Borgarleikhúsið

Leikfélag Reykjavíkur

Leikfélag Reykjavíkur er elsta leikfélag sem starfað hefur óslitið á Íslandi og er jafnframt eitt elsta starfandi menningarfélag landsins. Smelltu hér til að skrá þig í Leikfélag Reykjavíkur.

Leikfélag Reykjavíkur var stofnað 11. janúar 1897 og hóf sýningar í Iðnaðarmannahúsinu við Tjörnina. Iðnó, eins og húsið var jafnan kallað, var aðsetur Leikfélagsins til ársins 1989 þegar félagið flutti í Borgarleikhúsið.

Félagið var frá upphafi mjög metnaðarfullt og félagarnir tilbúnir að leggja hart að sér til að standa fyrir sjónleikjum af hæsta gæðaflokki. Ólíkt öðrum leikfélögum á landinu lagði Leikfélag Reykjavíkur áherslu á að leikarar fengju greitt kaup fyrir hvert sýningarkvöld, þó ekki væri það nóg til að þeir gætu haft viðurværi af leiklist eingöngu. Þó fæstir leikarar Leikfélagsins á fyrri hluta tuttugustu aldar hefðu lokið formlegri leiklistarmenntun og sinntu öðrum störfum í dagvinnu litu margir þeirra fyrst og fremst á sig sem leikara. Leikfélagið átti sínar stjörnur, á borð við Stefaníu Guðmundsdóttur, Jens Waage, Guðrúnu Indriðadóttur, Brynjólf Jóhannesson og Soffíu Guðlaugsdóttur, sem nutu mikilla vinsælda og virðingar í samfélaginu fyrir list sína. Þrátt fyrir að fjárhagur Leikfélagsins væri oft erfiður skapaði metnaðarfullt starf þess því fljótlega stöðu sem ein helsta menningarstofnun þjóðarinnar og má segja að það hafi gegnt hlutverki þjóðleikhúss þar til Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu var vígt 1950.Við stofnun Þjóðleikhússins var óttast að Leikfélag Reykjavíkur myndi hætta starfsemi enda var stærstur hluti helstu leikara þess fastráðinn til Þjóðleikhússins. Svo varð þó ekki. Töluverður fjöldi ungs og kraftmikils fólks kom fyllti þau skörð sem mynduðust og undir stjórn eins af reyndari leikurum félagsins, Þorsteins Ö. Stephensen, hófst endurreisn og endurskipulagning Leikfélagsins. Í stað þess að leggja árar í bát réðst Leikfélagið í stór og metnaðarfull verkefni sem sýndu svo um munaði að Leikfélag Reykjavíkur var komið til að vera.

Endurreisn félagsins skilaði sér bæði í aukinni aðsókn og hækkuðum styrk frá Reykjavíkurborg sem gerði það að verkum að snemma á sjöunda áratugnum gat Leikfélagið í fyrsta sinna fastráðið leikara við félagið. Lögum félagsins var breytt og leikhússtjóri ráðinn sem átti að veita leikhúsinu listræna forystu og annast daglegan rekstur. Ráðist var í aðkallandi endurbætur á húsnæði, áhorfendasalur lagfærður, settar upphækkanir og ný sæti keypt. Reyndar var draumurinn um nýtt leikhús þegar kominn á kreik enda aðstaða og aðbúnaður í Iðnó löngu orðin ófullnægjandi, þrátt fyrir lagfæringar og endurbætur.

Land míns föður

Einnig varð ljóst að gamla leikhúsið við Tjarnarbakkann var orðið of lítið fyrir starfsemina. Ástæða þótti til að bæta við sýningarrýmum og var leitað út fyrir Iðnó að hentugum leikrýmum. Sýningar voru haldnar í Tjarnarbíói um árabil sem og í Austurbæjarbíói, en margir muna sjálfsagt eftir fjörugum miðnætursýningunum þar. Það var greinilega orðið aðkallandi að finna Leikfélaginu nýtt húsnæði sem myndi rúma alla starfsemi Leikfélagsins undir einu þaki og svara kalli tímans um aðstöðu fyrir nútíma leikhúsrekstur.

Leikfélagið hafði stofnað húsbyggingarsjóð Leikfélags Reykjavíkur árið 1953 að frumkvæði Brynjólfs Jóhannessonar og fljótlega voru hafnar viðræður við borgaryfirvöld um byggingu nýs leikhúss. Í mörg ár unnu félagsmenn ötullega að því að styrkja húsbyggingarsjóð með leiksýningum, skemmtunum og öðrum uppákomum undir slagorðinu „Við byggjum leikhús”. Leikfélagsfólk vann af óbilgirni, metnaði og festu að því að styrkja sjóðinn og eftir margra ára þrotlausa vinnu var ljóst að draumurinn gæti orðið að veruleika.

SEy-2592

Snemma árs 1975 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur stofnskrá fyrir Borgarleikhúsið í Reykjavík. Arkitektar hússins voru ráðnir Guðmundur Kr. Guðmundsson, Ólafur Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson, sem auk þess var lengi vel leikari hjá Leikfélagins. Fyrsta skóflustungan var tekin haustið 1976 í Kringlumýri og þann 3. september 1989 var Leikfélaginu afhent lyklavöldin að Borgarleikhúsinu sem var opnað með pompi og prakt með hátíðarhöldum dagana 20.–22. október 1989. Við það tækifæri voru frumsýndar tvær nýjar leikgerðir á sögum Halldórs Laxness, Ljósi heimsins á Litla sviðinu og Höll sumarlandsins á Stóra sviðinu.

Borgarleikhúsið er stærsta og best búna leikhús landsins, 10.400 fermetrar að stærð. Að auki telst það í hópi best búnu leikhúsa Evrópu. Í upphafi voru sviðin tvö, Stóra sviðið og Litla sviðið. Stóri salurinn er blævængslaga með einu, hallandi gólfi og tekur 547 manns í sæti, en sá litli er sexhyrndur með breytilegri sætaskipan og tekur að jafnaði 170-230 manns í sæti, en hefur tekið hátt á þriðja hundrað gesta. Í október 2001 var þriðja sviðinu bætt við, Nýja sviðinu, ,,svartur kassi“ sem býður uppá mikla möguleika hvað varðar rýmisnýtingu, en sæti eru þar fyrir allt að 300 áhorfendur. Þriðja hæðin, kaffileikhúsið, lítill salur við mötuneyti starfsmanna, hefur auk þess verið notaður við ýmsar uppákomur, fyrirlestra og sýningar. Leikið hefur verið á ýmsum öðrum stöðum í húsinu eins og í forsal leikhússins, í starfsmannarými baksviðs og að auki hefur verið boðið upp á sviðsettar skoðunarferðir um allt leikhúsið.


Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“ í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi. Í rúmlega 120 ár hefur Leikfélag Reykjavíkur verið leiðandi afl í leiklistarlífi þjóðarinnar. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.

Heimildir

  • Leikhúsið við Tjörnina eftir Svein Einarsson, Almenna Bókafélagið, 1972
  • Níu ár í neðra eftir Svein Einarsson, Almenna bókafélagið 1984
  • Leikfélag Reykjavíkur, Aldarsaga eftir Þórunni Valdimarsdóttur og Eggert Þór Bernharðsson,  Leikfélags Reykjavíkur og Mál og menningar, 1997