Borgarleikhúsið

Til hamingju með dag íslenskrar tungu

16 nóv. 2022

Á degi íslenskrar tungu er við hæfi að fagna tungumálinu í öllum sínum birtingarmyndum. Í leikhúsinu fögnum við fjórum nýjum íslenskum leikverkum sem frumsýnd eru á árinu.


Á eigin vegum sem byggir á skáldsögu Kristínar Steinsdóttur, Síðustu dagar Sæunnar eftir Matthías Tryggva Haraldsson, Góða ferð inn í gömul sár eftir Evu Rún Snorradóttur og Hvíta tígrisdýrið eftir Bryndísi Ósk Þ. Ingvarsdóttur en í öllum þessum ólíku verkum má finna slátt og kynngimagn tungumálsins.

Tungumálið þroskast líka í þýðingum – hvort heldur sem er á brakandi nýjum verkum eins og Mátulegum eftir Thomas Vinterberg og Claus Flygere sem Þórdís Gísladóttir þýðir eða Macbeth, fjögurhundruð ára gamalli klassík eftir William Shakeaspeare, í þýðingu Kristjáns Þórðs Hrafnssonar.

Tungumálið þróast og styrkist í meðförum þeirra sem hafa gert það að atvinnu sinni en ekki síður hjá þeim sem eru að læra að nota það - fólki sem flytur hingað erlendis frá og stækkar með sinni reynslu og menningu íslenskuna og samfélagið allt - og svo auðvitað börnunum. Kannski er það einmitt þar sem hjarta tungumálsins slær hvað heitast - á vörum þeirra sem eru að prófa sig áfram og gera tungumálið að sínu. 

Í dag er frumsýningardagur Krakkar skrifa þar sem börnin sem munu erfa tungumálið taka það í eigin hendur og segja okkur sögur, ótrúlegar, skrítnar og skemmtilegar sögur. Móðurmálið er forsenda þess að við getum orðað hugsanir okkar og tilfinningar, skilgreint okkur sjálf og um leið tengst öðrum og þess vegna er tungumálið ein af grunnstoðum tilveru okkar. 

Til hamingju með daginn öll.