Borgarleikhúsið

Andarnir eru komnir á kreik

11 nóv. 2022

Samtal við Uršulė Barto leikstjóra Macbeth, eftir Illuga Jökulsson

„Ég fæddist í Vilníus og er af fjölskyldu sem alltaf hefur látið sig menningu miklu varða, sótt menningarviðburði og notið menningar yfirleitt út í æsar. Ég naut þeirra forréttinda að alast beinlínis upp á tónleikum og leiksýningum, slíkt var bara óaðskiljanlegur hluti af lífi fjölskyldunnar frá því ég man eftir mér. Saga mín er þess vegna ekki ævintýrið um grallaralausu manneskjuna sem álpast í fyrsta sinn í leikhús 25 ára og fær eins og þrumu úr heiðskíru lofti: Bomm, hvað var nú þetta, vá, í leikhúsinu ætla ég að vera eftirleiðis alla tíð! Nei, leið mín í leikhúsið var bara frekar greið og átakalaus. Ég vissi mjög snemma að þetta var það sem mig langaði til að fást við, og þá ákvað ég það bara, og ég var ekki nema svona 9 ára þegar ég var farin að taka þátt í leikklúbbum í skólanum, og gerði það alla tíð síðan.

Þegar ég lauk stúdentsprófi langaði mig í leikstjóranám en þá var bara boðið upp á það annað hvort ár, svo ég ákvað að prófa eitthvað allt annað meðan ég biði og hóf að læra arabísku í hálft ár en það dugði til að ég áttaði mig endanlega á að ég er framkvæmdamanneskja (practitioner) en ekki fræðingur (theoretician). Ég er ekki manneskja sem getur setið við skrifborð með bækur og skoðað og skilgreint og sett fram kenningar, ég vil taka þátt í atinu sjálfu, vinna með fólki, setja undir mig hausinn og gera eitthvað. Kenningar eru bara ekki mitt svið.

Svo eftir þessa misheppnuðu tilraun til að gerast fræðimaður í arabísku þá fór ég allshugar fegin í Leikhús- og tónlistarskólann í Litháen og tók á fjórum árum BA-próf í leikstjórn og hélt svo áfram í tvö ár í meistaranámi í sama skóla undir handleiðslu Yönu Ross, sem þið þekkið nú Íslendingar eftir tvær sýningar hennar í Borgarleikhúsinu. Þannig var nú mín leið í leikhúsið. Reyndar var ég farin að vinna í leikhúsum strax á þriðja ári í BA-náminu, ég gat ekki beðið eftir að byrja að vinna með fótunum, ef svo má segja.“

Manstu hvað það var sem heillaði þig mest þegar þú fórst í leikhúsið ung að árum?

„Þegar ég var barn fannst mér flestallt skemmtilegt en ég held að fyrsta „öðruvísi“ leikreynslan hafi líklega verið þegar ég sá í fyrsta sinn sýningu eftir ítalska leikstjórann Romeo Castellucci. Það kemur kannski ekki á óvart, ég held að hinar mjög svo sjónrænu og litríku sýningar hans höfði oft ekki síst til ungs fólks. Þetta var á einhvern hátt mikilvæg stund fyrir mig, áherslan var ekki á orðin og mér fannst ég fíla sýninguna frekar en skilja hana og það var eftirminnilegt að uppgötva að þannig gæti leikhús líka verið. Nú, en að öðru leyti, þá hef ég auðvitað séð fullt af góðum sýningum og það vantar sannarlega ekki góða leikstjóra í Litháen en ég held að það hafi ekki verið neinn sérstakur listamaður sem leiddi mig beinlínis inn í leikhúsið, ég hreifst af svo mörgu.

Að mörgu leyti finnst mér reyndar að ég sé í minni leikhúshugsun alveg á mörkum austurs og vesturs. Litháískt leikhús hefur frá gamalli tíð verið undir miklum áhrifum frá rússneska leikhúsinu og rússneska leikhússkólanum, og mitt nám dró auðvitað dám af því, einkum BA-námið. En ég tók snemma eftir því að þegar ég fór að fara á leikhúshátíðir og sækja sýningar erlendis, þá voru það yfirleitt vestrænar sýningar sem ég sóttist eftir. Og þegar ég fór svo í meistaranámið hjá Yönu, þá var sjónarhorn hennar mjög vestrænt, að segja má. Og núna finnst mér að ég hafi grætt á að giska jafn mikið úr báðum herbúðum og noti mér í mínu starfi álíka margt úr báðum áttum.“

As-you-like-it

Og hvað hefurðu helst grætt á leikhúshefð þíns eigin lands?

