Fræðsludeild
Markmið fræðsludeildar Borgarleikhússins er að opna leikhúsið fyrir ungum jafnt sem öldnum og vekja þannig áhuga nýrra kynslóða og nýrra áhorfenda. Leikskóla- og grunnskólanemendum er meðal annars boðið í heimsóknir í leikhúsið, skoðunarferðir og starfskynningar eru haldnar samkvæmt óskum, auk þess sem margvíslegt efni tengt sýningum er gefið út og gert aðgengilegt á vefsíðu Borgarleikhússins. Nánari upplýsingar um starf fræðsludeildar má nálgast með því að senda póst á emelia@borgarleikhus.is.
Upplýsingar og skráning í skoðunarferðir fara fram hjá Hlyni Páli Pálssyni, samskiptastjóra Borgarleikhússins, hlynurpall@borgarleikhus.is.
Leikhúskaffi
Borgarleikhúsið í samstarfi við Borgarbókasafnið í Kringlunni bjóða ár hvert upp á viðburði undir heitinu Leikhúskaffi. Aðstandendur valinna sýninga kíkja í heimsókn á safnið og segja frá nálgun sinni á verkunum ásamt því að rölta yfir í leikhúsið til að kynna leikmynd og aðra umgjörð. Gestum Leikhúskaffisins býðst jafnframt sérstök afsláttarkjör á leikhúsmiðum þess verks sem fjallað er um hverju sinni. Athugið að viðburðirnir eru ókeypis.
Námskeið í samstarfi við Endurmenntun
Á hverju ári efnir Endurmenntun Háskóla Íslands til námskeiða í tengslum við valdar uppsetningar Borgarleikhússins. Rýnt verður í verkin, baksvið þeirra og hugarheim, auk þess sem þátttakendum verður boðið á æfingar þar sem þeim gefst tækifæri til að hitta aðstandendur sýninganna. Innifalið í námskeiðsgjaldi er jafnframt leikhúsmiði á lokaæfingu leikverkanna sem eru til umfjöllunar. Frekari upplýsingar og skráning er hjá Endurmenntun í síma 525-4444 og á endurmenntun.is.
Samlestrar
Opnir samlestrar á verkum
Borgarleikhúsið býður upp á opna samlestra á völdum verkum hvers leikárs. Samlesturinn fer fram á æfingarferlinu þar sem leikarar lesa saman handritið. Viðburðirnir eru auglýstir á vefsíðu Borgarleikhússins hverju sinni og áhugasamir geta tryggt sér fría miða með því að skrá sig á borgarleikhus.is. Athugið að takmarkað miðaframboð er á samlestrana.
Skólasýningar
Á ári hverju er börnum úr Reykjavík boðið í Borgarleikhúsið. Nemendum í 10. bekk er boðið á hina hjartnæmu og mikilvægu sýningu Allt sem er frábært. Öllum nemendum 5. bekkjar er í ár boðið á Kjarval, undurfagurt og skemmtilegt verk um listmálarann Jóhannes Sveinsson Kjarval. Leikskólasýning ársins er ávallt gleðilegur viðburður en þá fyllist leikhúsið af öllum elsta árgangi leikskólanna í Reykjavík en í vetur verður það hin hugljúfa og töfrandi sýning Ofurhetjumúsin.
Allt sem er frábært
Allt sem er frábært er gleðieinleikur um depurð. Einstök upplifun sem fær fólk til að hlæja þar til það skilur hvers vegna það grætur. Vala Kristín Eiríksdóttir gerir í þessu sérstæða verki lista yfir allt sem er frábært í heiminum. Með aðstoð áhorfenda, sem taka virkan þátt í sýningunni, gerir hún atlögu að depurðinni og lífsleiðanum — og segir í leiðinni hrífandi sögu af ást, sorg og ís með dýfu.
Verkið er eftir Duncan Macmillan sem er Íslendingum að góðu kunnur sem höfundur leikritanna 1984, Andaðu og Fólk, staðir og hlutir. Allt sem er frábært hefur verið leikið um allan heim og gefið óteljandi áhorfendum nýja sýn á lífið og tilveruna.
Kjarval
Listmálarinn Jóhannes Sveinsson Kjarval var ekki bara einn merkasti málari sem Íslendingar hafa átt, heldur má segja að hann hafi átt stóran þátt í að kenna þjóð sinni að meta stórbrotna náttúru landsins, náttúrunnar vegna.En hver var þessi sérkennilegi maður – og hvaðan kom hann? Í leikandi léttri fjölskyldusýningu sem byggir að hluta til á verðlaunabók Margrétar Tryggvadóttur um listamanninn, er leitast við að draga upp mynd af Kjarval; drengnum, manninum og málaranum. Listin sjálf er sömuleiðis í brennidepli; hvernig hún er allt í kringum okkur og hefur áhrif á lífið alla daga, við horfum á listina og ef við erum heppin þá horfir hún til baka.
Jóhannes Kjarval batt bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamenn en kenndi okkur að líta umhverfið nýjum augum og sjá listina í hinu stórbrotna jafnt sem hinu hversdagslega – í hrikalegu hrauni en líka í mygluðum flatkökum.
Ofurhetjumúsin
Leikhúsið hefur legið í dvala um stund og því er frábært að fá fullan sal af börnum til að hjálpa okkur að vekja það. Ef það tekst þá er aldrei að vita nema að áhorfendur fái að heyra æsispennandi ævintýri, eða kannski alveg ótrúlega sögu, pínulitla sögu um ennþá minni mús sem ferðast um undraheima leikhússins í leit að hugrekki sínu. Þetta er engin venjuleg mús. Þetta er ofurhetjumús, sem býr yfir öllum þeim ofurhetjukröftum sem til eru. En dag einn gerist það ótrúlega að ofurhetju- kraftarnir fjúka út í veður og vind og eftir stendur bara ósköp venjuleg mús. Hún ákveður því að leggja upp í mikla háskaför til þess að finna kraftana sína. leita. Á ferðalaginu mætir hún miklum hindrunum og þarf að horfast í augu við sinn stærsta ótta en kemst um leið að því hversu gott það er að eiga góðan vin sem mætir á svæðið og styður og hvetur mús áfram þegar mús þarf mest á að halda.