Borgarleikhúsið

BORGARLEIKHÚSIÐ 2019-2021

Dirfska - Mennska - Samtal

Hlutverk

  • Listrænt hlutverk okkar er að hreyfa við ólíkum hópum samfélagsins með því að spyrja spurninga, gagnrýna, vekja gleði og segja hið ósagða.
  • Listrænt hlutverk okkar er að hlusta og gera tilraunir sem vekja til umhugsunar.
  • Listrænt hlutverk okkar er að vekja umræðu, opna huga fólks og efla vitsmuni þess með því að rannsaka mannlegt eðli og spegla samfélagið.

Framtíðarsýn

  • Borgarleikhúsið er lifandi, opinn og skemmtilegur samverustaður sem er í nánum tengslum við umhverfi sitt.
  • Við eigum í einlægu samtali „hér og nú“ við ólíka hópa samfélagsins, erum fjölþjóðleg, djörf og nýjungagjörn.
  • Við endurspeglum tíðarandann með leikhúsi fyrir áhorfendur af ólíkum uppruna, á öllum aldri með nýsköpun, tilraunum og sviðslistaviðburðum.
  • Við bjóðum upp á afgerandi sýningar og styðjumst við fjölbreyttar vinnuaðferðir.
  • Við þorum að segja sögur og takast í sameiningu á við þær fjölbreyttu áskoranir sem á vegi okkar verða.

Stefna Borgarleikhússins

Hver erum við? Hvert stefnum við?

Leiklist í Borgarleikhúsinu hófst þegar Leikfélag Reykjavíkur var stofnað árið 1897. Það á sér langa sögu og þar er að finna dýrmæta reynslu og mikla hæfileika. Borgarleikhúsið er nýjasta leikhúsbygging landsins með þremur fullkomnum sýningarsölum, búnum nýjasta tækjabúnaði.

1. Áhrifamiklar sýningar í hæsta gæðaflokki

Hlutverk Borgarleikhússins er að vekja áhuga á framúrskarandi leiklist með sýningum sem snerta áhorfendur og vekja tilfinningar þeirra og vit. Við leggjum áherslu á áræðni, sköpunargleði og vönduð vinnubrögð, og forðumst endurtekningu.

2. Fjölbreytt verkefnaval – breiður hópur áhorfenda

Borgarleikhúsið vill laða til sín breiðan hóp fólks með verkefnavali sem höfðar bæði til alls almennings og áhugafólks um leikhús. Takmarkið er að vekja spurningar, skemmta, ögra, fræða og koma á óvart. Unnið er markvisst að því að endurnýja og stækka áhorfendahópinn m.a. með öflugu fræðslustarfi.

3. Íslensk leikritun – markviss stefna til framtíðar

Í Borgarleikhúsinu er lögð sérstök áhersla á höfundastarf, þróun handrita frá fyrstu hugmynd til fullbúinna verka og leitast er við að hvetja og styðja íslensk leikskáld á öllum aldri. Við viljum gera innlenda leikritun framúrskarandi og samkeppnishæfa við það besta í erlendri samtímaleikritun. Þá stefnum við að útgáfu íslenskra leikrita, þýðinga á þeim og kynningu erlendis.

4. Sterk framtíðarsýn - heilsteypt yfirsýn

Í Borgarleikhúsinu eru gerðar langtímaáætlanir. Við leggjum þó áherslu á sveigjanleika í öllu skipulagi til að bregðast við breyttum aðstæðum hverju sinni enda einkennist starfsemin af snerpu.

5. Borgarleikhúsið hefur yfir að ráða einvala liði starfsfólks

Við Borgarleikhúsið starfa framúrskarandi listamenn og fagfólk, erlent og innlent. Starfsfólk Borgarleikhússins er mesti auður þess og þar er lögð áhersla á að hver og einn megi blómstra á sínu sviði, vaxa að þekkingu frá ári til árs, þroskast og eflast í starfi. Metnaður og gleði þeirra sem gera vel er sameiginlegur drifkraftur starfsfólksins í Borgarleikhúsinu.

6. Iðandi samkomustaður í hjarta borgarinnar

Borgarleikhúsinu er ætlað að vera lifandi hús sem fólk fýsir að heimsækja, hvort sem það sækir sýningar, aðra listviðburði, eða langar til að setjast niður yfir kaffibolla eða vínglasi til að spjalla. Við leggjum áherslu á að anddyri hússins sé aðlaðandi og eftirsóknarverður samverustaður fyrir gesti okkar og starfsfólk og að öllum líði vel í vistarverum hússins.

