Líkt og undanfarin ár stóð Leikfélag Reykjavíkur fyrir hádegisfundi þar sem fjallað er um leiklist og starf Leikfélagsins í sögu og samtíð. Hádegisfundurinn var að þessu sinni tileinkaður sýningunni Niflungahringurinn - allur, sem frumsýndur verður á Nýja sviði Borgarleikhússins þann 24. október næstkomandi. Í sýningunni tekst Hundur í óskilum á við það risastóra verkefni að færa Íslendingum í fyrsta sinn allan Niflungahring Richards Wagners - eins og hann leggur sig!
Þau Hjörleifur Hjartarson, höfundur og leikari, og Ágústa Skúladóttir, leikstjóri, sögðu frá vinnu sinni við verkið og hvernig það gengur hjá leikhópnum að draga saman stórvirki listasögunnar - sem upphaflega var 15 klukkutíma ópera - í tveggja tíma hláturskast. Á endanum steig leikhópurinn á stokk og spiluðu vel valin lög úr sýningunni.
Hádegisfundir er öllum opinn og boðið er upp á léttan hádegisverð gegn vægu gjaldi.