Leikhópurinn PóliS kom fram á sjónarsviðið með hinni stórskemmtilegu sýningu Co za poroniony pomysl eða Úff, hvað þetta er slæm hugmynd sem var sýnd í Tjarnarbíói á síðasta ári. Leikhópinn skipa listafólk af pólskum og íslenskum uppruna sem búa til leikandi léttar sýningar þar sem samskipti þessara tveggja vinaþjóða eru í brennidepli.
Nú snýr hópurinn aftur í samstarfi við Borgarleikhúsið með grínsýningunni Tu jest za drogo, eða Úff hvað allt er dýrt hérna. Hér er sögð ferðasaga tveggja ungra Pólverja sem koma til landsins til þess að vinna og safna peningum fyrir brúðkaup sitt heima í Póllandi. Á ferðalaginu hitta þau fyrir furðulegt fólk og lenda í ýmsum ævintýrum sem reyna á samband þeirra. Hér er kærkomið tækifæri til að hlæja að samskiptum og samskiptaörðugleikum en ekki síst að okkur sjálfum.
Sýningin fer öll fram á pólsku en fyrir íslensku- og enskumælandi áhorfendur verður textun í boði.
Í samstarfi við leikhópinn PóliS.
Verkefnið er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneyti—Sviðslistaráði og Reykjavíkurborg.