Leikfélag Reykjavíkur

Leikfélag Reykjavíkur er elsta leikfélag sem starfað hefur óslitið á Íslandi og er jafnframt eitt elsta starfandi menningarfélag landsins.


Umsókn

Smelltu hér til að skrá þig í Leikfélag Reykjavíkur.


,,Allir fyrir einn, einn fyrir alla..."

Leikfélagið var  stofnað 11. janúar 1897 er tveir hópar áhugamanna um leiklist sameinuðust í eitt félag. Helsti hvatinn að stofnun félagsins var bygging Iðnaðarmannahússins við Tjörnina. Félaginu var falin varðveisla eigna Kúlissusjóðsins svonefnda, sem var myndaður af aðgangseyri hinna fyrstu opinberu leiksýninga í Reykjavík 1854.  Fyrsta frumsýningin í nýja Iðnaðarmannahúsinu, eða Iðnó eins og leikhúsið var jafnan kallað, var 18. desember 1897 en þá voru frumsýnd tvö dönsk leikverk með söngvum; Ferðaævintýrið eftir A. L. Arnesen og Ævintýri í Rósenborgargarði eftir Johan Ludvig Heiberg í leikstjórn Indriða Einarssonar.

Félagið var frá upphafi mjög metnaðarfullt og félagarnir tilbúnir að leggja hart að sér til að standa fyrir sjónleikjum af hæsta gæðaflokki en í 14. grein stofnlaga félagsins stóð ,,allir fyrir einn og einn fyrir alla...“ en það endurspeglar hugsjónir félagsins og samstöðu félaganna sem hefur haldist til þessa dags.

Allir stofnendur Leikfélags Reykjavíkur voru áhugamenn þ.e. höfðu annað aðalstarf og fóru því æfingar og allt starf leikhússins fram  utan venjulegs vinnutíma. Meðlimir Leikfélagsins voru allir meðábyrgir í rekstri félagsins og voru skuldbundnir samkvæmt lögum félagsins að greiða ákveðna upphæð ef til gjaldþrots kæmi. Ákvarðanir voru lýðræðislegar varðandi verkefnaval og almennan rekstur. Leikarar fengu greitt kvöldkaup fyrir hvert sýningarkvöld en höfðu jafnan grunntekjur úr sínu aðalstarfi.

Iðnó menningarmiðja í Reykjavík

Þó Iðnaðarmannahúsið hafi í huga almennings verið leikhús Leikfélags Reykjavíkur var félagið alltaf leigjandi hússins. Iðnaðarmannafélagið átti húsið til 1918 en eftir það skipti húsið nokkrum sinnum um eigendur og var ávallt önnur stafsemi í húsinu meðfram starfsemi Leikfélagsins. Leikfélag hefur því frá upphafi deilt húsnæði með annarri menningarstarfsemi en Iðnó var í áratugi eitt helsta samkomuhús höfuðstaðarins; þar voru haldnir fyrirlestrar, söngskemmtanir, kvikmyndasýningar, dansleikir, veislur og samkomur af öllu tagi. Þar var t.d. fagnað heimastjórn 1. febrúar 1904 og slegið upp veislum þegar kóngurinn kom í heimsókn, einnig fengu aðrir leikflokkar inni með revíur og óperettur. Má því segja að Leikfélag Reykjavíkur hafi frá upphafi tekið sér stöðu í menningarmiðju Reykjavíkur og skapað sér þar tryggan sess í litríku umhverfi og frjósamri nálægð við aðra menningarstarfsemi.

Eftir því sem starfsemi LR óx minnkaði þessi hliðarstarfsemi, þó voru dansleikir haldnir þar alveg fram um 1970.