„Ja, leikhúshefð okkar Litháa mótaðist síðustu áratugi 20. aldar og á kannski svolítið mótsagnakenndan hátt, þar sem annars vegar voru rússnesk áhrif mikil, eins og ég sagði áðan, og við fengum margt gagnlegt þaðan, en á hinn bóginn litu flestir Litháar á vist okkar í Sovétríkjunum sem hersetu erlends ríkis, og leikhúsið, eins og annað í samfélaginu, var undir miklum þrýstingi þess vegna. Það varð hlutverk leikhússins að sameina áhorfendur og leggja þeim lið í baráttunni við hið illa. En það mátti ekki gera á of opinskáan hátt og þess vegna varð leið leikhússins mjög symbólísk, að segja má. Hlutirnir voru ekki sagðir hreint út, það þurfti að fara í kringum flestöll málefni og tala undir rós. Og ég er ekki fyrst og fremst að tala um texta leiksýninga, heldur alla uppsetninguna, leikstíl og annað. Eimuntas heitinn Nekrošius, sem var stórmenni í litháísku leikhúslífi, hann var til dæmis mikill meistari í þessu. Það voru alltaf mörg lög í sýningunum hans. Og ég finn í sjálfri mér heilmikla hvöt til að fara þessa leið.

Nú er ég að vísu fædd eftir að Litháen varð sjálfstætt ríki og ég lifði því í rauninni ekki á eigin skinni það tímabil skoðanakúgunar þegar fólk þurfti að fela skoðanir sínar og hugsanir og semja sig að áróðri yfirvalda. En það eimir enn eftir af slíkum hugsunarhætti í aðferðum og samskiptamáta okkar og ég hef ekkert á móti því að nota ýmislegt úr þeim leikhúsheimi sem Nekrošius og fleiri sköpuðu. En um leið er ég pólitísk á mun opinskárri hátt en þeir gátu leyft sér og tel að leikhúsið eigi að vera pólitískt tæki fremur en bara symbólískur spegill á mannlífið.“

Litháíska leikhúsið hefur vakið mikla athygli síðustu áratugi. Á Íslandi var það mikil opinberun fyrir leikhúsfólk þegar Rimas Tuminas, mikilhæfur leikstjóri á sama reki og Nekrošius, kom hingað fyrst fyrir aldarfjórðungi og setti upp sýningar á máta sem lítt eða ekki hafði sést hér áður. Hvernig ætli standi á því að fámenn þjóð eins og Litháar hafa alið af sér svo marga frábæra leikstjóra?

„Þetta er spurning sem ekki hefur fundist neitt svar við, þótt töluvert hafi verið gruflað. Ég efast í rauninni um að það sé til einhver einn litháískur leikstjóraskóli. Ég svara svona spurningum gjarnan svo að við Litháar höfum fyrst og fremst mjög góðan jarðveg fyrir leikstjóra að vaxa í, og þá meina ég í þeim skilningi að þetta starf og leikhúsið almennt njóta virðingar, það er litið á leikhúsið sem fullgilda leið til að skynja og skilja heiminn og láta til sín taka. Ekkert síður en að vinna í banka til dæmis. Á Sovéttímanum var leikhúsið eins konar andspyrna og kannski náði það þannig þeirri stöðu í samfélaginu að það er talið marktækt og í landinu þykir enn eftirsóknarvert að kynnast því hvað leikhúsfólk er að bardúsa. Litháísk leikhúshefð hefur sitt að segja, jú, en aðallega þetta, held ég: Í Litháen má fara í leikhús til að hugsa um heiminn.“

Leikstjóranám þekkist því miður varla hér á Íslandi. Það væri gaman að vita í hverju það er helst fólgið í Litháen, ég meina hreinlega hvað varstu að gera öll þessi ár?

