„Unnu öll í Kassagerðinni“

„Unnu öll í Kassa­gerð­inni“

Ólafur Egill Egilsson, leikstjóri og höfundur sýninganna Níu líf og Ástu og handritshöfundur Ellyjar hitti Maríönnu Clöru Lúthersdóttur í stutt spjall um þessar óvenjulegu sýningar sem hafa fangað hug og hjörtu áhorfenda en ekki síður um nýjustu sýninguna, Þetta er Laddi, sem væntanleg er á fjalirnar í vetur.

Ólafur Egilsson

MCL: Mig langaði að spyrja þig út í þessar sýningar sem þú ert búinn að vera að gera upp úr íslenskum veruleika um Elly, Bubba, Ástu Sigurðar og nú Ladda. Hvað var það sem heillaði þig við þessar íslensku sögur sem kemur svo í ljós að áhorfendur heillast ekki síður af?

Ólafur: Ég held að ég og áhorfendur séum bara sammála um að við höfum áhuga á þessum sögum. Við höfum áhuga á samfélagi okkar – þá og nú – og mér finnst fátt skemmtilegra en að grafa upp gamlar sögur og setja mig inn
í liðna tíð. Oftar en ekki tengjast þessar sögur og skarast – margar af persónunum í lífi Ellyjar Vilhjálms voru líka þáttakendur í lífi Ástu – Líka Bubba – það er til dæmis gaman að segja frá því þau unnu öll í Kassagerðinni á einhverjum tímapunkti! Bubbi vann í Kassagerðinni, Ásta Sigurðardóttir vann í Kassagerðinni, Elly vann í Kassagerðinni og Laddi!

MCL: Þú ert að ljúga!!! Ólafur: Nei!!

MCL: Jæja, þá erum við alla vega komin með fyrirsögn á viðtalið:

Ólafur: Já! Unnu öll í Kassagerðinni!

MCL: En þetta er náttúrulega aldrei einhver einangruð saga – þetta er alltaf líka samfélagið sem er undir, þótt persónulegar sögur fólksins séu í forgrunni.

Ólafur: Algjörlega. Sagan af Elly er ekki bara saga um konu sem þarf að standa með sjálfri sér og vinna sig í gegnum erfiðar kringumstæður, heldur líka saga um samfélag á skeri á norðurhjara þar sem það að vera kona og skemmtikraftur var minniháttar, og það speglar áherslur og tíðaranda sem kallast svo aftur á við daginn í dag, gefur okkur amk. einhver viðmið. Mikilvægur punktur er líka að það er enginn annar að segja þessar sögur, þetta eru sögurnar okkar og það er enginn úti í hinum stóra heimi að fara að segja söguna af Ómari Ragnarssyni eða Katrínu Jakobsdóttur eða Steinku Bjarna. Ef við gerum það ekki – þá verða þær bara ekki sagðar – og oft hef ég á tilfinningunni að það megi hreinlega engan tíma missa, eins og með Ástu og Elly þá er fólkið sem man sögurnar – sem man sjálfar fyrirmyndirnar - óðum að hverfa úr þessum heimi, og með því fólki hverfa sögurnar að eilífu, nema eitthvað sé að gert.

MCL: Þarna eru komnar mjög góðar ástæður fyrir því að gera þessar sýningar en svo getur líka verið erfitt og hættulegt að gera þetta – af nákvæmlega sömu ástæðu. Af því að fólkið sem um ræðir er ýmist lifandi eða þeirra nánustu lifandi. Það hlýtur að vera líka flókið, eins og með Níu líf, en auðvitað er lykillinn þar að einhverju leyti að
þú myndaðir svo gott samband við Bubba og hann hafði líka auðmýkt til að leyfa þér að segja söguna.

