Borgarleikhúsið


Námið

Leiklistarskóli Borgarleikhússins er faglegur leiklistarskóli fyrir börn. Skólinn leggur áherslu á skapandi leiklistarnám undir leiðsögn gæða kennara. Jákvæð hvatning og uppbygging nemenda er lykilþáttur í starfi skólans. Í náminu kynnast nemendur einnig starfi Borgarleikhússins og fá heimsóknir frá listamönnum sem starfa í húsinu. Á hverju vori taka nemendur þátt í metnaðarfullri uppskeruhátíð þar sem útskriftarnemar sýna frumsamið leikverk og nemendur á yngri stigum sýna styttri atriði.

Námsfyrirkomulag

Skólinn er þriggja ára leiklistarnám þar sem nemendur útskrifast að því loknu sem Ungleikarar. Námið er byggt upp á þremur námsstigum sem taka eitt ár í senn. Í náminu kynnast nemendur jafnframt húsnæði og starfsemi Borgarleikhússins og fá að jafnaði tvær heimsóknir á hverri námsönn frá starfandi listamönnum hússins.

Námsárið skiptist í haustönn sem hefst í byrjun september og vorönn sem hefst í byrjun janúar. Hver önn er 12 kennsluvikur. Ástundun við skólann er að jafnaði tvo daga vikunnar, tvær klukkustundir í senn. Að auki býðst nemendum skólans að bæta við sig námi í dansi og söng í samtals tvær klukkustundir á viku. Almenn skólagjöld fyrir hvora önn veturinn 2022-2023 eru 105.000 kr. Verð á söngnámskeiði er 28.000 kr. og dansnámskeiði 24.000 kr.

Námsstig skólans

1. stig

Markmið 1. stigs er að byggja upp grunnþekkingu í leiktúlkun, líkams- og raddbeitingu. Unnið er að því að styrkja sjálfstraust nemandans, efla leikgleði, skynjun hans á umhverfi sínu og getu hans til að starfa með öðrum.

2. stig

Markmið 2. stigs er að dýpka þekkingu nemenda á leiktækni og leikstílum.
Nemendur vinna að persónusköpun og lögð er áhersla á radd- og líkamsbeitingu.

3. stig

Markmið 3. stigs er að dýpka þekkingu nemenda í leiktúlkun og sköpun. Á haustönn taka nemendur þátt í samstarfsverkefni Borgarleikhússins og KrakkaRÚV og setja upp verðlaunahandrit Krakkar skrifa. Á vorönn vinna nemendur að frumsömdu sviðsverki í samvinnu við kennara. Lögð er áhersla á skapandi vinnu nemenda og sýningarreynslu.

Við lok 3. stigs útskrifast nemendur sem ungleikarar með viðurkenningu frá Borgarleikhúsinu. Útskriftarnemar taka þátt í metnaðarfullri sýningu sem sýnd er á sviði í Borgarleikhúsinu, þar fá nemendur að kynnast því hvernig er að vinna í atvinnuleikhúsi með ljósum, hljóðum, búningum, sviðsmynd og leikmunum.

Hlutverk skólans og markmið

Meginmarkmið skólans er að veita nemendum sínum leiklistarnám í hæsta gæðaflokki í skóla þar sem fagmennska kennara byggir á sérfræðilegri starfsmenntun, þekkingu og reynslu. Rík áhersla er lögð á skapandi hugsun.

Unnið er markvisst að því að styrkja tenginguna á milli leiktækni, tjáningar, sköpunar og einstaklingsbundnum eiginleikum hvers og eins nemanda.

Kennarar veita nemendum sem þess óska ráðgjöf varðandi áframhaldandi leiklistarnám eftir útskrift og önnur leiklistartengd verkefni.

Skólinn leggur áherslu á vellíðan nemenda með áherslum sem endirspeglast í slagorði skólans: 

Sköpunarkraftur
Leikgleði
Hugrekki

Skráning í inntökuprufur er undir flipanum umsókn