„Það er reyndar góð spurning. Vinir mínir spurðu mig stundum að þessu og það var oft bara mjög erfitt að svara þessu. Það er svo ótrúlega fjölbreytt hvað manni er gert að gera. Einn daginn er maður með kennarann sinn á bakinu, bókstaflega, hann þrýstir á magann á þér og segir drungalega: Þaðan á röddin að koma, ekki úr hálsinum, heldur djúpt neðan úr maga, og það getur farið furðu langur tími í svonalagað. Í mínu tilfelli gekk BA-námið fyrstu tvö þrjú árin mikið út á leik. BA-námið var undir stjórn Jonasar Vaitkusar sem þótti merkur leikstjóri og kennari heima í Litháen og ég hafði afar góða prófessora í leiklist og við gerðum margt hugmyndaríkt og skemmtilegt.

Þú veist, við erum ekki með þýska leikhúsið, við erum ekki með Sprechtheater þar sem fólk situr lon og don og skilgreinir textann, textagreining er ekki endilega sterkasta hliðin á litháíska leikhúsinu. Það sem við sóttumst helst eftir í náminu var að finna „eventinn“ sem við gátum svo byggt á, finna andrúmsloftið, finna konfliktinn, og það gerðum við ekki síst með því að vera sífellt að búa til litlar etýður, örstutt lítil leikrit, eiginlega sýnishorn sem eiga samt að segja einhverja sögu eða gefa eitthvað til kynna, og stundum fengum við þrjá hluti, enga leikara, og áttum að búa til svona etýðu, oft án orða, gera bara eitthvað sem þó segir eitthvað, hlutirnir hreyfast, þeir hreyfast ekki, þeir gefa frá sér hljóð eða þeir gefa ekki frá sér hljóð, þú ræður því alveg. Svo ferðu að vinna með leikurum og þú færð tvo leikara en það er þögn og þú átt að finna út hvað er konfliktið og hvernig ætlarðu að opna það upp á gátt, kannski án þess að neitt sérstakt gerist.

Við gerðum mikið af svonalöguðu í BA-náminu mínu og þetta gat verið ansi lærdómsríkt en textinn sat sem sagt svolítið á hakanum. Það er eiginlega fyrst núna síðustu árin sem áhersla á textann fer vaxandi í okkar leikhúsi, en mitt BA-nám gekk aðallega út á andrúmsloft og skynjun.

En í meistaranáminu breyttist þetta algerlega, þá kom Yana til sögunnar og sá að það vantaði þennan stóra þátt í menntunina hjá okkur, textagreiningu og dramatúrgíu þar að lútandi. Þá fórum við meira út í skapandi skrif. En þegar upp er staðið, þá lærir maður ekki leikstjórn nema með því að leikstýra. Og dapurlegast er að þá hlýtur maður óhjákvæmilega að gera svo mörg mistök og hlaupa af sér hornin áður en manni lukkast eitthvað, og meðan maður er að gera mistökin hefur maður ekki hugmynd um að þetta sé kannski allt tóm vitleysa, og það er ekki fyrr en eftir frumsýningu sem maður áttar sig að maður skipaði rangt í hlutverkin, textinn var ómögulegur, leikgerðin slæm og sjálfur var maður á einhverjum villigötum. En ég trúi því einlæglega að maður læri þetta með tímanum!“

Snow.Woman.Duel2

Hvenær ertu ánægð að loknum vinnudegi? Hvenær ferðu heim að kvöldi eftir heilan dag af ströngum æfingum og hugsar: Þetta var frábært, út af þessu er ég í leikhúsinu! Hvað hefur þá gerst?

„Hm, ég er hreinlega ekki viss um að ég sé nokkurn tíma svona ánægð. Ég meina það. Því ef maður er svona ánægður, til hvers þá að fara í vinnuna daginn eftir? Mér finnst í rauninni, og þetta sagði ég við íslensku leikarana mína þegar við settumst niður með Macbeth í fyrsta sinn, að sýningin sé í rauninni tilbúin áður en við byrjum. Og það eina sem ég þarf að gera með mínu fólki er að finna leiðina að henni. Hún er þarna einhvers staðar úti í skógi, hún býr í leikriti Shakespeares, hún býr í hugmyndinni, hugsuninni, og andarnir eru komnir á kreik, þeir eru orðnir til og ég þarf bara að finna leiðina þangað, og til þess þarf ég og við öll að þræða hinn stórskrýtna krókótta skógarslóða sem vinnan í leikhúsinu er. Og til að finna sýninguna, þá gerir maður mistök, villist út af slóðanum, maður verður alveg ringlaður og veit ekki sitt rjúkandi ráð þarna rammvilltur í skóginum, og stundum er maður að því kominn að hrökklast til baka, er þetta ekki allt alveg ómögulegt, en samt er maður orðinn alveg heillaður af leiðinni og leitinni og takmarkinu, og þetta er allt svo spennandi að maður heldur áfram og það er það sem fær þig til að fara í vinnuna daginn eftir, hvað sem á dynur. Hvað gerist ef ég beygi þarna við stóra tréð? Hvað skyldi vera á bak við þetta fjall þarna í fjarska? Kannski er sýningin mín þar?“

