Ný leikskáld Borgarleikhússins
Kolbrún Björt Sigfúsdóttir og Ragnar Ísleifur Bragason hafa verið valin leikskáld Leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur 2024-2026. Tilkynnt var um valið við athöfn í Borgarleikhúsinu í gær, 11. janúar, á afmælisdegi leikfélagsins, en það var stofnað árið 1897 og fagnar því 127 árum.
Kolbrún Björt og Ragnar Ísleifur voru valin úr hópi 17 umsækjenda og taka við af Birni Jóni Sigurðssyni, en verk hans verður hluti af verkefnaskrá Borgarleikhússins á næsta leikári. Leikskáldin hefja störf við upphaf næsta leikárs og munu þau starfa innan veggja hússins, undir verndarvæng Leikritunarsjóðsins.
Leikskáld Borgarleikhússins fá aðstöðu í leikhúsinu, vinna þar á samningstímanum og eru hluti af starfsliði Borgarleikhússins. Kappkostað er að veita leikskáldinu aðgang að allri starfsemi Borgarleikhússins og að það njóti aðstoðar, leiðsagnar og stuðnings leikhússtjóra, leiklistarráðunauta og annars starfsfólks leikhússins. Auk þess á skáldið kost á samræðum við leikara, leikstjóra og leikmyndahöfunda og að sitja æfingar á verkefnum Borgarleikhússins.
Kolbrún Björt Sigfúsdóttir lauk BA-prófi frá Listaháskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í Shakespeare leikstjórn við Háskólann í Exeter. Kolbrún hefur starfað á Bretlandseyjum frá 2013, bæði með eigin leikhóp – Brite Theater – og innanhúss við Traverse leikhúsið í Edinborg og Tron leikhúsið í Glasgow. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín, núna síðast tilnefningu til skosku gagnrýnendaverðlaunanna sem leikstjóri ársins 2022. Hún átti vinningsverk í leikritunarsamkeppni Royal Shakespeare Company, 37 Plays.
Ragnar Ísleifur Bragason hefur lokið námið frá sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands og hefur tekið þátt í starfi fjölda leikhópa á Íslandi í rúman áratug. Þar má þar helst nefna 16 elskendur og Kriðpleir, en Ragnar er einn höfunda og flytjenda beggja hópa. Meðal verka Kriðpleirs má nefna útvarpsleikritin Bónusferðin (2018), Litlu jólin (2019), Vorar skuldir (2021) og Sjálfsalinn (2023), sem tilnefnt var til Evrópsku útvarpsverkaverðlaunanna, Prix Europa.
Markmið Leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur er að efla nýsköpun og fjölbreytni í íslenskri leikritun, auka vægi leikritunar í samfélaginu og stuðla að því að hún njóti virðingar í samfélagi lista.
Formaður stjórnar Leikritunarsjóðsins er frú Vigdís Finnbogadóttir, heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur, Brynjólfur Bjarnason og leikhússtjóri, Brynhildur Guðjónsdóttir. Leiklistarráðunautar hússins eru stjórn sjóðsins til ráðgjafar.
Starfsfólk Borgarleikhússins óskar nýju skáldunum til hamingju og hlakkar til samstarfsins!