LR verður atvinnuleikhús

Við stofnun  Þjóðleikhússins urðu gríðarlega mikil umbrot og breytingar hjá Leikfélaginu.  Hinn 1. nóvember 1949 voru 14 helstu leikarar LR fastráðnir til Þjóðleikhússins, þeirra á meðal allir leikstjórar félagsins og aðalleikmyndahöfundurinn, Lárus Ingólfsson, auk fjölda annarra starfsmanna leiksviðsins. Þetta hefur verið nefnt Blóðtakan mikla. Það var reyndar ekki eingöngu starfsfólk sem hvarf til Þjóðleikhússins heldur einnig megnið af eignum félagsins, leiktjöld, búningar, handrit.  Það  munaði ekki miklu að Leikfélag Reykjavíkur liði undir lok. Það voru ekki síst þeir Þorsteinn Ö. Stephensen og Brynjólfur Jóhannesson sem mest mæddi á næstu ár bæði á leiksviðinu og að tjaldabaki.  Töluverður fjöldi ungs og kraftmikils fólks kom inn í félagið. Endurreisn og endurskipulagning Leikfélagsins hófst. Og líklega er það í kring um 1960 sem róttækustu breytingarnar urðu í skipulagi og rekstri leikhússins.  Lögum félagsins var breytt og leikhússtjóri ráðinn (1963). Hann átti að veita leikhúsinu listræna forystu og annast daglegan rekstur með framkvæmdastjóra. Einnig var  komið á fót leikhúsráði sem fjallaði um öll mál leikhússins er vörðuðu stefnu þess og starfshætti. Líklega var þetta fyrsta tilraun hér á landi til að gera starfsfólk á vinnustað samábyrgt um mótun og stjórnun fyrirtækis. Auk fulltrúa leikara og starfsfólks áttu sæti í leikhúsráðinu, leikhússtjóri og fulltrúi Reykjavíkurborgar.  Styrkur borgarinnar var aukinn til muna og í fyrsta sinn, veturinn 1964/65, voru fastráðnir leikarar til félagsins og þeim tryggð föst mánaðarlaun. Annað starfsfólk kom svo í kjölfarið. Ráðist var í aðkallandi endurbætur á húsnæði, áhorfendasalur lagfærður, settar upphækkanir og ný sæti keypt.  Leikfélag Reykjavíkur  náði takmarkinu að verða eiginlegt atvinnuleikhús. Reyndar var draumurinn um nýtt leikhús þegar kominn á kreik enda aðstaða og aðbúnaður í Iðnó löngu orðin ófullnægjandi, þrátt fyrir lagfæringar og endurbætur. 

,,Við byggjum leikhús"

Eftir að L.R. var orðið atvinnuleikhús og metnaðarfull nútímaleg leiklist komin í fullan vöxt kom fljótlega í ljós að gamla leikhúsið við Tjarnarbakkann var orðið of lítið fyrir starfsemina. Ástæða þótti til að bæta við sýningarrýmum og var leitað út fyrir Iðnó að hentugum leikrýmum.  Sýningar voru haldnar í Tjarnarbíói um árabil sem og í Austurbæjarbíói, en margir muna sjálfsagt eftir fjörugum miðnætursýningunum þar á borð við söngleikinn Gretti. Á síðari hluta níunda áratugarins  voru einnig sýningar settar á svið í gamalli vöruskemmu við Grandaveg við góðan orðstír. 

Það var greinilega orðið aðkallandi að finna Leikfélaginu nýtt húsnæði sem myndi rúma alla starfsemi Leikfélagsins undir einu þaki og svara kalli tímans um aðstöðu fyrir nútíma leikhúsreksturs. 

Leikfélagið hafði stofnað Húsbyggingarsjóð Leikfélags Reykjavíkur  árið 1953 að frumkvæði Brynjólfs Jóhannessonar og fljótlega voru hafnar viðræður við borgaryfirvöld um staðsetningu nýs leikhúss en borgin hét öflugum styrk og stuðningi við framkvæmdina. Eftir að LR var orðið atvinnuleikhús stofnaði Reykjavíkurborg aðskilin byggingarsjóð vegna nýs atvinnuleikhúss í borginni, en í sjóðinn veitti borgin árlega veglegan styrk.  Í mörg ár unnu félagsmenn ötullega að því að styrkja húsbyggingarsjóð með leiksýningum, skemmtunum og  öðrum uppákomum undir slagorðinu „Við byggjum leikhús”.  Leikfélagsfólk vann af óbilgirni, metnaði og festu að því að styrkja sjóðinn og eftir margra ára  þrotlausa vinnu var ljóst að draumurinn gæti orðið að veruleika.