Ég sá það einhvers staðar haft eftir þér í viðtali að þér þætti akkur í því að sýningarnar þínar vektu sterk viðbrögð áhorfenda, jafnvel á sjálfum sýningunum. Mér sýndist þú ekkert slá hendinni á móti því að áhorfendur mættu með tómata til að láta rigna yfir sviðið ef svo bæri undir.

„Já, haha, ég meinti það nú kannski ekki alveg bókstaflega og ég stefni heldur ekki markvisst að því að efna til deilna, en vissulega langar mig að vekja gagnrýna hugsun áhorfenda. Ég met mikils fólk sem tjáir skoðun sína, hvort heldur það eru leikarar eða áhorfendur, frekar en að bæla það allt niður, fólk lætur sem stund í leikhúsinu sé bara tækifæri til að punta sig svolítið og dreypa á kampavíni í hléinu.

Þetta er eiginlega helsta markmið okkar leikhúsfólks. Að bjóða fólki upp á að hugsa og bregðast við. Við getum bara spurt spurninga, við getum bara skapað grunn fyrir samræður, ég veit þetta er klisja en við verðum alltaf að hafa þetta í huga, að leikhúsið er ekki fyrir einhverja elítu til að eiga huggulega kvöldstund saman. Það er allt annar tilgangur með þessu streði og sá tilgangur er mjög pólitískur, sem sé að skilgreina einstaklinginn innan síns samfélags.“

Og ekki vantar pólitíkina í Macbeth, tala nú ekki á okkar stríðstímum. En hvað veldur því að þú vilt við þessar aðstæður setja upp Macbeth en ekki eitthvert splunkunýtt leikrit um stríð, metnað, ógnir? Hlyti ekki nýtt leikrit að segja okkur meira um það sem nú er að gerast?

„Það tæki alla ævina að svara þessari spurningu en fyrir mér snýst þetta um tungumálið. Tungutak Macbeths er fjarlægt okkur, það er svo framandlegt og það felur beinlínis í sér fjarlægðina. Þú verður að hafa fyrir því að skilja heim leikritsins og það er eftirsóknarvert og gagnlegt í sjálfu sér. Ég efast ekki um að það sé hægt að skrifa stórkostlegt leikrit um Úkraínu, um Mariupol, og áreiðanlega verður það gert, en þau leikrit verða samt ekki umsvifalaust almennur sannleikur eins og Macbeth er löngu orðinn, þau verða um Úkraínu og Mariupol, og hvorki leikarar né áhorfendur þurfa þá að leysa dulmálið sem felst í því leikriti sem við ætlum nú að setja upp, þessari veröld Shakespeares sem er í senn svo nærri og þó svo fjarlæg. Við neyðumst til að taka eftir, drekka í okkur það sem gerist á sviðinu, átta okkur á tungutakinu og reyna upp á eigin spýtur að skilja það og túlka, í stað þess að á okkur dynji upplýsingar. Ég er nýbúin að gera As You Like It eftir Shakespeare, og Shakespeare er svo sveigjanlegur, það er hægt að setja hann niður hvar sem er, og túlka á alla lund, en samt er hann aldrei billegur, þú þarft alltaf að hafa fyrir hlutunum, bæði sem leikstjóri, leikari, og áhorfandi, sem ekki er minnst um vert.

Það er til dæmis engan veginn hægt að svara því í einu orði um hvað Macbeth er. Fólk segir, já, það er augljóslega um vald og þrána eftir valdi og blóðþorsta og metnað til að verða konungur, og jújú, allt í lagi með það, en mér finnst Macbeth samt ekki vera aðallega um þetta, mér finnst leikritið fyrst og fremst vera um ótta. Í mínum augum er Macbeth fyrst og fremst um mekanisma óttans, því allt sem gerist á sviðinu á sér stað í ótta.

Blóðþorstinn stafar af ótta.

