Borgarleikhúsið

Síðustu dagar Sæunnar leikrit ársins

15 jún. 2023

Á nýafstaðinni Grímuverðlaunahátíð bar Matthías Tryggvi Haraldsson sigur úr býtum í flokknum „Leikrit ársins“. Verðlaunin hlaut Matthías fyrir leikrit sitt Síðustu dagar Sæunnar sem sýnt var á Litla sviði Borgarleikhússins fyrr á þessu leikári. 


Guðrún Gísladóttir og Jóhann Sigurðarson fóru með aðalhlutverk, en þau hlutu bæði tilnefningar til Grímunnar fyrir hlutverk sín. Í ræðu sinni þakkaði Matthías sérstaklega Leikritunarsjóði Leikfélags Reykjavíkur sem hann sagði gríðarlega mikilvægan fyrir þau sem fást við að skrifa leikrit, en Matthías var til skamms tíma leikskáld Borgarleikhússins fyrir tilstilli Leikritunarsjóðsins. Markmið sjóðsins er að efla nýsköpun og fjölbreytni í íslenskri leikritun, auka vægi leikritunar í samfélaginu og stuðla að því að hún njóti virðingar í samfélagi lista og það er sannarlega gleðilegt að á nýliðnu leikári voru tvö verk á efniskrá Borgarleikhússins sem eru afsprengi Leikritunarsjóðs – Síðustu dagar Sæunnar og upplifunarverkið Góða ferð inn í gömul sár eftir Evu Rún Snorradóttur. Núverandi leikskáld Borgarleikhússins er Birnir Jón Sigurðsson, en auglýst verður eftir nýju leikskáldi í haust.

Við óskum Matthíasi Tryggva innilega til hamingju með þennan verðskuldaða heiður.