Snemma árs 1975 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur stofnskrá fyrir Borgarleikhúsið í Reykjavík. Segir þar m.a. að Leikfélagið og Reykjavíkurborg láti reisa sameiginlega hús til sjónleikjahalds í borginni sem rekið yrði sem sjálfstæð stofnun í eigu beggja aðila. 

Arkitektar hússins voru ráðnir Guðmundur Kr. Guðmundsson, Ólafur Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson, sem jafnframt er leikari, og voru teikningar þeirra samþykktar af borgaryfirvöldum og LR í ágúst 1975.

31. október 1976 settist Birgir Ísleifur Gunnarsson borgarstjóri upp í stórvirka vélskóflu og gróf fyrstu skóflustungu. Þetta mun reyndar vera í fyrsta sinn í sögu landsins sem fyrsta skóflustunga er tekin með þessum hætti. Tíu árum síðar lagði Davíð Oddsson, borgarstjóri, hornsteininn á 89 ára afmæli LR 11. janúar 1986 og 3. september 1989 var Leikfélaginu afhent lyklavöldin að Borgarleikhúsinu.

Borgarleikhúsið

Borgarleikhús var opnað með pompi og prakt með hátíðarhöldum dagana 20.-22. október 1989 og voru við það tækifæri frumsýndar tvær nýjar leikgerðir á sögum Halldórs Laxness, Ljósi heimsins á Litla sviðinu  og Höll sumarlandsins á Stóra sviðinu.

Borgarleikhúsið er stærsta og best búna leikhús landsins, 10.400 fermetrar að stærð. Að auki telst það í hópi best búnu leikhúsa Evrópu. Í upphafi voru sviðin tvö, Stóra sviðið og Litla sviðið. Stóri salurinn er blævængslaga með einu, hallandi gólfi og tekur 529 manns í sæti, en sá litli er sexhyrndur með breytilegri sætaskipan og tekur að jafnaði um 170 manns í sæti, en hefur tekið hátt á þriðja hundrað gesta. Í október 2001 var þriðja sviðinu bætt við, Nýja sviðinu, sem í dag er fullkominn ,,svartur kassi“ sem býður uppá mikla möguleika hvað varðar rýmisnýtingu. Sæti eru fyrir 300 áhorfendur. Þriðja hæðin, kaffileikhúsið; lítill salur við mötuneyti starfsmanna, hefur auk þess verið notaður við ýmsar uppákomur, fyrirlestra og sýningar en salurinn tekur um 70 manns í sæti. Leikið hefur verið á ýmsum öðrum stöðum í húsinu eins og í forsal leikhússins, í starfsmannarými baksviðs og boðið hefur verið upp á sviðsettar skoðunarferðir um allt leikhúsið. 

Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“  í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.

Meðal eftirminnilegra sýninga

Í 120 ára sögu Leikfélags Reykjavíkur má lesa um ótal glæsilega leiksigra enda af miklu að taka.  Leikritin sem Leikfélagið hefur sviðsett eru hátt í sex hundruð. Vitanlega sýnist sitt hverjum í mati á því hvað er leiksigur og hvað ekki, hvaða leiksýningar gætu talist merkar og hverjar ekki, enda er það ætíð mat, - persónulegt mat þess er skoðar söguna og skoðun er alltaf fróðleg, gagnleg, - og skemmtileg.

