Borgarleikhúsið

Leikhúskaffi í janúar

2 jan. 2024

Borgarbókasafnið Kringlunni og Borgarleikhúsið hafa boðið upp á leikhúskaffi í nokkur ár þar sem leiksýningar eru kynntar fyrir áhugasömum stuttu fyrir frumsýningu.


Leikhúskaffi | Vaðlaheiðargöng - 23. janúar kl. 17:30

Karl Ágúst Þorbergsson, leikstjóri segir gestum frá uppsetningu Borgarleikhússins, í samstarfi við leikhópinn Verkfræðing, á verkinu Vaðlaheiðargöng. Leikhúskaffið fer fram í Borgarbókasafninu Kringlunni, þriðjudaginn 23. janúar kl. 17:30.Í kjölfarið verður farið yfir í Borgarleikhúsið og þar fá gestir stutta kynningu á leikmynd og annarri umgjörð sýningarinnar. Í lokin býðst gestum 10% afsláttur af miðum á sýninguna.

Verkið Vaðlaheiðargöng er unnið í samsköpun undir listrænni stjórn Karls Ágústs Þorbergssonar. Verkið endurspeglar þá ljóðrænu fegurð sem birtist í framkvæmdasögu Vaðlaheiðarganga, sambandi mannlegs hversdagsleika og náttúru og yfirvofandi endalokum alls í kjölfar hamfarahlýnunar. Vaðlaheiðargöng verður frumsýnt þann 2. febrúar.

Frekari upplýsingar um viðburðinn hér.

Leikhúskaffi | Eitruð lítil pilla - 30. janúar kl. 17:30

Í febrúar næstkomandi verður söngleikurinn Eitruð lítil pilla (Jagged Little Pill) frumsýndur á stóra sviði Borgarleikhússins. Söngleikurinn byggir á tónlist af samnefndri plötu Alanis Morissette, einni áhrifamestu plötu tíunda áratugarins og einni söluhæstu hljómplötu allra tíma.

Leikhúskaffið hefst á Borgarbókasafninu Kringlunni þar sem Álfrún Helga Örnólfsdóttir leikstjóri segir gestum stuttlega frá sýningunni. Í kjölfarið verður farið samferða yfir á stóra svið Borgarleikhússins þar sem leikmyndin verður skoðuð og boðið upp á umræður og spurningar fyrir áhugasama.Aðgangur er ókeypis og gestum leikhúskaffis býðst 10% afsláttur af miðaverði á sýninguna.

Frekari upplýsingar um viðburðinn hér.