Síðustu helgi stóð Listaháskóli Íslands, í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, ÖBÍ réttindasamtök, Þroskahjálp og Borgarleikhúsið, fyrir málþingi undir yfirskriftinni „Jafnt aðgengi fatlaðs fólks að listnámi“. Málþingið var haldið í Borgarleikhúsinu og mættu um 60 einstaklingar til að hlusta og taka þátt í umræðum um mikilvægi aðgengis í listnámi.
Málþingið var hluti af samstarfsverkefninu Inngildandi nám á háskólastigi, sem styrkt er af menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu. Dagskráin var fjölbreytt og tók á lykilatriðum eins og hindrunum og tækifærum innan listnáms, réttindabaráttu og mátt listarinnar, sveigjanlegu námi og ráðleggingum til LHÍ um næstu skref.
Þátttakendur voru meðal annars fatlað fólk með reynslu af menntakerfinu, listafólk – bæði fatlað og ófatlað – og starfsfólk LHÍ.
Stjórnendur málþingsins voru Hekla Björk Hólmgeirsdóttir, ráðgjafi í menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu og aðjúnkt við HÍ, og Þóra Einarsdóttir, aðstoðarrektor náms og kennslu hjá LHÍ.
Dagskráin innihélt opnun, ávörp, sófaspjall, ljóðalestur, umræðu um artivisma og mátt listarinnar, og samantekt um næstu skref. Málþinginu lauk með eftirminnilegu myndbandi og lokaorðum frá Átak.
Málþingið var vel heppnað og skapaði vettvang fyrir mikilvægar og áhrifaríkar umræður um það hvernig tryggja megi að listnám sé raunverulega aðgengilegt öllum.
Skilaboð þátttakenda voru skýr: Viðhorf þurfa að breytast og gera þarf ráð fyrir, og fagna, fjölbreytileika í námi. Listnám á háskólastigi á að vera fyrir öll.
Ljósmyndari: Eygló Gísladóttir