Ungir sem aldnir hafa í áratugi heillast af sögunni um stúlkuna Dóróteu sem ásamt hundinum Tótó lendir óvænt í ævintýralandinu Oz þar sem fuglahræður tala, apar fljúga og galdranornir ráða ríkjum. Til að komast aftur heim þarf Dórótea að fylgja gula veginum sem liggur til galdrakarlsins fræga í Oz en hann er sá eini sem getur hjálpað henni. Leiðin til Oz reynist vera þyrnum stráð og hætturnar leynast víða en sem betur fer eignast Dórótea óvænta vini á leiðinni.
Sagan byggir á samnefndri bók Frank Baums sem öðlaðist nýtt líf með frægri kvikmynd frá 1939 þar sem Judy Garland fór með hlutverk Dóróteu. Síðan þá hafa óteljandi útgáfur litið dagsins ljós, bæði á sviði og á hvíta tjaldinu og ekkert lát virðist vera á vinsældum söngleiksins. Þar spillir ekki fyrir tónlistin með ógleymanlegum lögum á borð við Somewhere Over the Rainbow og We’re off to See the Wizard.
Leikstjórinn Þórunn Arna Kristjánsdóttir er leikhúsgestum að góðu kunn enda stýrði hún tveimur af vinsælustu barnasýningum síðustu ára: Emil í Kattholti og Fíasól gefst aldrei upp. Hér fer hún fyrir glæsilegum hópi leikara og listrænna stjórnenda sem í sameiningu skapa bæði ógnir og undur ævintýralandsins Oz í ógleymanlegri sýningu.