7. Ábyrgur rekstur

Hallalaus rekstur og öguð fjármálstjórn er forsenda leiklistar í Borgarleikhúsinu. Við gerum ítarlegar og raunhæfar rekstraráætlanir og leggjum áherslu á virkt kostnaðareftirlit. Fjölbreytt verkefnaval og fjöldi gesta gerir okkur kleift að taka oftar en ekki áhættu sem er í senn djörf og spennandi og nærir stolt okkar.

8. Í Borgarleikhúsinu ríkir jafnrétti

Borgarleikhúsið fer ekki í manngreinarálit og gerir ekki mun á stöðu og virðingu kvenna og karla sem þar starfa. Unnið er markvisst gegn viðhorfum sem hvetja til misréttis. Þess er sérstaklega gætt að allar þær leiðir sem miða að jafnri stöðu kynjanna séu virkur þáttur í starfsmannastefnu Borgarleikhússins.

9. Borgarleikhúsið er virkur þátttakandi í lífi Íslendinga

Borgarleikhúsið gegnir mikilvægu hlutverki sem ein helsta menningarstofnun landsins. Starfsfólk þess vill eiga lifandi samtal við áhorfendur sína og samfélag, varpa ljósi á atburði líðandi stundar, rýna í samtímann og spyrja mikilvægra spurninga.

10. Borgarleikhúsið leitast stöðugt við að bæta sig

Borgarleikhúsið lítur til þess besta sem gerist í leikhúsum heimsins og kappkostar stöðugt að bæta starf sitt á öllum sviðum. Þar á sér stað sífelld endurskoðun hvað varðar vinnuferli, form, aðferðir og inntak leiklistarinnar og leitast er við að skapa Borgarleikhúsinu sess sem eitt framsæknasta og vandaðasta leikhús álfunnar.

Jafnlaunastefna

Í 6. grein laga nr. 150/2020 segir: „Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að því að kona, karl og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni“.

Borgarleikhúsið skuldbindur sig til að tryggja jöfn laun og kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kyni, kynhneigð, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningu þannig að enginn launamunur sé til staðar hjá leikhúsinu sem ekki byggir á málefnalegum rökstuðningi.

Borgarleikhúsið skuldbindur sig til þess að starfa samkvæmt vottuðu ÍST 85 jafnlaunakerfi og viðhalda með því stöðugu eftirliti og umbótum. Borgarleikhúsið skuldbindur sig einnig til að hafa jafnlaunastefnuna til grundvallar þegar ákvarðanir eru teknar varðandi kjör.

Jafnlaunavottun_adalmerki_2020_2023_f_ljosan_grunn

Mannauðsstefna

Samtal og samskipti

Borgarleikhúsið leggur áherslu á að starfsfólk komi fram hvert við annað af virðingu og kærleika með hreinskiptum og uppbyggilegum samskiptum. Stjórnendur og starfsfólk leggja sig fram um að efla hvort annað með heiðarlegu og sanngjörnu samtali.

Liðsheild og vinnuumhverfi

Borgarleikhúsið er opinn, lifandi og skemmtilegur samverustaður þar sem starfsfólk fær tækifæri til að líða vel í starfi. Í leikhúsinu er samheldni grunnurinn að jákvæðum starfsanda. Rík áhersla er lögð á jöfnuð og stéttlaust vinnusamfélag þar sem einelti og áreitni eru ekki liðin.

Fjölbreytileiki og jafnrétti

Borgarleikhúsið ætlar að vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum þar sem ólíkir einstaklingar af ólíkum uppruna fá tækifæri til að vera þeir sjálfir. Jafnræðis og hlutleysis er gætt í ráðningarferlinu og lögð er áhersla á að starfsfólk fái góðar móttökur við upphaf starfs. Leikhúsið tryggir jafnan rétt fólks til launa og tækifæra og mismunar engum á grundvelli kynferðis, kynþáttar, trúar, kynhneigðar, fötlunar, stjórnmálaskoðana eða annarra ómálefnalegra þátta.

Verkefni og tækifæri

Borgarleikhúsið er vinnustaður þar sem sköpunarkraftur ræður ríkjum og tekist er á við ný og ögrandi verkefni á hverju leikári. Leikhúsið og starfsfólk þess ætlar að skapa eftirstóttasta vinnustað leikhúsfólks hérlendis þar sem starfsfólki gefst tækifæri til að sýna frumkvæði og takast á við fjölbreyttar áskoranir í fyrsta flokks umhverfi.