Nýr leik­hús­stjóri ráð­inn til Borg­ar­leik­húss­ins

14. mars 2025

Egill Heiðar er í hópi fremstu leikhúslistamanna á Íslandi um þessar mundir og býr að víðtækri reynslu úr sviðslistum á innlendum sem erlendum vettvangi. Hann hefur 25 ára reynslu sem leikstjóri, hefur leikstýrt yfir 100 sýningum og starfað á öllum Norðurlöndunum, í Þýskalandi og Ástralíu.

Egill Heiðar hefur sett upp og skrifað verk fyrir Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn, Borgarleikhúsið í Stokkhólmi, í Uppsölum og Gautaborg, Schaubühne leikhúsið í Berlín og National Teater Mannheim, svo nokkur dæmi séu nefnd. Jafnframt setti hann upp sýningarnar Hver er hræddur við Virginiu Woolf og Himnaríki og helvíti í Borgarleikhúsinu sem báðar unnu til Grímuverðlauna.

Egill útskrifaðist með gráðu í leiklist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1999 og lauk námi í leikstjórn frá Danska Leiklistarháskólanum árið 2002. Hann hefur starfað sem prófessor og deildarforseti við Leiklistarháskólann Ernst Busch í Berlín, verið fastur kennari við Danska leiklistarháskólann sem og Listaháskóla Íslands þar sem hann var jafnframt fagstjóri leikaranáms. Frá árinu 2020 hefur hann starfað sem leikhússtjóri Hålogaland leikhússins í Tromsø í Noregi.

„Það er mér mikill heiður að taka við svo mikilvægu starfi. Ég þakka traustið sem mér er sýnt.“ Segir Egill Heiðar tilvonandi leikhússtjóri Borgarleikhússins. „Það er ofboðslega mikill heiður að snúa heim eftir næstum 25 ár erlendis og fá möguleikann á að leiða eins frábært leikhús og Borgarleikhúsið er. Borgarleikhúsið undir stjórn Brynhildar Guðjónsdóttur hefur sýnt fram á að það er hægt að skapa list fyrir breiðan hóp áhorfenda. Hún hefur haldið fallega utan um starfsfólk hússins og leitt leikhúsið í gegnum heimsfaraldur. Ég tek auðmjúkur við keflinu og hlakka til að leiða elsta leikhús landsins inn í bjarta framtíð. Borgarleikhúsið, með því frábæra fólki sem þar vinnur í öllum deildum, hefur sýnt fram á að bókstaflega allt er hægt í leikhúsinu. Það er þessi hópur af baráttufólki sem ég hlakka til að vinna með. Borgarleikhúsið er leikhús allra og skal halda áfram að vera það. Fullur eftirvæntingar hlakka ég til að taka við keflinu af Brynhildi og vona svo innilega að við munum sjá sem flesta í leikhúsinu okkar allra.“

Stjórn Leikfélags Reykjavíkur fagnar ráðningu Egils Heiðars og býður hann velkominn til forystu í Borgarleikhúsinu. „Það mikið happ fyrir Borgarleikhúsið að fá Egil til starfa,“ segir Eggert Benedikt Guðmundsson, stjórnarformaður LR, og bætir við „fjölþjóðleg reynsla hans sem listamaður, kennari og stjórnandi mun reynast dýrmæt og hjálpa okkur að halda áfram að þroskast og dafna. Egill tekur við góðu búi af Brynhildi og á sama tíma og við þökkum henni fyrir afskaplega vel unnin störf undanfarin fimm ár hlökkum við til áframhaldandi samstarfs við hana sem leikstjóra.“

Heim

Listabraut 3

103 Reykjavík

Kt. 420269-6849

Miðasala: 568 8000

midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500

Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is

Miðasalan er opin 12-17 alla virka daga og 12-20 á sýningardögum. 568 8000
jafnlaunavottun 2023-2026

Takk fyrir stuðninginn

Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.

reykjavíkurborg logo
orkusalan logoölgerðin logo