La bohème eftir Puccini er ein dáðasta ópera allra tíma. Áhorfendur fylgja sex ungum listamönnum meðan heit ástríða þeirra fyrir lífinu lætur undan köldum raunveruleikanum. Það er aldrei til eldiviður í kamínuna og það snjóar inn um gat í loftinu. Rík af orðaforða, fátæk af öðrum forða. Södd af ást og vináttu en að öðru leyti hungurmorða. „Óperan er í senn drepfyndin og hádramatísk og býr yfir ógleymanlegri tónlist. La bohème verður fyrsta sýning Óðs með hljómsveit og í gegnum það samstarf birtist þessi saga á látlausan máta, þar sem örlagaþráður tónlistarinnar upphefur rómantík lífsins og tjáir tilfinningadrama ástar, sorgar og vináttu með þeirri marglaga dýpt sem óperu einni er lagið.“
Á síðustu árum hefur Óður getið sér afbragðs gott orð fyrir bráðskemmtilegar sýningar þar sem ungt og hæfileikaríkt tónlistarfólk færir sígilda tónlist í nýjan búning. Óður hefur sýnt 57 sýningar af fjórum óperuuppfærslum sínum frá stofnun árið 2021. Hópurinn þýðir sérhverja þeirra úr upprunatungumáli yfir á íslensku og vinnur nýja leikgerð að öllu leyti. Óður hefur hlotið Grímuverðlaun fyrir starf sitt og verið tilnefndur sem Flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaunum, auk þess að vera útnefndur Listhópur Reykjavíkur árið 2024.
Verkefnið er styrkt af Sviðslistasjóði, Launasjóði sviðslistafólks, Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóði.