Við hittum litað fólk á mismunandi stöðum í lífinu og heyrum sögur þeirra af öðrun, tengingu, fordómum og samstöðu. Leitast verður við að sviðsetja reynsluheim litaðra einstaklinga, gefa þeim rödd og brjóta niður ósýnilega veggi milli menningarstarfsemi og uppruna fólks. Sýningin er persónuleg en hefur víða skírskotun fyrir okkur öll sem búum hér í þessum heimi.
Leikhópurinn Elefant samanstendur af ungum leikurum og listafólki sem flest eiga það sameiginlegt að vera af blönduðum uppruna. Hópurinn hefur sett upp nokkrar sýningar – meðal annars hina margverðlaunuðu Íslandsklukku sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu. Elefant vinnur gjarnan með fyrirframgefnar hugmyndir okkar um hvað sé að vera Íslendingur og í hverju þjóðerni felist þar sem þau endurskilgreina hugmyndir út frá breyttum forsendum og nýjum veruleika samtímans.
Í samstarfi við leikhópinn Elefant