 Í upphafi var verkefnavalið ekki ósvipað því sem landlægt var í litlu leikflokkum landsins, ýmislegt léttmeti, gjarnan með söngvum.  Kannski mátti líkja Leikfélaginu við danskt dreifbýlisleikhús enda flest verkin ættuð þaðan, stundum reyndar frönsk og þýsk. En leikhópurinn þroskaðist hratt og það leið ekki á löngu þar til hann mannaði sig upp í að takast á við erfiðustu verk Henriks Ibsens og Björnstjerne Björnsson og annarra raunsæisskálda. Þetta tók um það bil tíu ár og í árslok 1907 hefst nýtt tímabil sem stundum hefur verið kallað „íslensku árin“ en þá axlar Leikfélagið hið þjóðlega hlutverk sitt með því að taka til sýninga íslensk leikverk. Það er byrjað á því að setja upp þau örfáu „sígildu“ leikrit sem til voru: Nýársnóttina eftir Indriða Einarsson (1907) og Skugga-Svein Matthíasar Jochumssonar í nóvember 1908. Mánuði síðar er fyrsta sviðsetning á leikriti eftir Jóhann Sigurjónsson Bóndinn á Hrauni frumsýnt á annan í jólum, sem var lengi einn af hátíðisdögum Leikfélagsins. Næstu ár eru frumflutt eitt til tvö íslensk verk árlega. Fljótlega voru fyrstu leikrit Guðmundar Kambans, Hadda Padda og Konungsglíman og Vér morðingjar eru sýndir 1920 sem telja verður eitt helsta öndvegisleikrit þjóðarinnar. Og ekki má gleyma frumsýningum Fjalla-Eyvindar, á annan í jólum 1911, sem er einn af merkisviðburðum íslenskrar leiklistarsögu. Leikritið var sýnt 23 sinnum í einni lotu og hafði önnur eins aðsókn aldrei verið í leikhúsinu.   Galdra-Loftur var frumflutt 1914, með Jens B. Waage‚ í titilhlutverki Guðrún Indriðadóttir lék Höllu og Stefanía Guðmundsdóttir Steinunni.  Galdra-Loftur hefur fylgt Leikfélaginu síðan og fremstu leikarar jafnan í burðarhlutverkum: Indriði Waage  og Soffía Guðlaugsdóttir 1933, Gunnar Eyjólfsson og Regína Þórðardóttir 1948, Gísli Halldórsson og Erna Sigurleifsdóttir 1956 og Benedikt Erlingsson og Sigrún Edda Björnsdóttir 1994. Allar þessar sýningar vöktu mikla athygli. Leikskáldin, Indriði, Jóhann, Einar og Guðmundur Kamban náðu býsna mikilli viðurkenningu erlendis. Bæði Jóhann og Kamban náðu að marka leiklistarsögu Dana og koma verkum sínum á svið í helstu leikhúsum Danmerkur og Norðurlanda auk þess voru verk þeirra sýnd í Þýskalandi og leikrit Jóhanns þar að auki í París og London. Kannski var Ísland orðið svolítið stórveldi í leikritun með þessum skáldum.

Árin 1920-1950 eru mikil umbrotaár í sögu Leikfélagsins. Reyndar var þetta tímabil ekki blómaskeið í innlendri leikritun en Leikfélagið heldur algjörri forystu meðal leikfélaga landsins. Í kring um 1925 verða kynslóðaskipti og lykilhlutverki gegnir Indriði Waage. Hann hafði stundað nám erlendis og kemur heim innblásinn af því sem var að gerast í leiklist meginlandsins, - einkum því þýska. Hann er í forystu leikhópsins næstu ár. Það er ráðist í stór verkefni, Þrettándakvöld og Vetrarævintýri Shakespeares, Fröken Júlíu Strindbergs og hann færir íslenska leiklist nær nútímanum með því að sýna glæný erlend leikrit. Eitt merkasta þeirra er Sex persónur leita höfundar eftir ítalska leikskáldið Luigi Pirandello aðeins þremur árum eftir að verkið var frumflutt á Ítalíu. Indriði Waage tók upp á sína arma hugmyndina um alþýðuleikhús sem kom fram í Frakklandi og Þýskalandi eftir Heimstyrjöldina fyrri. Þetta birtist í leikgerðunum af Manni og konu og Pilti og stúlku Jóns Thoroddsen.  Báðar sýningarnar  urðu gríðarmikill sigur fyrir Leikfélagið. Kannski má segja að hugmyndin um alþýðuleikhús hafi fylgt Leikfélaginu æ síðan. 

Lárus Pálsson kom til félagsins upp úr 1940 og var fyrsti fastráðni leikstjóri félagsins og leiddi til sigurs fjölda leikrita, m.a Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson 1941, Skálholt Kambans 1945 og hann lék Hamlet Danaprins fyrstur Íslendinga 1949. Reyndar var leikárið 1948/49 býsna metnaðarfullt því auk þess að setja upp Hamlet voru Gullna hliðið, Galdra-Loftur og Volpone á verkefnaskránni. 

