Borgarleikhúsið

Árni Tryggvason látinn

14 apr. 2023

Árni Tryggvason, einn ástsælasti leikari og skemmtikraftur þjóðarinnar, er látinn, 99 ára að aldri. Árni fæddist á bænum Syðri-Vík í Árskógsstrandarhreppi þann 19. janúar 1924, en ólst upp frá þriggja ára aldri í Hrísey. 


Árni gekk í Alþýðuskólann á Laugum, þar sem hann tók þátt í að semja og leika í revíum, áður en hann fékk inni í leiklistarskóla Lárusar Pálssonar. Stærstan hluta síns leikaraferils var Árni fastráðinn við Þjóðleikhúsið, en feril sinn hóf hann hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1947 og lék tæplega 40 hlutverk í Iðnó fram til 1961. Meðal minnistæðustu hlutverka Árna hjá Leikfélagi Reykjavíkur má nefna Assessor Svale í Ævintýri á gönguför (1952), Fancourt Babberley í Frænku Charleys (1954), leigubílstjórann Gunnar Hámundarson í Deleríum búbónis (1959) og síðast en ekki síst Estragon í Beðið eftir Godot (1960). Árni sneri aftur til Leikfélags Reykjavíkur um síðustu aldamót og lék séra Jón Prímus í Kristnihaldi undir Jökli (2001) og Þránd í Fló á skinni (2008). Að loknum 60 ára farsælum leikferli var Árni sæmdur heiðursverðlaunum Grímunnar árið 2010.

Starfsfólk Borgarleikhússins sendir aðstandendum dýpstu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning þessa merka listamanns.