Glerdreki Leifs Breiðfjörð í Borgarleikhúsinu á ný
Glerlistaverkið Glerdrekinn eða „Blái drekinn“ eftir Leif Breiðfjörð er komið heim. Verkið, sem verið hefur í safneign Listasafns Reykjavíkur frá árinu 1985 var upphaflega pantað fyrir Kjarvalsstaði en fékk heimili í Borgarleikhúsinu eftir vígslu leikhússins.
Leifur Breiðfjörð er án nokkurs vafa merkasti glerlistamaður þjóðarinnar. Hann nam við Myndlista- og handíðaskóla Ísland 1962-66 og í kjölfarið við Edinburgh College of Art í Skotlandi. Leifur heillaðist snemma af glerlist og verk hans prýða fjölda bygginga, m.a. Grafarvogskirkju, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, St. Giles dómkirkjuna í Edinburgh og Hallgrímskirkju, en bæði mikilfenglegar dyr og steindir gluggar á framhlið kirkjunnar eru verk Leifs.
Glerdreki Leifs er stórt glerlistaverk sem minnir á flugdreka og sómir sér einstaklega vel þar sem hæst er til lofts í forsal Borgarleikhússins. Drekinn var í geymslu um tíma en hefur nú verið yfirfarinn og verður gestum og gangandi til ánægju í leikhúsinu.