Jæja hvað ætlarðu svo að verða?
Ekki hugmynd.
Hvað skuldarðu mikið í skatt?
Ekki hugmynd.
Hvað á leikritið að heita?
Ekki hugmynd.
Það er skelfileg stund í lífi hvers manns þegar tilveran hættir að vera hellað djamm og hótel mamma og verður virðisauki, viðbótarlífeyrissparnaður og almennur viðbjóður.
Snögglega breytist lífið í eitt stórt skyndipróf:
Heimsreisa eða háskólapróf?
Smokkur eða snudda?
Lán eða lífsvilji?
Ekki hugmynd er bráðfyndið gamanleikrit þar sem mannabörnin Arnór, Óli og Vigdís eru öll týnd á tímamótum og hafa ekki hugmynd um hvað þau eiga að gera. En með gríni, mis-heimspekilegum kenningum, söng og öllum tiltækum leikhústrixum ætla þau að finna út úr þessu og færa íslensku þjóðinni svar við ráðgátum lífsins!
Og hvert er svarið?
Eeeeeekki huuuuuuugmynd.
Ps. allir gestir fá að sjálfsögðu þátttökuverðlaun fyrir að mæta.
Gaflaraleikhúsið er þekkt fyrir stórskemmtilegar sýningar unnar lóðbeint upp úr íslenskum veruleika sem allir frá fermingu og fram á grafarbakkann geta haft gaman af. Þau settu síðast upp gamanleikinn gleðilega Tóma hamingju sem sýndur var fyrir troðfullu húsi allan síðasta vetur og uppskar að auki tvær tilnefningar til Grímunnar. Þau eru nú mætt aftur í Borgarleikhúsið með glænýtt grín til að gleðja okkur öll.