Í vikunni skrifaði leikstjórinn og tónlistarmaðurinn Egill Andrason undir samning við Borgarleikhúsið þess efnis að hann muni þróa nýtt verk fyrir unglinga. Hugmyndin að baki verkinu er að leikritið verði unnið fyrir unglinga – með unglingum – og að inntak verksins komi frá þeim. Egill er kornungur leikstjóri og sviðshöfundur sem m.a. hefur vakið athygli fyrir sýninguna Vitfús Blú og vélmennin.
Egill mun halda vinnusmiðju í fimm félagsmiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu þar sem safnað verður hugmyndum fyrir nýja verkið. Eftir vinnusmiðjurnar munu ungmenni úr Leiklistarskóla Borgarleikhússins og Ungmennaráði Borgarleikhússins vinna verkið áfram með Agli. Vinnuaðferðin er hluti af þeirri vegferð Borgarleikhússins að bjóða börnum og unglingum að borðinu þegar kemur að sýningum fyrir þau og um þau. Sýningin verður sýnd á Stóra sviðinu á næsta leikári og verður öllum nemendum í 10. bekk í Reykjavíkurborg boðið á sýninguna.