Á því stigi mála sem við erum nú í Evrópu hlýtur Macbeth að verða mjög dapurleg og harmræn samræða um það sem verður að breytast í sjálfri tilveru mannsins svo við andskotumst til að hætta að drepa hvert annað. Hvað það er í kerfinu, í okkur sjálfum, í okkar hugsanamekanisma, sem við virðumst ekki geta breytt. Og ég held að við þurfum að líta langt aftur til að reyna að skilja villuna sem við sitjum föst í og það er að parti til af hverju við grípum til Shakespeares, því þá sjáum við svart á hvítu að mekanismi hugsunarinnar er enn sá sami og þá blasir líka svo sorglega við að hann verður að breytast, það er löngu tímabært.“

Requiem-for-a-woman2

Þetta viðtal er tekið töluvert fyrir frumsýningu og við tvö vitum því ekki núna hvernig staðan verður þegar þið frumsýnið. En hvernig hefur stríðið í Úkraínu nú þegar haft áhrif á hugsanir þínar um leikritið og hvernig þú munt nálgast verkefnið?

„Það er erfitt að tala um þetta vegna þess að stríðið hefur svo gersamlega snúið hugsunarhætti okkar á hvolf. Á tímabili fannst mér eftir að innrásin hófst að við ættum að hætta við þetta leikrit. Þetta væri ekki rétti tíminn, efni þess væri í senn of nákomið okkur en um leið væri það sem er að gerast hundrað sinnum skelfilegra en nokkuð það sem Shakespeare skrifar um í þessu leikriti. En svo fannst mér að þetta væri kannski einmitt viðeigandi stund til að minna okkur á — og þetta hljómar kannski hallærislega — en mér fannst skyndilega málið snúast um evrópsk gildi, þau gildi að við gerum þetta af fúsum og frjálsum vilja, við komumst að því hvað við viljum segja af fúsum og frjálsum vilja og fólkið kemur í leikhúsið af fúsum og frjálsum vilja, og ekkert skal geta breytt því.

Að halda upp á frjálsan vilja er stærsti miðfingurinn sem við getum sýnt Vladimir Pútin því hann á engan óvin hættulegri en frjálsan vilja.

Macbeth á einmitt í baráttu við frjálsan vilja, hann hefur ekki vald á vilja sínum, hann verður að kalla á hið yfirnáttúrulega sér til aðstoðar og hvatningar, og svo þegar allt er á leið í hundana kennir hann hinu yfirnáttúrulega um það sem úr lagi hefur gengið, en í raun er allt sem þú gerir sprottið úr þínum frjálsa vilja. Það er kjarni evrópskrar hugsunar. En fortíðin, og það sem hún hefur safnað í sálarkirnu okkar hvers um sig, það er líka mikilvægt, því má ekki gleyma.

Ég uppgötvaði skemmtilega hlið á því um daginn þegar ég var að spjalla við leikarana mína í Macbeth. Við vorum þá farin að ræða um hvernig ein leiksýning væri eins og barn sem sett er saman úr DNA fólks úr gerólíkum áttum. Og þá er gott að fást við Macbeth því það er svo hnitmiðað leikrit og það getur verið hollt að sjá hvernig mismunandi fólk tekst á við þetta ofbeldi og blóðþorsta og valdsýki og reiði. Og þá fann ég hvað minn austur-evrópski uppruni var mér mikilvægur.

Eins og ég sagði áðan, ég er fædd í sjálfstæðu landi sem vill horfa í vestur og ég hef líklega aldrei metið minn austur-evrópska uppruna nógu mikils, mínar rætur eru þar, vissulega, en mér fannst það aldrei vera stór partur af minni sjálfsvitund. Ég meina, eftir að við Litháar losnuðum undan Sovétinu þá þráðum við það mest að geta talist Norður-Evrópubúar. Við hefðum gefið hvað sem er til að geta sagt: Við erum Norðurlandabúar, við erum ekkert úr austrinu, því Evrópa hneigist svo til að tengja Austur-Evrópu við Rússland og setja alla Austur-Evrópumenn undir sama hatt. En síðan innrásin í Úkraínu hófst þá hefur vitund okkar sem Austur-Evrópumanna einhvern veginn styrkst og við förum ekki lengur í felur með hann.

