Jóladraumar er danssýning fyrir alla fjölskylduna um leitina að hinum sanna jólaanda. Einvala lið listamanna stendur að sýningunni þar sem hugað er að hverju smáatriði svo úr verður töfrandi ævintýraheimur sem lætur engan ósnortin.
Í lok sýningar er slegið upp jólaballi og gefst áhorfenum kostur á að stíga á sviðið og dansa í kringum “sprell-lifandi” jólatré. Fyrir og eftir sýningu býðst gestum einnig að velja sér fallegt jólakort, skrifa jólakveðju til ástvina og stinga í rauðan póstkassa fyrir framan sviðið. Pósturinn sér svo um að koma kveðjunni á réttan stað fyrir jól.
Tónlistin í sýningunni er allt í senn frumsamin tónlist Ásgeirs, útsetningar hans á kunnuglegum jólalögum og lög úr hinni sígildu jólamynd a Charlie Brown Christmas með Vince Guaraldi trio.
Við hlökkum til að eiga notalega stund með ykkur á aðventunni. Athugið að sýningin hentar öllum börnum frá 2 ára aldri, óháð móðurmáli.
Að sýningu lokinni verður slegið upp jólaballi á sviðinu. Sannkölluð fjölskyldustund í aðdraganda jóla.
Gleðilega jóladrauma,
Íslenski dansflokkurinn
„Jólin nálgast. Dimmir dagar faðma okkur, snjókorn falla og kertaljós lýsa leiðina að jólaskapinu. Ung stúlka verður forvitin um hinn dularfulla jólaanda og eltir ljósin í leit sinni að sannri merkingu hans.
Á vegferð sinni hittir hún töfrandi fyrirbæri, frekar fúlan jólakött, hræddan héra og illa lyktandi skötu. Nýju vinirnir og uppáhalds tréð hennar í skóginum hjálpa henni að átta sig á því að jólaandinn býr innra með henni og góðvild getur fengið hvern sem er til að brosa.”