Borgarleikhúsið

Aðalfundur Leikfélags Reykjavíkur haldinn og tveir nýir heiðursfélagar útnefndir

31 okt. 2023

Aðalfundur Leikfélags Reykjavíkur var haldinn mánudaginn 30. október síðastliðinn, á Nýja sviði Borgarleikhússins. Leikfélag Reykjavíkur annast rekstur Borgarleikhússins í samræmi við samning þess við Reykjavíkurborg og félagsmenn í Leikfélaginu mynda mikilvægan bakhjarl við starfsemi leikhússins. Síðasta leikár gekk gríðarlega vel og var aðsóknin í leikhúsið góð.

“Það er gaman þegar vel gengur. Eftir þriggja ára harða siglingu í gegnum heimsfaraldur þar sem við þurftum að kljást við samkomutakmarkanir og lokanir er ánægjulegt að geta sagt frá því að Borgarleikhúsið siglir sannarlega hraðbyri um þessar mundir. Aðsókn í leikhúsið var fádæma góð á síðasta leikári en leiknar voru 450 sýningar á sviðunum okkar og gestafjöldi 160.000.” segir Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri. “Borgarleikhúsið er sannarlega leikhús allra landmanna, hingað eru öll velkomin og um leið og ég þakka samstarfsfólki fyrir vel unnin störf óska ég okkur öllum til hamingju með frábæran árangur.”

Tveir nýir heiðursfélagar

Á aðalfundinum voru þau Páll Baldvin Baldvinsson og Þórhildur Þorleifsdóttir útnefnd heiðursfélagar Leikfélags Reykjavíkur og voru þau bæði viðstödd til að taka við viðurkenningarskjali.

Páll Baldvin Baldvinsson hefur komið víða við á menningarvettvangnum, verið leiklistar- og bókmenntagagnrýnandi á fjölda miðla, starfað sem ritstjóri og þýðandi og nú síðustu ár hefur hann sent frá sér stórvirki um stríðsárin og síldarárin. Páll Baldvin stofnaði ásamt fleirum Hitt leikhúsið á níunda áratugnum, sem sló nýjan tón í íslensku sviðlistaumhverfi með uppsetningum á Litlu hryllingsbúðinni og Rauðhóla-Ransí, en hann leikstýrði báðum sýningunum, auk þess að leikstýra sýningunum hjá Leikfélagi Reykjavíkur.

Páll Baldvin hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum á sviði leiklistar, m.a. verið formaður Félags leikstjóra á Íslandi. Páll Baldvin var listrænn ráðunautur Leikfélags Reykjavíkur 1991-1995, formaður stjórnar 1996-2001 og hefur um árabil verið ötull stuðningsmaður Leikfélagsins.

Þórhildur Þorleifsdóttir hefur leikstýrt fjölda sýninga hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar, Íslensku óperunni og sjálfstæðum leikhópum. Þórhildur var einn stofnenda Leiksmiðjunnar og síðar Alþýðuleikhússins, en báðir hópar höfðu mikil áhrif og mörkuðu djúp spor í leiklistarsöguna. Þórhildur var um tíma formaður Félags leikstjóra og sat í stjórn Bandalags íslenskra listamanna.

Þórhildur hefur einnig látið til sín taka í stjórnmálum; hún var meðal stofnenda Kvennaframboðsins 1982 og sat á þingi fyrir Kvennalistann 1987-1991 auk þess sem hún átti sæti í Stjórnlagaráði 2011. Þórhildur var leikhússtjóri Borgarleikhússins 1996-2000 og hefur hlotið bæði heiðursverðlaun Grímunnar og Riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín í þágu menningar og leiklistar.

Borgarleikhúsið óskar Páli Baldvini og Þórhildi til hamingju með nafnbótina.