Lengi vel átti Sigríður Eyþórsdóttir veg og vanda af sýningum hópsins en eftir að hún féll frá hefur dóttir hennar, Bergljót Arnalds, haldið kyndlinum á lofti og ásamt leikhópnum haldið áfram að vinna að hverri sýningunni á fætur annarri. Fjölmargir af dáðustu listamönnum þjóðarinnar hafa einnig lagt leikhópnum lið og komið að sýningum hans. Perlan hefur lengst af haft aðsetur í Borgarleikhúsinu og það er því við hæfi að hátíðarsýning þeirra sé haldin hér á Stóra sviðinu þar sem stjarna þeirra hefur svo oft skinið skært.
Leikhópurinn hefur gegnum árin vakið verðskuldaða athygli fyrir einlæga leiktúlkun og leikgleði sem engin stenst og þá hefur boðskapurinn einatt verið kærleikur, skilningur og virðing fyrir öllum manneskjum. Þessi boðskapur á svo sannarlega ekki síður við í dag en fyrir fjörutíu árum þegar meðlimir Perlunnar stigu sín fyrstu skref á sviði og óskar Borgarleikhúsið hópnum og velunnurum hans innilega til hamingju með daginn, þau eru svo sannarlega perla í íslensku listalífi.