Stjórn Leikfélags Reykjavíkur auglýsir eftir umsóknum um stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins. Stefnt er að því að viðkomandi hefji störf við undirbúning leikársins 2025–2026 þegar í vor og taki formlega við stjórn leikhússins fyrir lok núverandi leikárs.
Starf leikhússtjóra Borgarleikhússins verður auglýst til umsóknar 15. febrúar n.k. með umsóknarfresti til og með 2. mars 2025.
Brynhildur Guðjónsdóttir snýr sér aftur að listinni.
Brynhildur Guðjónsdóttir hefur sagt starfi sínu sem leikhússtjóri Borgarleikhússins lausu frá og með 31. mars næstkomandi. Þær hugmyndir viðraði hún við stjórn í nóvember en endanleg ákvörðun hennar lá fyrir í byrjun árs og var kynnt starfsfólki fyrr í dag.
Brynhildur tók við stöðu leikhússtjóra fyrir nákvæmlega fimm árum, þann 14. febrúar 2020, og hefur frá þeim tíma veitt Borgarleikhúsinu styrka forystu, leitt það í gegnum heimsfaraldur og skilar af sér góðu búi jafnt listrænt- sem rekstrarlega.
Listin kallar
Eftir farsæl ár sem listrænn stjórnandi hefur Brynhildur ákveðið að fylgja hjartanu og takast á við nýjar áskoranir sem listamaður. Líkt og greint var frá fyrr í vetur hefur Borgarleikhúsið tryggt sér sýningarrétt á Moulin Rouge! söngleiknum eftir nokkurra ára samningaviðræður.
“Ég hef fundið það um nokkurt skeið að listin var farin að kalla og úr varð að ég mun leikstýra þeirri sýningu. Þetta er risavaxið verkefni, stórviðburður í íslensku leikhúslífi og stærsta verkefni sem ég hef tekist á hendur sem leikstjóri. Að vandlega íhuguðu máli hef ég ákveðið að helga mig listinni að fullu á ný og segja starfi mínu sem leikhússtjóri lausu,” segir Brynhildur Guðjónsdóttir fráfarandi leikhússtjóri Borgarleikhússins og bætir við; “í Borgarleikhúsinu starfar einstakur og öflugur hópur sem ég þakka af auðmýkt fyrir að hafa fengið að leiða undanfarin ár og hlakka til að starfa áfram með á vettvangi listarinnar.”
Þökkuð vel unnin störf
Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður Leikfélags Reykjavíkur, þakkar Brynhildi einstaklega vel unnin störf og segir að það hafi verið stórkostlegt að vinna með henni sem leikhússtjóra þar sem forystuhæfileikar hennar og framsýni hafi haft mikil og jákvæð áhrif á starfsemi hússins. „Borgarleikhúsið er öflugt og framsækið leikhús sem hefur gengið afar vel undir forystu Brynhildar Guðjónsdóttur. Hún tók við stöðu leikhússtjóra í febrúar 2020, þremur vikum áður en skellt var í lás vegna heimsfaraldurs. Þrátt fyrir þær áskoranir hefur rekstur leikhússins og listrænt starf gengið fádæma vel. Brynhildur hóf seinna ráðningartímabil sitt í ágúst 2023 en hefur nú kosið að snúa til baka í listina. Stjórn LR auglýsir því eftir nýjum leikhússtjóra og er þess fullviss að reynslumikið hæfileikafólk muni sækja um.”
Frekari upplýsingar veitir Eggert Benedikt Guðmundsson í gegnum netfangið stjorn@borgarleikhus.is