Borgarleikhúsið

Óskaland með Moses Hightower komið í spilun!

21 jún. 2024

Moses Hightower hefur gefið út nýtt lag í samstarfi við Borgarleikhúsið. Það ber titilinn Óskaland og er innblásið af samnefndu gamanleikriti Bess Wohl sem verður frumsýnt á stóra sviðinu í október, í leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar og þýðingu og staðfæringu Ingunnar Snædal.

Í verkinu búa Villi og Nanna í Óskalandi, búsetukjarna fyrir fólk á eftirlaunaaldri. Þau eru búin að vera saman í 50 ár. Nú ætla þau að skilja og það er eitthvað sem uppkomnir synirnir og tengdadóttirin harðneita að skilja! Með hlutverk Villa og Nönnu fara stórleikararnir Eggert Þorleifsson og Sigrún Edda Björnsdóttir.

Texti hins nýútgefna lags er eftir hljómsveitarmeðlimina og söngvarana Steingrím Karl Teague og Andra Ólafsson, en lagið sömdu þeir með Magnúsi Tryggvasyni Eliassen, trommara sveitarinnar. Á gítar leikur með þeim Rögnvaldur Borgþórsson, en Friðfinnur Sigurðsson hljóðblandaði og hljómjafnaði lagið, sem hljómsveitin tók upp sjálf.

Óskaland

Höldum því til haga hversu heitt ég ann
– þótt tímaglasið skorta fari sand –
vörunum sem heitar ég við vangann fann
vísa mér í óskaland.

Sjá hana og hann
sem fundu saman óskaland
Já, sjáðu hana og hann
sem fundu saman óskaland.
Hún og hann
fundu saman óskaland.

Dapurt er hve daglegt streð
er draumasvelt
en kannski vinn ég lífið á mitt band,
fæ stöðugjald af stöðnu hjarta niðurfellt
og sting svo af í óskaland.

Mikilsháttar ævintýri makalaus?
Mætti bjóða þér að snúa öllu á haus?