Niflungahringurinn er að sjálfsögðu allur meira eða minna stolinn frá Snorra Eddu og því má segja að Hundur í óskilum sé ekki bara kominn heim – heldur hafi hann aldrei farið neitt.

Heim

Listabraut 3
103 Reykjavík
Kt. 420269-6849
Miðasala: 568 8000
midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500

Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is

Jafnlaunavottun 2023-2026
Jafnvægisvog FKA 2025
Framúrskarandi fyrirtaeki 2025

Miðasalan er opin 12-17 alla virka daga og 12-20 á sýningardögum.

568 8000

Takk fyrir stuðninginn

Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.

reykjavíkurborg logo
orkusalan logoölgerðin logo