Borgarleikhúsið


Skráning í næstu prufur opnar í lok maí

Inntökuprufur í leiklistarskólann fara fram árlega og skráning í næstu prufur opnar hér á heimasíðu Borgarleikhússins í lok maí og verður opin til 15. ágúst. Næst verður tekið við umsóknum frá börnum fæddum á árunum 2010-2013. Þau sem skráð eru í prufu fá sent boð í tölvupósti með nákvæmri tímasetningu. Athugið að boðin verða ekki send út fyrr en stuttu eftir að umsóknarfrestur rennur út þann 15. ágúst. Prufurnar fara fram árlega í seinnihluta ágúst.

Í prufunum er umsækjendum skipt eftir aldri í 15-20 manna hópa. Hver hópur er um klukkustund í prufu. Prufan fer þannig fram að umsækjendur taka þátt í fjölbreyttum leiklistarleikjum og æfingum sem leiddar eru af leiklistarkennara og inntökunefnd. Eftir það fá allir umsækjendur stutt einstaklingsviðtal. Ekki þarf að undirbúa neitt sérstakt fyrir prufuna en mikilvægast er að mæta með opinn huga og að umsækjendur séu óhræddir við að takast á við æfingarnar og sýna hvað í þeim býr. Að prufunum loknum fer inntökunefndin yfir prufurnar og verða niðurstöður sendar í tölvupósti. Árlega eru teknir inn 30 nýir nemendur.
Við val á umsækjendum er fyrst og fremst horft eftir áhuga, þori og vilja umsækjenda. Aðrir þættir sem geta haft áhrif eru m.a. fyrri reynsla umsækjanda, aldur og þroski, kynjahlutfall, samsetning hóps og fjölbreytileiki nemendahópsins. Leiklistarskólinn starfar í samræmi við stefnu Borgarleikhússins þar sem lögð er áhersla á jafnrétti og fjölbreytileika. Við hvetjum börn af öllum kynjum og ólíkum uppruna til að sækja um.


Námið

Leiklistarskóli Borgarleikhússins er faglegur leiklistarskóli fyrir börn. Skólinn leggur áherslu á skapandi leiklistarnám undir leiðsögn gæða kennara. Jákvæð hvatning og uppbygging nemenda er lykilþáttur í starfi skólans. Í náminu kynnast nemendur einnig starfi Borgarleikhússins og fá heimsóknir frá listamönnum sem starfa í húsinu. Á hverju vori taka nemendur þátt í metnaðarfullri uppskeruhátíð þar sem útskriftarnemar sýna frumsamið leikverk og nemendur á yngri stigum sýna styttri atriði.

Námsfyrirkomulag

Skólinn er þriggja ára leiklistarnám þar sem nemendur útskrifast að því loknu sem Ungleikarar. Námið er byggt upp á þremur námsstigum sem taka eitt ár í senn. Í náminu kynnast nemendur jafnframt húsnæði og starfsemi Borgarleikhússins og fá að jafnaði tvær heimsóknir á hverri námsönn frá starfandi listamönnum hússins.

Námsárið skiptist í haustönn sem hefst í byrjun september og vorönn sem hefst í byrjun janúar. Hver önn er 12 kennsluvikur. Ástundun við skólann er að jafnaði tvo daga vikunnar, tvær klukkustundir í senn. Að auki býðst nemendum skólans að bæta við sig námi í dansi og söng í samtals tvær klukkustundir á viku. Almenn skólagjöld fyrir hvora önn veturinn 2022-2023 eru 105.000 kr. Verð á söngnámskeiði er 28.000 kr. og dansnámskeiði 24.000 kr.

Námsstig skólans

1. stig

Markmið 1. stigs er að byggja upp grunnþekkingu í leiktúlkun, líkams- og raddbeitingu. Unnið er að því að styrkja sjálfstraust nemandans, efla leikgleði, skynjun hans á umhverfi sínu og getu hans til að starfa með öðrum.

2. stig

Markmið 2. stigs er að dýpka þekkingu nemenda á leiktækni og leikstílum.
Nemendur vinna að persónusköpun og lögð er áhersla á radd- og líkamsbeitingu.

3. stig

Markmið 3. stigs er að dýpka þekkingu nemenda í leiktúlkun og sköpun. Á haustönn taka nemendur þátt í samstarfsverkefni Borgarleikhússins og KrakkaRÚV og setja upp verðlaunahandrit Krakkar skrifa. Á vorönn vinna nemendur að frumsömdu sviðsverki í samvinnu við kennara. Lögð er áhersla á skapandi vinnu nemenda og sýningarreynslu.

Við lok 3. stigs útskrifast nemendur sem ungleikarar með viðurkenningu frá Borgarleikhúsinu. Útskriftarnemar taka þátt í metnaðarfullri sýningu sem sýnd er á sviði í Borgarleikhúsinu, þar fá nemendur að kynnast því hvernig er að vinna í atvinnuleikhúsi með ljósum, hljóðum, búningum, sviðsmynd og leikmunum.

Hlutverk skólans og markmið

Meginmarkmið skólans er að veita nemendum sínum leiklistarnám í hæsta gæðaflokki í skóla þar sem fagmennska kennara byggir á sérfræðilegri starfsmenntun, þekkingu og reynslu. Rík áhersla er lögð á skapandi hugsun.

Unnið er markvisst að því að styrkja tenginguna á milli leiktækni, tjáningar, sköpunar og einstaklingsbundnum eiginleikum hvers og eins nemanda.

Kennarar veita nemendum sem þess óska ráðgjöf varðandi áframhaldandi leiklistarnám eftir útskrift og önnur leiklistartengd verkefni.

Skólinn leggur áherslu á vellíðan nemenda með áherslum sem endirspeglast í slagorði skólans: 

Sköpunarkraftur
Leikgleði
Hugrekki