Og nú vil ég viðurkenna að, já, ég kem frá Austur-Evrópu, en um leið er ég gjörólík þessum Russky Mir, þessum rússneska heimi, við erum allt öðruvísi. Við höfum verið að segja umheiminum í áratugi að þetta myndi gerast, að það væri þurs við bæjarlækinn, og við höfum reynt að vekja athygli á þeim voðaverkum sem þessi heimshluti hefur mátt þola um aldir, ekki bara nú upp á síðkastið, heldur um aldir, en enginn hefur hlustað í alvöru og þeir hafa í rauninni aldrei þurft að taka minnstu ábyrgð á því sem þeir hafa gert, Rússarnir, og aldrei hafa þeir séð neina sök hjá sjálfum sér. Ættingjar mínir voru fluttir til Síberíu eftir að Litháen var hernumið í seinni heimsstyrjöldinni og í nærri öllum litháískum fjölskyldum eru til dæmi um fólk sem var sent í útlegð eða drepið af Rússunum. Bara svo þeir fengju að vaða uppi. Rússar voru heimsvaldasinnuð nýlenduþjóð og eru enn. En þegar við reyndum að segja umheiminum að kannski ætti að líta á landið okkar sem fórnardýr nýlenduveldis, ekki síður en löndin í Afríku eða Asíu, þá fáum við alltaf stórskrýtin viðbrögð, tja, hm, Rússland var nú ekki nýlenduveldi, blablabla, en ég held að trauma nýlendutímans sé mjög lifandi í Litháen enn í dag, og það kemur út sem sameiginlegar minningar sem við eigum öll.

Og einnig mér finnst ég hafa lifað gegnum þessar gömlu hörmungar í eigin sál og skinni, ég sver að þegar ég horfi upp á þau voðaverk sem Rússar hafa framið í Úkraínu, þá — það er erfitt að lýsa þessu, þetta er kannski helst eins og glits í tölvu, eitthvað hrekkur alltaf til baka á sama stað, hörmungarnar eru þarna alltaf, fastar í DNA hvers einasta Litháa, hvers einasta Austur-Evrópumanns.

Og þessu hef ég sem sagt verið að átta mig á, hvernig langtímaminnið getur náð yfir margar kynslóðir og búið í DNA okkar, og þetta vorum við að ræða, leikararnir og ég, og þá rifjaðist upp það sem íslensk leikkona benti mér á fyrir nokkrum árum, að þótt þið Íslendingar ættuð engar minningar um stríð, ekki hér á ykkar eigin landi, þá eigiði minningar um viðureign við óblíða náttúru, eldgos, hafís, ofsaveður, ég veit ekki hvað, og þetta eru að sumu leyti jafn átakanlegar minningar en þó um leið svo gerólíkar. Því við í Litháen, við flúðum út í skógana undan morðvörgum, þar reyndum við að finna skýli og mat og felustaði og öryggi því aðrir menn ætluðu að drepa okkur, og við flúðum undan mönnunum út í náttúruna, hún var okkar skjól.

En þið gerðuð þveröfugt, þið flúðuð frá náttúrunni til manna, því eina leiðin til að lifa af óblíð náttúruöflin var að hjálpast að, þjappa sér saman og byggja samfélag. Og þetta er svo ólíkt DNA. Í mér býr í alvörunni innbyggður ótti við fólk. Ég óttast fólk af því það eina sem við gerðum svo lengi var að drepa fólk eða vera drepin. Og nú er það byrjað aftur. En þið óttist ennþá náttúruna. Eða óttast er kannski fullmikið sagt, en þið hafið allavega varann á gagnvart henni. Því þið vitið frá gamalli tíð að frá náttúrunni stafar ógnin.

Og Macbeth felur allt þetta í sér.

Þetta leikrit er sannarlega barn sem hefur DNA frá hinu yfirnáttúrulega og hinu pólitíska. Þar getur dunið yfir eitthvað óskiljanlegt, eitthvað sem þú munt aldrei átta þig á, en besti vinur þinn gæti líka drepið þig. Og þótt tilefnið sé alvarlegt held ég að þessi samsetning geti orðið … ja, falleg — þetta mjög svo engilsaxneska leikrit sett upp á norðlægri eyju þar sem náttúran liggur í launsátri, og svo ég með mína austur-evrópsku vitund og langtímaminni. Þetta verður þrátt fyrir allt spennandi ferðalag og ég efast ekki um að við rötum á rétta skógarslóðann og finnum sýninguna okkar.“