Grein
Maríanna Clara Lúthersdóttir tók saman
Fjórar óperur Niflungahringsins nefnast:
Rínargullið
Valkyrjan
Sigurður Fáfnisbani
Ragnarrök
Fyrsta atriði hefst á því að svartálfur að nafni Andvari hittir fyrir Rínardætur sem gæta gullsins á botni Rínar. Þær virðast þó ekki starfi sínu vaxnar því þær sýna þessum skuggalega náunga gullið og segja honum að úr því megi smíða hring sem hafi vald yfir öllum heiminum. Sá böggull fylgir skammrifi að aðeins sá sem afneiti ástinni geti komist yfir gullið. Það kemur í ljós að Andvari er ekki rómantíska týpan því hann afneitar ástinni eins og skot og rænir gullinu frá Rínardætrum. Það mun svo taka heilar fjórar óperur að vinda ofan af því.
Í öðru atriði erum við mætt til norrænu goðanna þar sem Óðinn og kona hans, Frigg, bíða þess að jötnarnir Fáfnir og Fasolt ljúki byggingu Valhallar. Frigg er þó áhyggjufull þar sem Óðinn hefur lofað verktökunum gyðjuna Freyju að launum. Hér skrikar Wagner örlítið fótur í goðafræðinni þar sem hann virðist gleyma Iðunni og segir Freyju gæta æskueplanna sem goðin borða til að verða ung að eilífu. Óðinn áttar sig seint og síðar meir á því að þetta gæti orðið vandamál og kallar Loka til hjálpar. Loka dettur í hug að hér gæti Rínargullið komið sterkt inn ef aðeins þeir gætu náð því frá Andvara. Jötnarnir reynast vera opnir fyrir gullinu og hringnum sem greiðslu í staðinn fyrir Freyju svo Óðinn og Loki halda af stað til Niflheima til að stela gullinu af Andvara.
Í þriðja atriði erum við komin til Niflheima þar sem Andvari ræður ríkjum. Þar hitta Óðinn og Loki fyrir Mími, langþjáðan bróður Andvara, sem sýnir þeim huliðshjálm sem hann hefur búið til – en Andvari lagt eignarhald á. Andvari mætir svo sjálfur til leiks en Loka tekst að plata hann til að breyta sér í frosk með hjálp huliðshjálmsins og um leið og Andvari hefur tekið froskalíki fangar Loki hann í búri.
Þar sem Andvari er fangi Óðins og Loka geta þeir nú neytt hann til að gefa sér gullið, hringinn og huliðshjálminn. En áður en Andvari lætur hringinn af hendi leggur hann á hann álög – þau grimmu álög að hver sem hann eignast muni deyja.
Jötnarnir samþykkja að skila Freyju og fá í staðinn gullið og huliðshjálminn en hringurinn hefur náð taki á Óðni sem vill ekki sleppa honum þrátt fyrir fortölur Loka. Þá birtist Óðni jarðargyðjan sjálf og spáir heimsenda ef Óðinn haldi hringnum. Tregur lætur Óðinn hringinn af hendi en ekki líður á löngu áður en jötnarnir eru sjálfir farnir að deila um hringinn og endar það með því að Fáfnir drepur Fasolt og flýr svo með gullið.
Goðin fagna þessum endalokum og vígja Valhöll með veislu – en Rínardætur gráta enn stuldinn á gullinu af botni Rínar. Þannig að – hamingjusöm endalok hjá sumum – ekki öllum.
Milli óperanna hefur heldur margt átt sér stað – þar á meðal sköpunarsagan og tilurð mannsins. Jötuninn Fáfnir hefur gert sér lítið fyrir, breytt sér í dreka með hjálp huliðshjálmsins og liggur nú eins og ormur á gullinu í dimmum helli. Óðinn, sem hitti Jarðargyðjuna í síðustu óperu, hefur síðan eignast með henni valkyrjuna Brynhildi, ásamt átta öðrum valkyrjum. Valkyrjurnar eiga að fara með vopndauða menn til Valhallar þar sem þeir munu gæta hallarinnar fyrir jötnum. En Óðinn hefur komið víðar við og eignaðist líka, með mennskri konu, tvíburana Sigmund og Signýju – sem voru aðskilin í æsku og móðir þeirra myrt.
Í fyrsta atriði hittum við fyrir Sigmund sem eigrar þjáður um á flótta enda með eindæmum óheppinn maður. Hann syngur um að fyrir löngu hafi faðir hans lofað honum sverði sem muni birtast honum á ögurstundu en þrátt fyrir miklar hrakfarir bólar ekkert á téðu sverði. Loks kemur hann hrakinn að húsi þar sem hann hittir fyrir Signýju, týndu tvíburasystur sína, sem nú er gift ódámnum Hundingja. Systkinin vita ekki af skyldleikaum og fella hugi saman. Þegar Hundingi kemur heim skorar hann Sigmund á hólm en Signý byrlar manni sínum svefnlyf og sýnir svo Sigmundi sverð sem ókunnur maður, eineygður, hafði rekið í trjábol í brúðkaupi þeirra Hundingja og enginn hafði getað hreyft við því síðan þá. Við þessa frásögn Signýjar skilst Sigmundi að hún sé týnda systir hans og sverðið gjöf frá föður þeirra. Sigmundur dregur sverðið úr trjábolnum og þau játa hvort öðru ást sína.
