Í vikunni lauk Hinsegin leiklistarsmiðju í Borgarleikhúsinu, samstarfsverkefni Leiklistarskóla Borgarleikhússins, Hinsegin félagsmiðstöðvar Tjarnarinnar, Samtakanna 78 og Vinnuskóla Reykjavíkur. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.
Þrjá daga í viku yfir þriggja vikna tímabil unnu fimmtán unglingar að frumsaminni sýningu í gegnum leiklistaræfingar, spuna og handritsgerð. Smiðjan endaði með frumsýningu á verkinu Hinsegin lífið, á Litla sviði Borgarleikhússins.
Markmið Hinsegin leiklistarsmiðjunnar var að valdefla unglingana sem tóku þátt, með leiklist, sjálfstæðri vinnu og samvinnu, að skapa öruggt rými fyrir tjáningu og efla sjálfstraust og tengslamyndun. Og að undirstrika mikilvægi þess að hinsegin unglingar fái vettvang til að tjá sig, skapa, vera sýnileg og að þeirra raddir fái að óma á sviðum leikhússins.
Eva Halldóra Guðmundsdóttir, yfirkennari Leiklistarskóla Borgarleikhússins, leikstýrði sýningunni og vann handritið með hópnum. Hrefna Þórarinsdóttir forstöðukona Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar og Vigfús Karl Steinsson starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar unnu með hópnum í æfingum sem stuðluðu að sjálfseflingu, hópefli og markmiðasetningu. Viktor Luca Forte starfsmaður Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar aðstoðaði hópinn við uppsetningu leikverksins á lokasprettinum.
Leikhópurinn skapaði handrit, mótuðu persónur, einræður og samtöl, sömdu lagatexta, lærðu dansa og hönnuðu búninga, ljós og hljóð. Í verkinu Hinsegin lífið er sögusviðið bærinn Hýrholt - þar sem samfélagið virðist lúta ströngum reglum um hvernig þú átt og mátt vera. En undir yfirborðinu kraumar þráin eftir frelsi og viðurkenningu. Unglingar í 9. og 10. bekk kljást við væntingar samfélagsins og leitina að sjálfum sér. Smám saman komast þau að því að leiðin að frelsi felst í viðurkenningu á sjálfu sér, finna samkennd og samstöðu.