Skilgreinir þú þig sem konu og vilt efla sjálfa þig í vinnu og einkalífi? Viltu vera framkvæmdastýra í eigin lífi? Ertu algjör gólfmotta og vilt læra að vera meiri tussa við fólkið í kringum þig? Hleyptu þá út þinni innri gyðju og framkvæmdastýru! Fjórar gyðjur hafa þróað óskeikula aðferð til þess að þú getir orðið besta mögulega útgáfan af sjálfri þér. Nú geta allar konur fundið sína eigin eitruðu yfirkonu.
Síðustu ár hefur markaðsvæðing femínisma aukist gríðarlega og eru í boði fjölmargar „lausnir“ sem þegar nánar er að gáð bera ýmis merki pýramídasvindls. Konur eru í meirihluta kaupenda þessara lausna og hefur femínisminn þannig orðið þjónn efnishyggjunnar. Í nýju sviðsverki rannsakar uppistandshópurinn Fyndnustu mínar heim eitraðrar femínískrar markaðssetningar með húmorinn að vopni. Komið á FemCon og breytið öllu við ykkur sjálfar!
FemCon er partur af Umbúðalausu verkefni Borgarleikhússins þar sem markmiðið er að styrkja grasrótarstarf í íslensku sviðslistalífi og efla tengsl nýrra sviðshöfunda við áhorfendur.