Borgarleikhúsið

Forsala hafin á nýja söngleikinn!

9 nóv. 2023

Söngleikurinn Eitruð lítil pilla byggir á tónlist af plötu Alanis Morissette, Jagged Little Pill, einni áhrifamestu plötu tíunda áratugarins og einni söluhæstu hljómplötu allra tíma.

Tónlist Alanis einkennist af óbeisluðum krafti og hráum og hnitmiðuðum textum. Lög á borð við „You Oughta Know“, „You Learn“ og „Ironic“ eru ótvírætt meðal helstu einkennislaga tíunda áratugarins.

Söngleikurinn Jagged Little Pill var fyrst settur upp í American Repertory Theater árið 2018 og sló svo í gegn á Broadway tveimur árum síðar. Síðan þá hefur Jagged Little Pill ferðast um Bandaríkin, Kanada og Ástralíu og unnið til fjölda verðlauna, þ.á.m. Tony verðlauna fyrir besta handrit og Grammy verðlauna sem besta söngleikjaplatan. 

Álfrún Helga Örnólfsdóttir leikstýrir. Jóhanna Vigdís Arnardóttir fer með hlutverk Mary Jane, húsmóður á miðjum aldri sem býr í úthverfi með fjölskyldunni sinni. Á yfirborðinu er allt í himnalagi. Eiginmaður hennar, Steve, sem leikinn er af Vali Frey Einarssyni er í góðu starfi og sonur þeirra Nick, leikinn af Sigurði Ingvarssyni, var að komast inn í Harvard. Aldís Amah Hamilton fer með hlutverk Frankie, sem er að reyna að fóta sig sem ættleidda tvíkynhneigða dóttir úthverfadrottningarinnar. 

Smátt og smátt er þó farið að kvarnast upp úr fallegu fjölskyldumyndinni sem Mary Jane sendir með jólakortinu á hverju ári. Hún hefur ánetjast ópíóðalyfjum og áður en yfir lýkur þarf öll fjölskyldan að horfast í augu við óþægilegar staðreyndir - óþægilegar staðreyndir sem eru kannski grundvöllur lífsins þegar betur er að gáð. Með önnur hlutverk fara Íris Tanja Flygenring, Elín Sif Hall og Haraldur Ari Stefánsson ásamt fleirum. Íslensk þýðing verksins er í höndum Matthíasar Tryggva Haraldssonar og Ingólfs Eiríkssonar.