Í öðru atriði hittum við fyrir Óðinn sem biður Brynhildi um að gæta þess að Sigmundur sigri Hundingja í einvígi þeirra. En þetta er Frigg, eiginkona Óðins, ekki par sátt við. Hún er verndari hjónabandsins og þvertekur fyrir að vinna með þessum hætti gegn hjónabandinu – þess í stað verði að refsa Sigmundi fyrir hjúskaparbrotið. Til að halda heimilisfriðinn samþykkir Óðinn þetta, kallar aftur á Brynhildi og biður hana sjá til þess að það verði Hundingi sem fari með sigur af hólmi.
Sigmundur og Signý eru á flótta og Signý að niðurlotum komin – enda ber hún núna barn þeirra undir belti. Það líður að lokum yfir hana. Brynhildur finnur Sigmund og segir honum að hann muni deyja. Hún býður honum að fylgja sér til Valhallar en þegar hann heyrir að þangað geti Signý ekki fylgt honum afþakkar hann það góða boð. Hann vill heldur drepa bæði sjálfan sig og Signýju svo þau geti sameinast í dauðanum. Þessi fölskvalausa ást hefur svo djúp áhrif á Brynhildi að hún ákveður að hjálpa Sigmundi þvert á skipun föður þeirra.
Hundingi kemur en þegar lítur út fyrir að Sigmundur muni sigra mætir Óðinn og brýtur sverð hans, sama sverð og hann hafði sjálfur gefið honum. Hundingi drepur Sigmund en Brynhildur safnar saman sverðbrotunum, tekur Signýju með sér og flýr. Óðinn drepur Hundingja og eltir svo Brynhildi til að refsa henni fyrir óhlýðnina.
Í þriðja atriði hefur Signý misst lífslöngunina nú þegar Sigmundur er fallinn en Brynhildur segir henni að hún sé ófrísk og biður hana að lifa fyrir barnið sem hún segir henni að nefna Sigurð. Einnig gefur hún Signýju sverðbrotin. Signý ákveður fylgja ráðum Brynhildar.
Óðinn mætir ævareiður og til að refsa Brynhildi breytir hann henni í mennska konu og lætur hana falla í dá á fjalli, dá sem aðeins koss frá mennskum manni geti vakið hana úr. Rétt undir lok aríunnar sjatnar reiði Óðins örlítið og hann ákveður að tendra í kringum Brynhildi eld, vafurloga, sem enginn kemst yfir nema óttalaus hetja sem þá fær hennar.
Endalok Valkyrjunnar eru sum sé ekki mjög gleðivekjandi og segja má að hér hafi feðraveldið knésett konur sögunnar.
Þegar óperan hefst hafa mörg ár liðið. Brynhildur sefur enn vært á fjallstindi, umkringd vafurloganum, og engin hetja hefur enn vitjað hennar. En það hefur komið fram sem Brynhildur spáði: Signý fæddi son þeirra Sigmundar, nefndi hann Sigurð en lést svo af barnsförum. Sigurður er nú orðinn fullvaxta maður og hefur verið í fóstri hjá Niflungnum Mími (bróður Andvara). Sigurður er stór og sterkur og fullkomlega óttalaus en veit ekki að hann er aðeins peð í tafli Mímis til að ná hringnum og Rínargullinu.
Í fyrsta þætti reynir Mímir að smíða almennilegt sverð fyrir fósturson sinn en sökum krafta sinna brýtur Sigurður þau öll jafnóðum. Sigurður neyðir Mími til að segja sér hver hann sé í raun og veru og smíðar svo sjálfur sverð úr sverðbrotum þeim sem hann átti eftir móður sína.
Mímir segir svo Sigurði frá drekanum Fáfni sem sé hræðilegur og geti mögulega kennt honum að hræðast. Sigurður vill ólmur fara og berjast við hann og Mímir fagnar því.
Í öðrum þætti erum við stödd við helli Fáfnis. Sigurður er, þvert á spá Mímis, alls óhræddur við drekann – þeir berjast og stingur Sigurður drekann á hol með sverðinu góða og er þar með orðinn Fáfnisbani. Hann sleikir svo dropa af drekablóðinu og við það breytist skynjun hans. Sigurður skilur nú fuglamál og þá kemur fugl sem reynist vera óþrjótandi uppspretta fróðleiks. Fuglinn segir honum frá Rínargullinu og huliðshjálminum í helli Fáfnis, en einnig frá valkyrjunni Brynhildi sem sofi á fjallstindi – umkringd vafurloganum. En fuglinn segir honum líka að Mímir, fóstri Sigurðar, sé á leiðinni og ætli sér að eitra fyrir honum, taka sverðið, stinga hann á hol og eignast þannig sjálfur Rínargullið og hringinn. Þegar Mímir mætir og reynir að eitra fyrir Sigurði verður Sigurður fyrri til og stingur Mími til bana. Svo heldur hann á fjallið til að finna Brynhildi.