Ólafur: Já. Bubbi treysti leikhúsinu og gaf sig allan í að afhjúpa sögu sína og sál. En auðvitað er þetta jafnvægislist – oft er verið að
fjalla um erfiða hluti, breyskt fólk
í erfiðum kringumstæðum, og þá hefur hver sitt sjónarhorn. Ég reyni að passa mig á því að dæma engan, láta fólk og atburði njóta vafans, en vinkillinn er auðvitað alltaf í gegnum þá persónu sem stendur í miðju verksins. Í Elly til dæmis tók ég fyrst og fremst mið af hennar eigin orðum í þeim fáu viðtölum þar sem hún ræddi sitt einkalíf. Fólk verður svo bara að hafa það í huga að hér er ekki um að ræða neinn alglildan sannleika eða dóm um einn né neinn.

MCL: En það er líka þetta sem heillar okkur, þessar sögur grípa okkur af því þetta eru breyskar manneskjur – en við erum líka að dást að þeim.

Ólafur: Já, svo er það svo fallegt, að oftar en ekki situr fólk í salnum sem þekkti fólkið sem verið er að sýna á sviðinu, persónulega jafnvel – þetta er svo lítið samfélag. Og þess vegna er stundum nóg að rétt tæpa á hlutum – eins og til dæmis í Elly – ég meina samband Ellyjar og Svavars [síðasta eiginmanns hennar] var stormasamt og það þurfti ekkert að fara inn í það og lýsa því öllu í smáatriðum. Það var nóg bara að gefa það til kynna – þau voru ólíkar manneskjur og voru kannski á ólíkum forsendum í sínu sambandi og fólk skilur og skynjar og veit án þess að maður þurfi að fara að leika út einhverjar hörmungar. En þetta er jafnvægislist.

MCL: En greinilega áskorun sem þér finnst áhugaverð.

Ólafur: Algjörlega – það er eftir svo miklu að slægjast. Eins og við minntumst á áðan þá eru þessar sögur einstaklinga hluti fyrir heild og lýsa líka samfélagi okkar og viðhorfum í gegnum tíðina. Eins og til dæmis með Ladda – hans ferill nær eiginlega utan um þróun húmors á Íslandi í rúma hálfa öld. Hann kemur fram í fyrstu skemmtiþáttunum okkar í sjónvarpi, skrifar Kaffibrúsakarlasketsana með Gísla Rúnari á sínum tíma, þegar íslenskur húmor var að fæðast og komast út úr gamanvísum og presta-eftirhermum og Laddi stendur enn á sviðinu í dag með nýjustu kynslóð grínaranna! Og eins og með tónlistina byrjuðum við á að herma eftir því sem var að gerast í útlöndum, Halli og Laddi stældu t.d. ameríska grínistan Spike Jones hægri vinstri og Glámur og Skrámur eru svo ákveðið svona íslenskt Sesame Street og svo byrjar þetta að þróast og karakterarnir fara að spretta meira úr íslenskum samtíma og íslensku nærumhverfi og verða táknmyndir fyrir gildi og áherslur í okkar samfélagi. Þarna er afdalabóndinn, fúli húsvörðurinn, ríkisstarfsmaðurinn sem hvergi
er metinn að verðleikum, þarna er graði presturinn og feimni performerinn og læknirinn sem allt veit og kann og þessir karakterar væru ekki eins og þeir eru nema af því að samfélagið sem þeir spretta úr er eins og það er og Laddi fer að gera það sýnilegt fyrir okkur, með sínu gríni. Og svo allt Spánargrínið sem kemur á þeim tíma þegar Íslendingar eru í fyrsta sinn að fara til sólarlanda með ferðatöskur fullar af grænum baunum og hangikjöti svo þeir svelti ekki, af því fólk borðaði auðvitað engar pitsur og pöstur, einhverntíma heyrði ég af fjölskyldu sem tók málverk af Heimaey með sér til þess að setja upp á vegg á hótelíbúðinni. Og Danagrínið, það eru leifar af því að það átti að gera grín að Dönum af því að við þurftum að losna undan þeim og Grínverjinn jafnvel endurspeglar einhvern veginn heimóttarskapinn og vanþekkingu okkar á hinu framandi. Ég meina – það voru nánast engir Kínverjar hér! Þess vegna voru þeir fyrir okkur bara af annarri plánetu og við gátum gert grín að þeim af því við þekktum engan Kínverja.

