BORGARLEIKHÚSIÐ
Áræðni – Metnaður – Fjölbreytni
Leikfélag Reykjavíkur var stofnað árið 1897 og með því var grunnur lagður að atvinnuleikhúsi á Íslandi. Í Leikfélaginu er að finna dýrmæta reynslu og mikla hæfileika. Borgarleikhúsið er nýjasta leikhúsbygging landsins með þremur sýningarsölum, búnum nútíma tækjabúnaði.
Hlutverk Borgarleikhússins er:• að vera heimili sviðslistafólks sem hreyfir við fólki með kraftmiklum leiksýningum.
• að vera leiðandi afl í leiklistarstarfi.
• að fræða, skemmta, vekja umræðu og spegla samfélagið á hverjum tíma.
Borgarleikhúsið er opið öllum og vill höfða til allra samfélagshópa.
LISTRÆN SÝN
Borgarleikhúsið er lifandi, framsækið og djarft leikhús. Í öllu okkar starfi höfum við áræðni, metnað og fjölbreytni að leiðarljósi.
Áræðni okkar birtist meðal annars í verkefnavali, vali á listrænum stjórnendum og starfsfólki. Við erum óhrædd við að veita nýju fólki tækifæri og sinna þannig grasrótinni.
Metnaður skín í gegn í öllu okkar starfi. Við leggjum okkur fram um að veita áhorfendum ógleymanlega upplifun með metnaðarfullum sýningum og framúrskarandi starfsfólki í hrífandi umhverfi.
Fjölbreytni er leiðarljós í öllu okkar starfi. Fjölbreytnin birtist til að mynda í verkefnavali, ráðningum starfsfólks og áhorfendahópi. Öll eru velkomin í Borgarleikhúsið og við leggjum áherslu á að ólíkar raddir fái að hljóma hjá starfsfólki leikhússins.
Stefna
Borgarleikhússins
1. Ögrandi, framsækið og áræðið leikhús
Við leggjum okkur fram um að bjóða upp á framúrskarandi leiklist með sýningum sem snerta áhorfendur og hvetja þá til að virkja eigin sköpunarkraft. Við erum óhrædd við áskoranir og kappkostum við að vera áræðin. Við viljum bjóða gestum okkar upp á upplifun sem hreyfir við þeim, vekur þá til umhugsunar og breytir jafnvel lífi þeirra á einhvern hátt.
2. Opið leikhús
Við viljum vera leikhús sem stendur öllum opið og nær til allra samfélagshópa með fjölbreyttum sýningum. Við leggjum okkur fram um að skapa sýningar sem endurspegla samfélagið og samtímann hverju sinni. Við tryggjum gott aðgengi að leikhúsinu okkar og áhorfendasölum.
3. Heimili sviðslistafólks
Í Borgarleikhúsinu starfar framúrskarandi listafólk og fagfólk. Við viljum vera suðupottur menningar og hornsteinn sviðslista í Reykjavík. Þannig erum við leiðandi afl í sviðslistastarfi og þjónustum bæði listina og áhorfendur. Við leggjum áherslu á að sinna grasrótinni vel, með samstarfsverkefnum, öflugu fræðslustarfi og með því að veita nýju listafólki tækifæri.
4. Segjum sögur, fræðum, skemmtum og gleðjum
Við viljum endurspegla samfélagið okkar en á sama tíma erum við óhrædd við að leita nýrra svara í klassískum leikbókmenntum. Við viljum fræða áhorfendur en einnig skemmta þeim. Við viljum hreyfa við áhorfendum en einnig hræra upp í þeim. Við viljum veita áhorfendum okkar innblástur en einnig tækifæri til að gleyma stund og stað.
5. Íslensk frumsköpun
Við leggjum okkur fram um að styðja íslensk leikskáld á öllum aldri og af öllum kynjum. Við leggjum áherslu á þróun handrita frá fyrstu hugmynd til fullbúinna verka, en við erum jafnframt óhrædd við að leita nýrra leiða í sköpun sviðsverka.
6. Góður vinnustaður þar sem fólki líður vel í vinnunni
Starfsfólk Borgarleikhússins er mesti auður þess. Við leggjum okkur fram um að búa til vinnuumhverfi þar sem hver og einn fær tækifæri til að blómstra og vaxa í starfi. Við leggjum áherslu á að Borgarleikhúsið sé fjölskylduvænn vinnustaður, með virka fjölskyldu-, jafnréttis-og samskiptastefnu.
7. Ábyrgur rekstur
Styrk fjármálastjórnun er okkur kappsmál í Borgarleikhúsinu. Við vinnum eftir raunhæfum rekstraráætlunum og leggjum áherslu á virkt kostnaðareftirlit. Þannig tryggjum við starfsöryggi mannauðsins og framtíð Borgarleikhússins.
8. Jafnrétti
Við leggjum við áherslu á jöfn tækifæri og mismunum ekki eftir kyni né nokkru öðru. Við komum fram við alla af virðingu og berum virðingu fyrir skoðunum hvers annars. Við vinnum bæði eftir mannauðsstefnu og jafnlaunastefnu, en Borgarleikhúsið hlaut jafnlaunavottun sem gildir til ársins 2023.
9. Umhverfisvænn vinnustaður
Starfsfólk Borgarleikhússins flokkar og endurvinnur eftir bestu getu. Leikhúsið mun stíga fyrstu grænu skref Umhverfisstofnunar innan tíðar og þannig stuðla enn frekar að ábyrgum rekstri. Við stefnum einnig að því að minnka sorp og auka endurnýtingu.
10. Lifandi leikhús í ört stækkandi borg
Borgarleikhúsið á að vera menningarmiðja, sem öllum er opin og stolt borgarbúa. Við viljum bjóða upp á lifandi samkomustað þar sem fólk getur sótt sýningar eða aðra viðburði og notið samveru og veitinga í hlýlegu umhverfi. Við viljum að Borgarleikhúsið sé staður þar sem allir upplifa að þeir séu velkomnir.
Jafnlaunastefna
Í 6. grein laga nr. 150/2020 segir: „Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að því að kona, karl og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni“.Borgarleikhúsið skuldbindur sig til að tryggja jöfn laun og kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kyni, kynhneigð, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningu þannig að enginn launamunur sé til staðar hjá leikhúsinu sem ekki byggir á málefnalegum rökstuðningi.
Borgarleikhúsið skuldbindur sig til þess að starfa samkvæmt vottuðu ÍST 85 jafnlaunakerfi og viðhalda með því stöðugu eftirliti og umbótum. Borgarleikhúsið skuldbindur sig einnig til að hafa jafnlaunastefnuna til grundvallar þegar ákvarðanir eru teknar varðandi kjör.