Leikhússtjóri heyrir undir stjórn LR og starfar í umboði hennar til fjögurra ára í senn. Leikhússtjóri hefur yfirumsjón með öllum leikhúsrekstri í Borgarleikhúsinu og ber listræna ábyrgð á starfseminni og rekstrarlega ábyrgð gagnvart stjórn LR.
Brynhildur útskrifaðist með BA Hons gráðu í leiklist frá Guildhall School of Music and Drama í London árið 1998, en áður hafði hún lokið BA gráðu í frönsku frá HÍ. Hún nam að auki leikritun við Yale School of Drama í Bandaríkjunum veturinn 2011-2012. Brynhildur er leikari, leikskáld og leikstjóri en áður en hún var ráðin í stöðu leikhússtjóra hafði hún starfað um árabil í Borgarleikhúsinu sem leikari og leikstjóri og leikstýrt m.a Ríkharði III og Vanja frænda.
„Stjórn Leikfélagsins telur það mikil gleðitíðindi fyrir Borgarleikhúsið að Brynhildur standi hér í stafni næstu fjögur ár. Hún hefur staðið sig fádæma vel í þessu starfi undanfarin ár við krefjandi aðstæður“ segir Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður Leikfélags Reykjavíkur, og bætir við: „Til viðbótar við sína listrænu forystu hefur hún sýnt afburða stjórnunarhæfileika og siglt leikhúsinu í gegnum fjölbreytt öldurót."
„Ég þakka stjórn LR innilega sýndan heiður og traust. Borgarleikhúsið er kröftug og lifandi menningarstofnun þar sem samheldinn og framúrskarandi hópur fólks vinnur að því að skapa góða list, gleðja og næra. Starf leikhússtjórans er vissulega krefjandi en um leið gefandi og stundum jafnvel töfrandi. Það eru sannarlega forréttindi að fá að starfa við það sem maður hefur kosið að helga líf sitt. Ég horfi björtum augum til framtíðar og hlakka til að þjóna leikhúsinu okkar og listinni áfram af metnaði og gleði.“