Þegar á fjallið kemur, í þriðja þætti, veður Sigurður vafurlogann óttalaus og notar svo sverðið til að skera brynjuna af Brynhildi. Þá sér hann að hún er kona og í fyrsta skipti á ævinni hræðist hann. Yfirkominn af fegurð hennar vekur Sigurður hana með kossi og ástir takast strax með þeim. Hér eru gleðileg endalok – en þau vara auðvitað bara þar til næsta ópera hefst.
Ragnarök
Hringurinn er nú ekki lengur í höndum Niflunga en hefur þó ekki ratað aftur heim til Rínardætra sem er nauðsynlegt til þess að jafnvægi komist á í heiminum. Sigurður hefur að auki ekki hugmynd um hvaða merkingu hringurinn og Rínargullið hafa fyrir heiminn og hann gefur Brynhildi hringinn sem tryggðarpant.
Í fyrsta þætti víkur sögunni til þýsku yfirstéttarinnar, Gjúkungasystkinin Gunnar og Guðrún Gjúkadóttir eru rík og spillt og hálfbróðir þeirra, Högni, er þar að auki úlfur í sauðagæru. Högni segir systkinunum frá áætlun sinni um að finna þeim báðum maka. Hann leggur til að þau byrli Sigurði Fáfnisbana ástardrykk svo hann falli fyrir Guðrúnu og svo geti þau sent hann til að ná Brynhildi úr vafurloganum og þá sé hægt að halda systkinabrúðkaup þar sem Guðrún verði gefin Sigurði en Gunnar kvænist Brynhildi.
Sigurður heimsækir Gjúkunga og þetta gengur allt eftir. Sigurður drekkur eitirið og fellir hug til Guðrúnar og fer beint til að sækja Brynhildi, en það gerir hann í líki Gunnars. Hann tekur Brynhildi til fanga, tekur af henni hringinn og færir hana Gjúkungum.
Í öðrum þætti erum við aftur kominn í höll Gjúkunga en þar kemur í ljós að hinn svikuli Högni er í raun sonur Andvara og þetta er allt djöfullegt plott til að komast yfir hringinn. Sigurður snýr aftur og svo Gunnar og Brynhildur og tvöfalt brúðkaup er undirbúið.
Þegar Brynhildur sér Sigurð við hlið Guðrúnar – með hringinn sem hún hélt að Gunnar hefði tekið af sér með valdi – skilur hún að hún hefur verið svikin. Hún sakar Sigurð um óheilindi sem hann neitar, enda man hann ekki ástarjátningar þeirra.
Í þriðja þætti, eftir brúðkaupið, er Sigurður er á veiðum með Högna og Gunnari. Sigurður er einn á ferð þegar hann hittir Rínardætur sem biðja hann um hringinn, hann neitar en fundur þeirra vekur þó einhverjar minningar. Þegar hann hittir aftur Gunnar og Högna vilja þeir heyra af Rínardætrum en meðan hann rekur söguna man hann loks eftir Brynhildi og ástum þeirra. Rétt í þann mund sem fortíðin opinberast Sigurði rekur Högni hann í gegn.
Dauði Sigurðar vekur öllum óhug og á endanum játar Högni sekt sína og krefst þess að fá hringinn en þegar hann reynir að fjarlægja hann af líkinu þá rís hringklæddur hnefi hins látna Sigurðar og Högni hrekkur skelfingulostinn til baka. Smám saman tekst Brynhildi að vinda ofan af lygavef Högna og þegar hún skilur hvernig í pottinn er búið þá lætur hún reisa Sigurði bálköst fyrir útför að víkingasið. Hún syngur sína frægu loka-aríu og hefur nú skilið að allar þjáningarnar voru nauðsynlegar til þess að goðin tækju út sína refsingu og að í þessum endalokum felist nýtt upphaf. Hún gengur svo inn í eldinn til Sigurðar en hringurinn fer í hafið, aftur í faðm Rínardætra. Högni reynir að ná honum en öldurnar taka hann. Þetta eru endalokin, ragnarök, og Valhöll brennur ásamt goðunum.
Athugið að þessi útdráttur byggir á styttri útgáfu Hunds í óskilum á Niflungahring Wagners og ákveðnum atriðum hefur verið örlítið breytt og/eða þau stytt.
Listabraut 3
103 Reykjavík
Kt. 420269-6849
Miðasala: 568 8000
midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500
Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is
Takk fyrir stuðninginn
Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.