Starfsemi
Starfsemi í Borgarleikhúsinu - Fjármál, áhorfendur
Framlag Reykjavíkurborgar á sl. leikári nemur um 621 mkr. Framlagið er greitt með 12 um það bil jöfnum greiðslum. Að öðru leyti skal LR afla eigin tekna með sölu aðgöngumiða, veitingasölu, útleigu og með öflun styrktaraðila.
Skyldur
Leikfélagið á að gangast fyrir öflugri og samfelldri menningarstarfsemi árið um kring í Borgarleikhúsinu, á eigin vegum, í samstarfi við aðra eða með öðrum hætti sem tryggir góða nýtingu hússins.
Leikfélagið skal setja upp fimm leiksýningar á ári hverju hið minnsta og tryggja að minnsta kosti tveimur öðrum leikflokkum afnot af húsnæði Borgarleikhússins til æfinga og sýninga. Auglýsa skal opinberlega eftir umsóknum leikhópa fyrir 1. mars ár hvert.
Verkefnaval
Verkefnaval Borgarleikhússins er fjölbreytt. Grunnurinn liggur í samþykktum félagsins, samningi við Reykjavíkurborg og stefnumótun Borgarleikhússins hverju sinni. Leikhússtjóri stýrir verkefnavali en með virkri þátttöku listrænna ráðunauta sem og starfsmanna hússins, gjarnan með verkefnavalsnefnd og reglulegum leiklestrum. Stjórn LR samþykkir verkefnaval leikárs vorið á undan.
Meginsjónarmiðin í verkefnavali LR eru að verkin séu framúrskarandi, hvert á sinn hátt, innihaldsrík og eigi mikilvægt erindi við samtímann og áhorfendur Borgarleikhússins, - í gamni sem alvöru. Í heild er stefnt að fjölbreyttu og litríku verkefnavali, metnaðarfullu, sterku og ekki síst vönduðu.
Hvert svið hefur sína áferð: Á Stóra sviði er lögð áhersla á stórsýningar, Nýja sviðið er vettvangur áleitnari verkefna og á Litla sviðinu er mikið lagt upp úr nálægð milli leikara og áhorfenda.
Stjórnskipulag, stjórn og helstu stjórnendur
Leikfélag Reykjavíkur er sjálfseignarstofnun og byggir á lögum um sjálfseignarstofnanir. Stjórn Leikfélags Reykjavíkur ber ábyrgð á rekstri Leikfélags Reykjavíkur og Borgarleikhúss en ræður leikhússtjóra sem stýrir leikhúsinu í umboði stjórnar. Stjórnin ræður einnig framkvæmdastjóra sem ber ábyrgð á fjármálum og rekstri leikhússins.
Hússtjórn
Sérstök stjórn, Hússtjórn Borgarleikhúss, hefur eftirlit með rekstri og viðhaldi fasteignar Borgarleikhússins og með efndum samnings milli Reykjavíkurborgar og Leikfélags Reykjavíkur um Borgarleikhús. Hússtjórn er skipuð til fjögurra ára í senn, eftir hverjar borgarstjórnarkosningar. Borgarstjóri tilnefnir þrjá fulltrúa og stjórn leikfélags Reykjavíkur tvo. Framkvæmdastjóri situr einnig fund hússtjórnar.
Rekstur húsnæðis
Reykjavíkurborg er eigandi Borgarleikhúss og sér um viðhald hússins. Umsjónarmaður fasteignarinnar er Ögmundur Þór Jóhannesson. Eignasjóður Reykjavíkurborgar fer með rekstur og viðhald en Skipulags- og framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar framkvæmir. Unnið er eftir samþykktri langtímaáætlun um viðhald og nýkaup tækja og búnaðar.