MCL: Það eina sem við vissum um þjóðina var að þeir-

Ólafur: borðuðu sterkan mat! Og þeir bjuggu til flugelda. Sú sýn endurspeglar samfélagsgerð!

MCL: Það segir náttúrulega allt um Íslendinga upp úr 1980 og ekkert um kínversku þjóðina!

Ólafur: Ekki nokkurn skapaðan hlut! En þetta er það sem mér finnst áhugavert – það er svo gaman í dag að skoða hvað hefur breyst í gegum tíðina, hvað af þessu gríni má eða má ekki gera í dag. Má kannski bara alltaf gera grín að öllu? Eða erum við komin í gegnum ákveðið skeið, og sumt verðum við bara að setja ofan í kistu og gleyma því?

MCL: Það er mjög spennandi að skoða hvað var fyndið þá og hvað er fyndið núna – líka út frá því hvort það sé eitthvað sem okkur finnst hreinlega ekki fyndið núna af því að samfélagið er orðið öðruvísi.

Ólafur: Einmitt! Og líka –

– í staðinn fyrir að hlæja
að Grínverjanum – getum við hlegið að samfélaginu sem bjó Grínverjann til?

MCL: Og getum við horfst í augu við að við höfum verið svona? Þó við séum vonandi núna komin lengra frá því! Eins mikilvægt og það er
að skoða hvernig þjóðfélagið hefur breyst og hvað er ekki í lagi í dag þá er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvernig hlutirnir voru og reyna ekki að ritskoða það og fela það og segja „Hér voru aldrei neinir fordómar“

Ólafur: Þetta viljum við allt skoða
í – skemmtilegheitum – með Ladda í forgrunni og með þessari frábæru músík hans – því það má ekki gleyma því að Laddi er jafnmikill tónlistarmaður og grínari og hefur samið bæði músík og texta, nokkur af ástsælustu lögum þjóðarinnar.

MCL: Á mínu heimili hefur Jón Spæjó og Út með jólaköttinn verið spilað endalaust!

Ólafur: Hjá mér Súperman, Í Vesturbænum, Roy Rogers! Við ætlum að koma þessum lögum upp á svið og flétta þetta saman: Ladda, gamla Ísland og nýja Ísland – slá þessu upp í veislu, grín, tónleika, revíu og kabarett sýningu!
Og miðjan í þessu öllu, innsti kjarninn, er svo dálítil ráðgáta, sem er prívat-persóna Ladda sjálfs. Hann hefur í gegnum tíðina haldið sér til hlés og hann er þessi rólegi og hlédrægi, nánast feimni maður. Trúðurinn með tárið – maður með hlæjandi grímu en hvað liggur á bakvið þá grímu? Hann skemmtir okkur – en finnst honum sjálfum gaman? En burtséð frá öllum sálgreiningum þá held ég að þetta verði stórskemmtileg sýning – við erum með frábæran efnivið sem spannar hálfa öld af gríni og svo ætlum við að beita öllum meðölum leikhússins, það verða dansnúmer og leynigestir og innhringingar og óvæntar uppákomur og ég veit ekki hvað!

MCL: Eldgleypar og lifandi dýr?

Ólafur: Eldgleypar, lifandi dýr, þjóðdansar, áhættuatriði, eftirhermur, gamanmál og sprell! Og náttúrlega æðisleg hljómsveit og ég held að þótt okkur finnist við öll þekkja Ladda þá verði þetta sýning sem eigi eftir að koma á óvart, sýna okkur nýjar hliðar á Ladda, og vonandi okkur sjálfum líka.

Heim

Listabraut 3

103 Reykjavík

Kt. 420269-6849

Miðasala: 568 8000

midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500

Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is

Miðasalan er opin 12-17 alla virka daga og 12-20 á sýningardögum. 568 8000
jafnlaunavottun 2023-2026

Takk fyrir stuðninginn

Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.

reykjavíkurborg logoorkusalan logoölgerðin logo