Eftir stofnun Þjóðleikhússins voru þeir Þorsteinn Ö. Stephensen og Gunnar Róbertsson Hansen sem stóðu í eldlínunni. Gunnar var danskur leikstjóri og hafði unnið með Leikfélaginu áður. Hann kemur nú til starfa og setur mark sitt á starfsemina svo um munar. Á þessum tíma er sett upp óperan Miðillinn eftir Menotti 1952 og sungið í fyrsta sinn á íslensku, fyrsti ballettinn er einnig sýndur, Ólafur Liljurós eftir Jórunni Viðar og Sigríði Ármann, en ein áhrifamesta sýning á þessum árum var Marmari eftir Guðmund Kamban sem Gunnar Hansen leikstýrði 1952. Þetta var fyrsti stórsigur Leikfélagsins eftir að Þjóðleikhúsið tók til starfa og skipti líklega miklu máli fyrir sjálfstraust leikflokksins. Af öðrum sýningum má nefna Glerdýrin eftir Tennessee Williams og Þrjár systur eftir Anton Tsjekhov þar sem systurnar léku þær Helga Valtýsdóttir, Guðbjörg Þorbjarnardóttir og Anna Þórarinsdóttir. Þetta var á 60 ára afmæli Leikfélagsins og fyrsta Tsjekhovsýning á Íslandi.

Eftir að Leikfélag Reykjavíkur ræður sinn fyrsta leikhússtjóra og verður atvinnuleikhús einkennist starfsemin af miklum frískleika og ótal merkra sýninga litu dagsins ljós. Verkefnavalið er fjölbreytt blanda erlendra og innlendra verka. Markverðust er tvímælalaust leikrit Jökuls Jakobssonar sem telja má fyrsta íslenska leikskáldið og strax 1962 er tóninn sleginn svo um munar með frumflutningi á Hart í bak í leikstjórn Gísla Halldórssonar. Sýningin hlaut gríðarlega góðar viðtökur, 85 sýningar í Iðnó og 45 sýningar í leikför um landið og áður en yfir lauk urðu sýningar 205! Leikgerðir á verkum Halldórs Laxness settu einnig mark á leikhússtjóratíð Sveins Einarssonar, Dúfnaveislan og Kristnihaldið og leikrit Jónasar Árnasonar, Þið munið hann Jörund, Táp og fjör og Drottins dýrðar koppalogn og erlendu leikritin Tobacco Road, Hitabylgja að ógleymdum leikritum Darios Fos. Allar þessar metnaðarfullu sýningar hlutu mikla aðsókn og voru sýndar oftar en 50 sinnum.

Leikfélagið heldur áfram að sinna innlendri leikritun í tíð næstu leikhússtjóra af miklum frískleika og næstu ár koma verk Jónasar Árnasonar, Skjaldhamrar og Valmúinn springur út á nóttunni, fyrstu leikrit Birgis Sigurðssonar en eldhuginn Kjartan Ragnarsson stendur uppúr með leikhúslegt áræði sitt og hugmyndir, bæði sem leikskáld og ekki síður sem leikstjóri. Leikrit hans Saumastofan  1975, Blessað barnalán 1977,  leikgerðin að Ofvitanum eftir Þórberg Þórðarson 1979, Jói 1981, Skilnaður 1982. Allt afar eftirminnilegar sýningar, - sumar jafnvel ógleymanlegar að ekki sé minnst á ævintýrið í Skemmunni sem Kjartan og annað Leikfélagsfólk dreif áfram af miklum kjarki. Skemman var fiskverkunarhús Bæjarútgerðar Reykjavíkur og þar var Djöflaeyjan eftir Einar Kárason í leikgerð Kjartans fyrsta frumsýning. Þetta var óvenju stór sýning og metnaðarfull og hlaut mikið lof. Síðar átti Kjartan eftir að stýra framúrskarandi sýningum í Borgarleikhúsinu, leikgerð á Ljósi heimsins eftir Halldór Laxness og svo hina stórbrotna hugmynd að sýna Vanja frænda og Platanov sama sýningarkvöld á Litla sviðinu undir titlinum Sögur úr sveitinni og loks ógleymanlega sýningu á Þrúgum reiðinnar eftir John Steinbeck með hljómlistarmanninum Kristjáni Kristjánssyni.

