Borgarleikhúsið

Fræðsludeild

Markmið fræðsludeildar Borgarleikhússins er að opna leikhúsið fyrir ungum jafnt sem öldnum og vekja þannig áhuga nýrra kynslóða og nýrra áhorfenda. Leikskóla- og grunnskólanemendum er meðal annars boðið í heimsóknir í leikhúsið, skoðunarferðir og starfskynningar eru haldnar samkvæmt óskum, auk þess sem margvíslegt efni tengt sýningum er gefið út og gert aðgengilegt á vefsíðu Borgarleikhússins. Nánari upplýsingar um starf fræðsludeildar má nálgast með því að senda póst á hallabjorg@borgarleikhus.is.

Á döfinni

Leikhúskaffi

Borgarleikhúsið í samstarfi við Borgarbókasafnið í Kringlunni bjóða ár hvert upp á viðburði undir heitinu Leikhúskaffi. Aðstandendur valinna sýninga kíkja í heimsókn á safnið og segja frá nálgun sinni á verkunum ásamt því að rölta yfir í leikhúsið til að kynna leikmynd og aðra umgjörð. Gestum Leikhúskaffisins býðst jafnframt sérstök afsláttarkjör á leikhúsmiðum þess verks sem fjallað er um hverju sinni. Athugið að viðburðirnir eru ókeypis.

Námskeið í samstarfi við Endurmenntun 

Á hverju ári efnir Endurmenntun Háskóla Íslands til námskeiða í tengslum við valdar uppsetningar Borgarleikhússins. Rýnt verður í verkin, baksvið þeirra og hugarheim, auk þess sem þátttakendum verður boðið á æfingar þar sem þeim gefst tækifæri til að hitta aðstandendur sýninganna. Innifalið í námskeiðsgjaldi er jafnframt leikhúsmiði á lokaæfingu leikverkanna sem eru til umfjöllunar. Frekari upplýsingar og skráning er hjá Endurmenntun í síma 525-4444 og á endurmenntun.is.

Samlestrar

Opnir samlestrar á verkum

Borgarleikhúsið býður upp á opna samlestra á völdum verkum hvers leikárs. Samlesturinn fer fram á æfingarferlinu þar sem leikarar lesa saman handritið. Viðburðirnir eru auglýstir á vefsíðu Borgarleikhússins hverju sinni og áhugasamir geta tryggt sér fría miða með því að skrá sig á borgarleikhus.is. Athugið að takmarkað miðaframboð er á samlestrana.

Leikskólasýning ársins

Borgarleikhúsið býður elsta árgangi barna í leikskólum Reykjavíkur að kynnast töfrum leikhússins. Börnunum er boðið á sýningu sem er sérstaklega samin fyrir þau undir yfirskriftinni Leikskólasýning ársins. Sýningin býður börnunum inn í töfraheim þar sem allt er mögulegt ásamt því að gefa þeim gott veganesti út í lífið.

Helga.Arnalds

Grunnskólanemendur skoða leikhúsið

Borgarleikhúsið býður öllum nemendum 5. bekkjar í grunnskólum Reykjavíkur í heimsókn með það að leiðarljósi að opna leikhúsið fyrir grunnskólabörnum og vekja þannig áhuga og forvitni hjá yngri kynslóðinni. Í febrúar 2021 verður þeim boðið á sýninguna Stúlkan sem stöðvaði heiminn í samstarfi við Leikhúsið 10 fingur. Hvað gerir stúlka sem þarf að finna sig á nýjum stað? Til að takast á við stórar áskoranir þarf oft hugrekki til að kafa niður á órætt dýpi. Stúlkan sem stöðvaði heiminn er hrífandi myndræn upplifun fyrir stóra og smáa sem tekur á mikilvægum málefnum.

Öllum nemendum í 10. bekk grunnskóla Reykjavíkur verður boðið á sýninguna Allt sem er frábært, einleikur sem hefur gefið tugþúsundum áhorfenda um allan heim nýja sýn á lífið og tilveruna. Valur Freyr Einarsson stendur einn á sviðinu í hlutverki manns sem gerir atlögu að depurðinni og lífsleiðanum. Hann segir hrífandi sögu af ást, sorg og ís með dýfu. Við erum afar stolt af þessari sýningu og teljum hana mjög við hæfi fyrir ungt fólk á þessum aldri sem oft á tíðum glímir við depurð, sorg og aðra erfiðleika í lífinu. Listi yfir allt sem er frábært: 1. Ís með dýfu.