Magnús Þór Þorbergsson tók saman
BessWohl fæddist 1975 og ólst upp í Brooklyn í New York þar sem leiklistaráhuginn kviknaði eftir að amma hennar fór með hana á Pétur Pan þegar hún var fjögurra ára gömul. Hún stundaði nám í ensku við Harvard og lauk MFA gráðu í leiklist frá Yale háskóla, en þar skrifaði hún sitt fyrsta leikrit – CatsTalk Back, gamanleik um leikara í söngleiknum Cats – sem sýnt var á tilraunasviði skólans áður en það vann til verðlaun á alþjóðlegri leiklistarhátíð í New York.
Að loknu nám reyndi Bess fyrir sér sem leikkona og fékk m.a. lítil hlutverk í sjónvarpsþáttaröðunum Law & Order og CSI:NY og kvikmyndum á borð við Must Love Dogs og Flightplan. Meðfram því hélt hún áfram að skrifa leikrit en þegar vinsældir hennar sem leikskáld jukust, hvarf hún af leikaraferlinum og sneri sér alfarið að leikritaskrifum. Á sex ára tímabili sendi BessWohl frá sér um tug leikrita, sem sýna mikla breidd bæði í formi og efnistökum. Hún vakti strax athygli fyrir fyrsta verk sitt að loknu námi, American Hero (2014), sem hverfist um þrjá starfsmenn skyndibitakeðju sem þurfa að grípa til sinna ráða þegar útibússtjórinn hverfur sporlaust. Þó verkið sé vissulega gamanleikur kraumar undir niðri barátta bandarísks láglaunafólks við að lifa af og ádeila á markaðsöfl sem sækjast fyrst og síðast eftir hagnaði og einsleitni á kostnað sköpunar og frumleika.
Árið 2015 sendi hún frá sér tvö verk, sem eru eins ólík og hugsast getur. Annars vegar söngleikinn PrettyFilthy, sambland af heimildaverki og háðsádeilu um klámiðnaðinn í Los Angeles, og Small MouthSounds, um hóp fólks í leit að andlegri uppljómun í gegnum þagnarbindindi. Í kjölfarið fylgdu verk á borð við Barcelona (2016), spennuþrungið tveggja manna leikrit þar sem skyndikynni vinda upp á sig með óvæntum hætti og Make Believe(2019), draumkennt verk um foreldralaus systkini þar sem fortíð og nútið og ímyndun og raunveruleiki renna saman. Loks má nefna Camp Siegfried (2021), um ungt par sem kynnist í sumarbúðum fyrir unga nasista í Bandaríkjum millistríðsáranna, en sumarbúðir undir þessu nafni voru raunverulega starfræktar á Long Island í New York á fjórða áratug síðustu aldar með það að markmiði að innræta hugmyndafræði nasisma.
Óskaland (Grand Horizons) er þó líklega það verk sem mesta athygli hefur vakið af verkum BessWohl. Að forminu til er það hefðbundnara en mörg önnur verk hennar og hefur verið líkt við verk höfunda á borð við bandaríska leikskáldið Neil Simon sem er íslenskum leikhúsgestum að góðu kunnur. Verkið fjallar um hjónin Nönnu og Villa sem hafa nýverið fagnað fimmtíu ára brúðkaupsafmæli sínu þegar Nanna segist – upp úr þurru – vilja skilnað sem Villi samþykkir athugasemdalaust. Hugmyndin að leikritinu kviknaði þegar Wohl varð vör við að margir af vinum hennar og kunningjum töluðu um að foreldrar þeirra væru að skilja – á sjötugs eða jafnvel á áttræðisaldri. Henni varð því hugleikið hvað lægi á bak við svo stóra ákvörðun – eftir áratuga löng sambönd. Við fyrstu sýn er Óskaland gamanleikrit þótt ekki falli það beinlínis í farsa-flokkinn en þegar nánar er að gáð má greina myrkari hliðar og Wohl þykir takast listavel að spinna létt og leikandi gaman úr dekkri þráðum ótta og kvíða. Grand Horizons var frumsýnt í Hayes leikhúsinu á Broadway í janúar 2020 með þeim James Cromwell og Jane Alexander í hlutverkum Villa (Bill) og Nönnu (Nancy). Verkið hlaut tilnefningu til Tony verðlauna árið 2020 sem besta leikrit og Jane Alexander var tilnefnd fyrir leik í sýningunni en auk þess hefur það unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga. Verkið hefur í kjölfarið verið sýnt víða um Bandaríkin auk uppsetninga í Ástralíu, Nýja Sjálandi, Þýskalandi og Sviss.
Á síðustu árum hefur BessWohl reynt sig við kvikmyndagerð en fyrsta kvikmynd hennar, Baby Ruby, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto árið 2022. Wohl skrifaði handritið og leikstýrði myndinni, sem skartar Kit Harington úr Game of Thrones í einu aðalhlutverkanna.
Listabraut 3
103 Reykjavík
Kt. 420269-6849
Miðasala: 568 8000
midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500
Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is
Takk fyrir stuðninginn
Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.