Af öðrum sýningum í Borgarleikhúsinu á síðustum árum sem vakið hafa verðskuldaða athygli eru Dómínó eftir Jökul Jakobsson sem sýnt var í tilefni 100 ára afmælis Leikfélagsins 1997 í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur og afar vel heppnuð sviðsetning á Degi vonar Birgis Sigurðssonar árið 2007 í leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar, tvö leikrit sem áreiðanlega skipa sér sess í hópi sígildra öndvegisverka þjóðarinnar. Einnig má nefna trúðasýningarnar Dauðasyndirnar og Jesús litla, Djúpið eftir Jón Atla Jónasson og sýningarnar Þú ert hér, Góðir Íslendingar og Zombíljóðin eftir þá félaga Jón Pál Eyjólfsson, Jón Atla Jónasson og Hall Ingólfsson. Leikfélaginu hefur vaxið mjög ásmegin í sviðsetningu umfangsmikilla sýninga þar sem reynt hefur á þanþol starfsfólks og leiksviðs. Má þar nefna söngleikinn Chicago árið 2004, Woyzeck árið 2005, Söngvaseið og Faust árið 2009, Gauragang árið 2010, Mary Poppins árið 2012,  Dúkkuheimili og svo Billy Elliot árið 2014 sem líklega er stærsta sviðsetning Leikfélags Reykjavíkur frá upphafi. Mamma Mia! var sýnd samtals 182 sinnum og gestir urðu 100.908 sem mun vera aðsóknarmet frá upphafi leiklistar á Íslandi.  Mávurinn og Njála árið 2015 hlutu báðar mikla eftirtekt. Sama má segja um barnasöngleikinn Bláa hnöttinn og sýninguna um söngkonuna dáðu, Elly.

Þá vakti athygli heimildaverkið Flóð eftir Björn Thors og Hrafnhildi Hagalín um snjóflóðin á Flateyri 1995 sem byggði á fjölmörgum viðtölum en efnt var til samstarfs við RÚV um verkefnið og gerðu höfundar 10 útvarpsþætti í tengslum við sýninguna sem hlutu mikla hlustun um allt land.Mávnum var boðið til Póllands, Finnlands og Kína. Njála hlaut tíu Grímu-verðlaun sem er meira en nokkur sýning í sögu verðlaunanna. Einn eftirtektarverðasti atburður síðustu ára var tvímælalaust lestur Rannsóknarskýrslu Alþingis við útgáfu hennar árið 2008. Sá atburður vakti athygli langt út fyrir landsteina Íslands.

Mikil umskipti urðu er ný og markviss stefna var tekin árið 2008 er rík áhersla var lögð á að afla meiri fjölda fastra áskriftargesta. Áður voru þeir einungis nokkur hundruð enda önnur stefna í rekstri sem fólust í áherslu á lausasölu en ekki áskrift. Fjöldi gesta í Borgarleikhúsið fór stigvaxandi til leikársins 2007/08 er hann var kominn upp í  190.000. Síðan þá hefur fjöldi gesta í Borgarleikhúsið verið í kringum 200.000. Kortagestir eru nú um 10.000.  Slíkur fjöldi fastagesta hefur ekki þekkst í leiklistarsögu Íslands. Þetta voru mikil umskipti í rekstri leikhússins og veitti því mikilvæga kjölfestu. Leikárið 2016/17 komu um 190.000 gestir í Borgarleikhúsið.

Heimildir

  • Leikhúsið við Tjörnina eftir Svein Einarsson, Almenna Bókafélagið, 1972
  • Níu ár í neðra eftir Svein Einarsson, Almenna bókafélagið 1984
  • Leikfélag Reykjavíkur, Aldarsaga eftir Þórunni Valdimarsdóttur og Eggert Þór Bernharðsson,  Leikfélags Reykjavíkur og Mál og menningar, 1997.